15.02.1973
Sameinað þing: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

107. mál, íbúðarlán úr Byggingarsjóði ríkisins

Félmrh. (Hannibal Valdimarson) :

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. vitnaði hér, ég held lauslega eða eftir minni, í ummæli, sem ég hefði haft á s. l. ári um fjárhagsmálefni húsnæðismálakerfisins, og var tilvitnunin þess efnis, að ég hefði ráðlagt honum að kikna ekki undan áhyggjum af þessu tilefni, heldur mundi ég verða að rísa undir þeim áhyggjum sjálfur. Það voru hafðar þá uppi mjög miklar hrakspár um það, að Húsnæðismálastofnun ríkisins mundi ekki rísa undir þeim skuldbindingum, sem á henni hvíldu að lögum, á árinu 1972. Það var talað um 300 millj., 500 millj., sem mundi vanta inn í kerfið, til þess að stofnunin gæti staðið við þær skuldbindingar, sem hún ætti að standa undir, veita þeim lán, sem lög heimila, að lán séu veitt samkv. umsóknum. Hvernig fór þetta? Hrakspárnar sprungu allar saman. Húsnæðismálastofnuninni auðnaðist að standa við allar sínar lagalegu skuldbindingar á árinu 1972. Að vísu voru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að afla fjár út yfir það fé, sem kerfið sjálft ákveður. Það tókust samningar við lífeyrissjóðina í landinu um að leggja fram á annað hundrað millj. kr. í lánsformi til húsnæðismálanna, og það var það, sem bjargaði. Þetta var gert, og um áramót þurfti jafnvel minni aðstoð frá Seðlabankanum til þess að komast síðasta spölinn heldur en þurft hefur á undanförnum árum. Byggjendur í landinu fengu það, sem þeir áttu rétt á að lögum, og er þannig ekki um neitt að kvarta varðandi þær skyldur, sem á mér hvíldu og þessari stofnun að því er þetta snertir. Ég held, að það væri þess vegna hyggilegast fyrir hv. þm. að hætta nú við stóryrðaflauminn, slá botni í og láta það vera varðandi árið, sem liðið er, því að þar tala staðreyndirnar á móti honum.

Hitt er víst, að ef á að hækka lánin úr 600 þús. kr. í 900 þús. frá síðustu áramótum, finnst mér allt útlit fyrir, að afla þurfi viðbótarfjár, og það held ég, að þessi hv. þm. hljóti að skilja. Ef hann hefur ábyrgðartilfinningu í þessum efnum, sem ég veit ekkert um, ætti hann að bera fram till. um það, annaðhvort í sambandi við þessa till. eða þá nýja, að afla fjár til húsnæðismálakerfisins, svo að unnt sé á árinu 1973 að standa við 900 þús. kr. lánsupphæð til hvers byggjanda í landinu. Fyrr hefur hann ekki sýnt ábyrgðartilfinningu og ætti ekki að tala um skort á ábyrgðartilfinningu hjá öðrum fyrr en að þessu fullnægðu.