20.02.1973
Sameinað þing: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1987 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hófst verkfall undirmanna á togaraflotanum 22. jan. s. l. eða fyrir rúmum 4 vikum. Enn fremur er ósamið um kaup og kjör yfirmanna á togurunum. Verkfallið stendur enn og tekur nú til 21 togara: 5 skuttogara, 6 nýrri dísiltogara 12–14 ára gamalla og 10 enn eldri síðutogara. Standa málin nú svo, að enginn togari er að veiðum. Þegar litið er til þess, að fob.-verð togaraaflans nam 1400 millj. kr. árið 1971 og 1300 millj kr. árið 1972 eða 10% af útflutningsverðmæti sjávarafurða á síðasta ári, þá er ástæða til að vekja máls á því tjóni, sem þjóðarbúið verður fyrir af langvarandi verkfalli. Þá er og von á enn nýjum skuttogurum til landsins, sem hingað eru keyptir fyrir hundruð millj. kr. til annars en að binda þá við bryggju.

Æskilegast væri vitaskuld, að skilyrði væru slík í efnahagsmálum, að aðilar vinnumarkaðarins, vinnuveitendur og launþegar, leystu ágreiningsmál sín á milli og þess vegna væri það ekki í verkahring hæstv. sjútvrh. eða ríkisstj. að skerast í leikinn. En hvað sem því liður, er ljóst, að hæstv. sjútvrh, og núv. stjórnarliðar á þingi velflestir hafa í stjórnarandstöðu gert þá kröfu til ríkisstj., að hún ýmist kæmi í veg fyrir verkföll eða stuðlaði að lausn þeirra.

Nú eru tvær vikur liðnar, síðan síðasti sáttafundur var haldinn með togaraeigendum og undirmönnum á togurum, og þar sem verkfallið hefur staðið í nær mánuð, eins og áður segir, og ætla verður erlendan gjaldeyrismissi þjóðarbúsins orðinn 100 millj. kr. vegna verkfallsins, þá leyfi ég mér að spyrja hæstv. sjútvrh.:

1. Hvað hefur hæstv. ráðh. og ríkisstj. gert til þess að stuðla að lausn þessa verkfalls?

2. Hvað hyggst hæstv. ráðh. og ríkisstj. gera til þess að skapa grundvöll fyrir því, að togararnir geti aftur hafið veiðar?

Blað hæstv. sjútvrh., Þjóðviljinn, lætur að vísu í ljós í leiðurum sínum s. l. laugardag og aftur nú í dag, að verkfallið sé til komið vegna mannvonzku togaraeigenda, eða eins og blaðið segir: „þeir“ — þ. e. togaraeigendur — „ætlast til þess, að verkfallið komi ríkisstj. illa, og þeir gera ráð fyrir því, að öllu sé borgið, þó að togararnir stöðvist.“ Ég ætla ekki hæstv. sjútvrh. að vera sömu skoðunar og blað hans, en væri svo og verkfallið tilefnislaust að áliti ráðh., er enn frekari ástæða til að fá skýr svör við þeim spurningum, sem ég hef hér á undan lýst.

Sannleikurinn er sá, að rekstrarvandamál íslenzka togaraflotans eru alvarleg. Í fyrsta lagi er togaraflotanum nauðsynlegt að geta boðið togarasjómönnum góð kjör, sem sambærileg séu við það, sem annars staðar standa mönnum nú til boða á sjó og landi. Í öðru lagi verður að horfast í augu við það, að afli togaraflotans íslenzka hefur minnkað um jafnvel meira en 30% á s. l. ári miðað við árið 1970, og er þá átt við veiði á togtíma. Halli togaraflotans árið 1971 er talinn 30 millj. kr. Árið 1972 er hallinn talinn um 70 millj. kr., og er þá búið að taka tillit til 37 millj. kr. bóta úr aflatryggingasjóði og 40 millj. kr. framlags beint úr ríkissjóði. Heildarhalli togaraflotans er því á s. l. ári um 150 millj. kr., og það sem verra er, að rekstraráætlanir telja hallann jafnvel verða álíka háan á þessu ári.

Herra forseti. Þegar verkfall yfirmanna á togurum hafði staðið í tæpar tvær vikur í ársbyrjun 1971 eða fyrir tveimur árum, birtist í blaði hæstv, sjútvrh. eftirfarandi:

„Það er skylda ríkisstj. og þá fyrst og fremst sjútvrh. að beita sér fyrir því, að deilumálin við sjómenn verði leyst án tafar.“

Með tilvísun til þess, að togaraverkfallið hefur nú staðið í nær mánuð, vænti ég, að hæstv. sjútvrh. skorist ekki undan því að svara spurningum mínum, og um leið væri fróðlegt að vita, hvort hæstv. sjútvrh. er sammála málgagni sínu, að það sé skylda ríkisstj. og þá fyrst og fremst sjútvrh. að beita sér fyrir því, að deilumálin við sjómenn verði leyst án tafar.