20.02.1973
Sameinað þing: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

Umræður utan dagskrár

Sigurður Magnússon:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að segja nokkur orð í tilefni þeirra umr., sem hafa farið hér fram um togaradeiluna. Ég vil þá byrja á því að taka undir orð sjútvrh., þar sem hann segir, að vitaskuld verði togarasjómenn að fá sambærileg laun við aðra íslenzka sjómenn. Ég er hins vegar ekki viss um það, að allir séu sammála þessu, og ég ímynda mér, að íslenzk verkalýðshreyfing, sjómenn sem aðrir, muni þá tíð, þegar fyrrv. ríkisstj. sat að völdum, hvernig stefna hennar var í launamálum íslenzks verkafólks. Íslenzkur verkalýður er t. d. ekki búinn að gleyma því, þegar fyrrv. ríkisstj. var að bjóða erlendu fjármagni inn í landið, og til þess að gera allt sem mest aðlaðandi auglýsti hún sérstaklega ódýrt vinnuafl og ódýra orku. Þetta er geymt, en ekki gleymt í hugum íslensks verkafólks.

Varðandi togaraverkfallið nú langar mig til að minna á, að það er ekkert nýmæli, þegar átök eiga sér stað á vinnumarkaðinum, að atvinnurekendur segi, að þeir geti ekki greitt laun, sem verkafólk fer fram á, og allt stefni í voða, ef gengið verði að slíkum kröfum. Ég held, að það hafi reyndar aldrei gerzt, að atvinnurekendur hafi þegjandi og hljóðalaust tekið á móti þeim kröfum, sem verkafólk, sjómenn sem aðrir, hefur sett fram, þannig að ég er ekkert fyllilega trúaður á þær tölur, sem settar eru fram um geigvænlegan halla togaraútgerðarinnar. Þó er vafalaust rétt, að togaraútgerðin býr við verri kost um þessar mundir en oft áður, og til þess er kannske fyrst og fremst ein veigamikil ástæða, og hún er sú mikla aflaminnkun, sem orðið hefur hjá íslenzkum togurum. En í þessu sambandi vil ég minna á eitt atriði, sem þeim þm. hér í salnum, sem hæst tala um þetta, væri rétt að hugleiða. Það á ekki svo lítinn þátt í aflaminnkun íslenzku togaranna nú, hve fyrrv. ríkisstj. var slök við að vinna að okkar landhelgismáli. Hið alvarlega ástand fiskstofnanna í kringum landið stafar ekki sízt af því, að í heilan áratug unnu þessir hv. þm. ekki neitt við að sjá til þess, að landhelgin yrði færð út. Og við vitum líka, að það væri ekki búið að færa þessa sömu landhelgi út í 50 mílur, ef þeir hefðu setið við stjórnvölinn hér í hv. Alþ. Þeir hafa hins vegar verið knúðir til að fallast á stefnu ríkisstj. í því máli, og er að vel. Þetta skulum við hafa hugfast, þegar þm. eru að tala um það hér, að eftir útfærsluna hafi afli glæðzt eða aflaminnkunin ekki verið eins mikil og áður. Það eiga sjómenn sem útgerðarmenn að þakka núv. ríkisstj.

En ef við göngum út frá því sem réttu, að verulegur halli sé á rekstri togaraútgerðar á Íslandi, og tökum mark á öllum þeim barlómi, sem heyrist um það mál, og einnig ef við ætlum að sameinast um það, að ríkisvaldið greiði umsvifalaust alla þá reikninga, sem útgerðarmenn vísa til ríkisvaldsins, þá kemur mér í hug sem leikmanni, hvort ekki væri skynsamlegra einfaldlega að losa sig við þennan millilið, úr því að útgerðarmenn treysta sér ekki til þess að reka skipin og ætlast til þess, að ríkisvaldið greiði umyrðalaust þá reikninga, sem þeir setja fram um þennan halla. Er þá ekki eðlilegt, að ríkisvaldið annist þennan rekstur og greiði hallann, þegar hann er, og fái einnig gróðann, þegar hann er, því að ekki munu þessir ágætu herrar greiða neina sérstaka aukaskatta til ríkisins af þeim gróða, sem er í góðærinu á togurunum? Ég held, — og ég hygg, að almenningur taki undir þetta sjónarmið mitt, — að úr því að þeir geta ekki rekið skip sín, þá sé eðlilegast, að samfélagið annist þennan rekstur. Það mætti kannske líka varpa þeirri hugmynd fram, að það væri rétt að láta sjómennina sjálfa annast rekstur togaranna, og það kæmi líka vel til greina. En þegar að því kæmi, þá er ég viss um, að það heyrðist víða hljóð í horni hjá útgerðarmönnum, og það er ekki víst, að halli væri þá eins verulegur og nú er um rætt.

Varðandi enn eitt atriði, sem komið hefur fram í þessum umr. og mig langar til að víkja að, — það eru afskipti ríkisvalds af verkföllum, — þá vil ég segja fyrst, að það er ekki nóg að tala um afskipti ríkisvalds. Afskipti ríkisvalds geta verið á marga vegu, og það þekkir líka íslenzkur verkalýður. Ég held, að þótt við leitum með logandi ljósi í sögu „viðreisnarinnar“ og sérstaklega af þeim afskiptum, sem sú stjórn hafði af gangi kjaradeilna, en það var ekki í fá skipti, sem hún taldi sig þurfa að hafa afskipti af þeim, þá voru þau afskipti öll á eina lund. Og hver skyldu þau hafa verið? Jú, það var einatt tekin afstaða með atvinnurekendum. Þetta þekkja sjómenn líka. Þeir þekkja þau lög, sem „viðreisnin“ sáluga setti á sjómenn. Það voru aldrei sett lög til að skerða gróða atvinnurekenda. Hann var aldrei nægur fyrir að dómi „viðreisnarinnar“. Því vil ég að lokum segja um þetta atriði: Ég get tekið undir þær raddir, sem segja, að vissulega á ríkisvaldið að skipta sér af þessari deilu, eins og nú er komið. En við Alþb.-menn, — og ég held, að fólkið í landinu taki undir það, — krefjumst þess, að þau afskipti séu á þá eina lund, sem sé í hag íslenzkum sjómönnum á þessum skipum.

Að lokum langar mig aðeins til þess að víkja að orðum hv. 4. þm. Austf. Ég ætla ekki að fara að hætta mér út í það að rekja neinar tölur eða annað slíkt, ég er ekki fær í það. En mig langar til að vefengja eitt, sem kom fram í hans ræðu. Þegar hann var að lýsa kjörum íslenzkra togarasjómanna, hafði hann þá eina helztu viðmiðun, að þau nálgist að vera eins og þingmannalaun. Hvernig fór þessi hv. þm. að því að finna þetta út? Jú, hann tók söluferð eins einstaks togara, sem ég hygg, að sé algert einsdæmi eða allt að því í togarasölu hér á landi. Þannig fann hann út kjör íslenzkra togarasjómanna. Ég vil nú segja við þennan hv. þm., að ég held, að hann ætti að skammast sín verulega fyrir málflutning af þessu tagi hér í þingsölum, þótt ekki væri nema vegna þess, að hann hafði eitt sinn rætur í verkalýðshreyfingunni, þó að þær hafi kannske ekki staðið mjög djúpt. Og við hv. 2. þm. Reykv., sem virðist hafa áhyggjur miklar af gangi þessa máls, væntanlega fyrir hönd þeirra togaraeigenda, sem hann styður dyggilega og hefur gert, þá vil ég segja við hann: Ef hann vill vera sanngjarn og stuðla að lausn þessa máls, ber honum ekki einungis að snúa sér til hæstv. sjútvrh. með fsp. hér á Alþ., heldur ber honum að tala um þetta í sínum eigin flokksröðum og fá þá menn, sem hópum saman sitja þar á bekk og eru í útgerð, til þess að fallast á sanngjörn sjónarmið sjómanna.