20.02.1973
Sameinað þing: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð að vísu af fjarskalitlu tilefni, en það voru orð hv. 3. þm. Reykv., varaþm. Hann sagðist ekki vera trúaður á hina slæmu útkomu í rekstri þessarar atvinnugreinar, eins og forustumenn hennar héldu fram. Ég vísa honum til hæstv. sjútvrh. með það mál. Hann getur borið það undir hann og fengið þar skýr svör um það efni. Hann taldi, að hér væri skelfilegur barlómur á ferðinni. Hæstv. sjútvrh. getur svarað honum þessu líka. Hann áleit, að úr því að svona væri komið, ætti að setja þá af, sem gætu ekki rekið sín skip, og ríkisvaldið ætti sjálít að taka við. Ég vildi gjarnan, að hann kynnti sér álit hæstv. sjútvrh, á slíkri málsmeðferð. Ég er nefnilega ekki viss um, að hann yrði honum sammála í því efni, enda þótt þessi ungi maður tæki fram, að hann áliti, að öll þjóðin væri helzt á öllu því, sem hann hélt hér fram. Hann getur líka spurt hæstv. sjútvrh. að því, hvort eingöngu eigi að hafa það fyrir augum, sem hann sagði, að Alþb. krefðist, að væri hagur sjómannastéttarinnar. Það þarf nefnilega að taka tillit til ýmissa annarra þátta, og heildin verður helzt að ganga fyrir.

Hv. þm. sagði, að ég hefði tekið hér mið af einstæðu dæmi í sambandi við veiðiferð og söluferð togara. Það gerði ég ekki. Þetta var misskilningur, og hann hefur ekki fylgzt nógu vel með. Það var langt í frá, að ég tæki dæmi um þau laun, sem ég nefndi þarna, af hæstu sölu, sem dæmi þekkjast hér um. Því fór alls fjarri. Það var af sölu, sem var helmingi lægri, þannig að rétt væri að fylgjast betur með, áður en menn fullyrða eins og gert var. (Gripið fram í.) Það var ég ekki að segja, og þetta sýnir, að hann hefur ekkert vit á, hvernig þessi laun eru útreiknuð eða hvernig yfirleitt þessi mál standa, því að það er fjarri því, þótt sala hækki um helming, að laun hækki um helming þar af leiðandi.

Hv. þm. gerði að einu aðalerindi sínu hér að skora á hv. 2. þm. Reykv. að beita sér fyrir því, þar sem hann hefði á því tök, að togaraútgerðarmenn féllust á þær kröfur, sem sjómenn settu fram. Má ég benda á það, að í umr. hefur komið fram, að það ber svo til ekkert þar í milli. Jafnvel áður en verkfallið skall á, lá það fyrir, að endar væru að nást saman. Þetta getur foringi hans, hæstv. sjútvrh., líka upplýst hann um.

Ég vil svo að endingu taka undir það, að allir aðilar beiti sér nú fyrir því heils hugar að reyna að leysa þetta mikla vandamál. Það er vitanlega alveg óþolandi, að þessi mikilvægu atvinnutæki séu bundin við bryggju. Menn greinir að vísu á um leiðir sem fyrrum, en ég tek nú undir það, sem kom fram í einni ræðu hæstv, ráðh. og hv. 2. þm. Vesturl. tók undir, að reynt verði að tengja þetta saman, reynt verði að hnýta enda saman með þeim hætti, að skoðuð verði nauðsyn útgerðarinnar og samhliða, svo sem auðvelt ætti að vera, yrðu kjör sjómannanna tekin inn í dæmið.