20.02.1973
Sameinað þing: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm. hóf ræðu sína á því, að núv. ríkisstj. hefði fellt gengi íslenzku krónunnar þrisvar sinnum, og það var helzt að heyra á því, sem hann sagði, að hann áliti, að þessar þrjár gengisbreytingar, sem hér er um að ræða, hefðu allar verið gerðar, eins og venjulega hefur verið um gengislækkanir, sem hér hafa verið ákveðnar, til þess að styrkja eða styðja okkar útflutningsatvinnuvegi. Ég held, að það sé nauðsynlegt fyrir alla að gera sér fulla grein fyrir því, að hér er ekki um að ræða venjulegar gengislækkanir í þessi þrjú skipti. Það, sem gerðist í gengismálum okkar í des. árið 1971, þegar við skráðum gengi okkar krónu á nýjan leik í hlutfalli við dollar, var allt annars eðlis en þegar um það er að ræða að fella gengi krónunnar, eins og oft hefur verið gert, til stuðnings okkar útflutningsatvinnuvegum. Sú skráning, sem þá var tekin upp á krónunni, var ekki gerð til þess að bæta hag útflutningsatvinnuveganna frá því, sem hann hafði verið fyrir þá nýju skráningu. Sennilega hefur sú skráning farið fram með þeim hætti, að fremur hefur hallað á útflutninginn frá því, sem áður var, en ekki öfugt. Þá fór fram skráning á íslenzku krónunni í hlutfalli við þær staðreyndir, sem þá lágu fyrir um skráningu á öðrum gjaldeyri. Svipað var að gerast nú um miðjan febrúarmánuð, þegar við skráðum á nýjan leik gengi íslenzku krónunnar með hliðsjón af gengi annars gjaldeyris vegna breytingar þar á. Við skulum athuga þetta aðeins nánar, ef ekki liggur ljóst fyrir mönnum, hvernig þetta kemur raunverulega út.

Á það hefur verið bent, að um það bil 63% af gjaldeyristekjum Íslendinga séu í dollurum og eins og sakir standa nú séu um 13% af tekjunum í pundum, sem breytast ekki heldur í verðgildi neitt sem teljandi er. Hér er því um það að ræða, að gjaldeyristekjur, sem nema um 76% af heildargjaldeyristekjunum, hreyfast ekki neitt til í íslenzkum krónum. Í íslenzkum krónum verður um nákvæmlega sömu tekjur að ræða fyrir útflutninginn varðandi allt þetta stóra hlutfall. Hins vegar ætti að hafast nokkur ávinningur í íslenzkum krónum af útflutningi að öðru leyti, þ. e. a. s. sem nemur um 24%. En raunverulega er það svo, að í mjög mörgum tilvikum höfum við þegar selt okkar útflutningsvörur yfir á það gjaldeyrissvæði einnig í dollurum. Þetta kemur t. d. mjög skýrt fram núna. Langsamlega stærsti kaupandi okkar að fiskimjöli er Pólland, og sölusamningurinn við Pólland á fiskimjölinu, er í dollurum. Við seljum einnig mikið af saltfiski í Portúgal, og við seljum hann einnig í dollurum. Við eigum allmikil viðskipti við Austur-Evrópulöndin, t. d. Rússland, og megnið af okkar samningum við þessar þjóðir er í dollurum, og við fáum ekki breytingu á tekjum af útflutningi inn á þessi svæði varðandi þá samninga, sem þegar hafa verið gerðir.

Þegar dæmið um útflutning okkar er gert upp varðandi hina nýju skráningu á krónunni nú gagnvart dollar, lítur það raunverulega þannig út, að útflytjendur fá ekki fleiri íslenzkar krónur en þeir fengu áður fyrir þann mikla útflutning, sem á sér stað inn á dollarasvæðið, en hins vegar verða útflytjendur að taka á sig verulega hækkun á innfluttum nauðsynjum sínum til þess að framleiða sinn útflutning inn á dollarasvæðið. Bátarnir eru yfirleitt keyptir fyrir Evrópugjaldeyri. Vélar og gjaldeyrir eru keypt fyrir Evrópugjaldeyri. Veiðarfærin eru keypt fyrir annan gjaldeyri, þau kaupum við yfirleitt ekki frá dollarasvæði.

Raunverulega er það svo, að sú gengisskráning, sem fór fram nú í febrúar, er ekki gerð útflutningnum í hag. Við vorum aðeins að verðskrá okkar gjaldeyri í hlutfalli við það, sem aðrir höfðu skráð sinn gjaldeyri. Hér er því ekki um að ræða gengislækkun í venjulegri merkingu orðsins, að það sé verið að færa til fjármuni á milli vissra aðila í okkar þjóðfélagi. (BGuðn: En desembergengisfellingin?) Alveg rétt, ég kem að henni núna. En af því að fyrirspyrjandi minntist á þrjár gengislækkanir, mátti ég til með að segja þetta, til þess að það færi ekkert á milli mála, að við a. m. k. værum sammála um, að á þessu tvennu er alger skilsmunur.

Varðandi gengislækkun þá, sem ákveðin var af ríkisstj. í des. á s. l. ári, eða 1972, þá var um venjulega, hreinræktaða gengislækkun af íslenzkri tegund að ræða. Það var verið að ákveða með gengislækkun að lækka verðgildi íslenzku krónunnar gagnvart öllum öðrum gjaldeyri, og þegar slík ákvörðun er tekin, er það gert venjulega hér á landi með þeim röksemdum, að það þurfi að færa fjármuni yfir til útflytjenda frá öðrum aðilum í þjóðfélaginu. Fyrir áramótin var því haldið fram, að það væri óhjákvæmilegt að veita okkar aðalútflutningsgreinum aukinn stuðning, að útflutningurinn þyldi ekki það innanlandsverðlag, sem hér væri orðið, og það þyrfti að færa fjármuni yfir. Við vitum, að það voru uppi mismunandi sjónarmið á því, hvernig þetta ætti að gerast. Það fór ekkert leynt, að ég var t. d. í hópi þeirra manna, sem töldu eðlilegast að færa yfir fjármuni til útflutningsins með millifærsluleið. Aðrir töldu hins vegar, að miklu hreinlegra væri að staðið og einfaldara að lækka gengi íslenzku krónunnar og flytja þannig vissa fjármuni yfir til útflutningsins, en þó að gera það í þetta skipti með þeim hætti, að vísitalan væri í fullum gangi og mældi allar þær verðhækkanir, sem yrðu af gengisbreytingunni. Það var auðvitað öllum ljóst, að gengisbreyting af þessu tagi gat ekki komið okkar útflutningsatvinnuvegum að gagni nema tiltölulega stuttan tíma. Þegar verðlagið hafði aftur hækkað vegna gengisbreytingarinnar og hafði komið inn í kaupgjaldsvísitölu að fullu, þá mátti segja, að áhrif gengislækkunarinnar væru að fullu uppétin fyrir okkar útflutningsatvinnuvegi. Ég hygg, að allir, sem stóðu að þessari gengislækkun, hafi gert sér grein fyrir því, að svona færi, að áhrifin af þessari gengislækkun gætu ekki verið langvarandi. Það var hægt að deila um það, hversu langan tíma þetta entist, en enginn dró dul á, að þannig mundi þetta verða.

Nú er það hins vegar svo, að síðan ákvörðun var tekin um þessa gengislækkun í des. s. l., hafa orðið talsvert verulegar hækkanir á okkar helztu útflutningsvörum. Sú verðhækkun kemur til með að standa, eins og hv. þm. sagði hér. Hún er því af allt öðrum toga spunnin. Útflutningsframleiðslan kemur til með að búa að þessum verðhækkunum lengur en í nokkra mánuði. Hins vegar er það, að þessar verðhækkanir, sem hér hefur verið minnzt á, eru ekki svo almennar, að þær nái yfir allan okkar útflutning.

Ég var á þeirri skoðun í des. s. l., að við þyrftum að færa fjármuni yfir til útflutningsatvinnuveganna, og ég held, að málin hafi staðið þannig, að það hafi verið óhjákvæmilegt að gera það, miðað við þær forsendur, sem þá lágu fyrir. En ég held, að af hinum jákvæðu áhrifum fyrir okkar útflutning af þeirri gengisbreytingu standi ekki mikið eftir, þegar fer að líða dálítið fram á árið. Ég álít hins vegar, að þær verðhækkanir, sem þegar hafa komið fram á okkar útflutningsvörum, og þær verðhækkanir, sem ég geri mér vonir um, að eigi eftir að koma fram, — því að það er margt, sem bendir til þess, að við getum átt von á hækkandi verði fyrir okkar útflutningsafurðir, — ég held fyrir mitt leyti, og það er það, sem ég var að segja á fundi kaupmannasamtakanna, að ef þær verðhækkanir, sem nú eru komnar fram, hefðu legið fyrir í des., þá hefðu verið meiri líkur til þess, að menn hefðu valið aðra leið en þá, sem valin var, því að auðvitað vissu allir, að sú leið, sem valin var, hlaut að leiða af sér verðhækkanir, og verðhækkanirnar hafa verið að koma fram.

Það er ekkert nýtt hjá okkur, að menn séu á mismunandi skoðunum um leiðir, einn vilji frekar þessa leið og annar einhverja aðra, og það er ekki það, sem skiptir hér höfuðmáli. Hitt er alveg ljóst, að ef við hefðum nú valið þann kostinn að fella ekki okkar gjaldeyri til samræmis við fall dollarans, þá hefðum við verið að leggja nýja bagga á okkar útflutning. Við hefðum ekki náð því marki sem hv. þm. sagði að ef við hefðum ekki fylgt dollarnum, þá hefðum við notið betri viðskiptakjara. Viðskiptakjör þjóðarinnar hefðu orðið nákvæmlega þau sömu. Við hefðum fengið aðeins minna fyrir útflutninginn, en líka þurft að borga minna í krónum fyrir okkar innflutning. En í hinu tilfellinu þurfum við að borga aðeins meira fyrir innflutninginn, en fá þá líka aðeins meira fyrir útflutninginn.

Það er rétt, að ef við hefðum metið stöðuna þannig, að okkar útflutningur hefði nú getað tekið á sig verulega aukna bagga, þá hefðum við ekki átt að fella krónuna alveg til jafns við dollarinn. En vegna þess að við töldum, að hagur útflutningsframleiðslu okkar væri ekki þannig, að hún gæti tekið á sig nýja bagga, þá töldum við rétt að skrá gengi krónunnar raunverulega miðað við ytri aðstæður. Við vorum ekki að framkvæma gengislækkun af þeirri venjulegu gerð, sem hér hefur verið iðkuð, þ. e. a. s. til þess að færa fjármuni á milli aðila hér útflutningnum í hag.

Hv. þm. spurði einnig, hvort fyrir lægi vitneskja um það, hvað liði framfærsluvísitölunni eða kaupgjaldsvísitölunni á komandi mánuðum. Jú, það liggja fyrir allmargir spádómar um það. Þeir hafa oft verið settir fram, og það er ekki ýkjamikið á þeim spádómum að græða að mínum dómi. (Forseti: Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort hann treysti sér til að ljúka ræðu sinni á þessum fundi. Fundurinn verður að enda um hálffimm. Ég á eftir að taka eitt mál fyrir, þannig að umr. utan dagskrár geta ekki staðið nema svo sem tvær mínútur enn, og verð ég þá að biðja hæstv. ráðh. að fresta ræðu sinni þangað til í upphafi næsta fundar og hafa þá framhaldsnmr.) Nei, ég skal ljúka máli mínu alveg strax. Ég sem sagt svara þessari spurningu þannig, að ég get ekki gefið upplýsingar um það á þessari stundu, hver framfærsluvísitalan muni verða á komandi mánuðum, því að það er augljóst, að um næstu mánaðamót mun kaupgjaldsvísitalan hækka um 6–7%, og það er greinilegt, að allmiklar hækkanir eiga eftir að ganga hér yfir á næstu mánuðum, en hversu miklu það nemur í vísitölu, því get ég ekki svarað.

Ég held svo, að ég hafi svarað í aðalatriðum því, sem hv. þm. spurði um. Vegna þeirrar hagstæðu þróunar, sem orðið hefur í verði okkar útflutningsafurða, finnst mér, að meiri líkur hefðu verið til þess, að önnur leið hefði verið valin, en það þýðir vitanlega ekki á neinn hátt, að hægt sé að hlaupa yfir það, sem er búið að gera, vegna þess að verðhækkanirnar, sem fylgdu í kjölfar þeirrar gengisbreytingar, eru þegar komnar fram og komnar út í hið almenna verðlag.