20.02.1973
Sameinað þing: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2016 í B-deild Alþingistíðinda. (1567)

161. mál, þjóðvegakerfið

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Hinn 16. maí 1972 var samþ. hér á Alþ. till. til þál. um yfirlitsáætlun um fullnaðaruppbyggingu þjóðvegakerfisins samkv. vegalögum. Þál., sem samþ. var, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela Vegagerð ríkisins að láta á árinu 1972 gera lauslega yfirlitsáætlun um fullnaðaruppbyggingu þjóðvegakerfisins og kostnað við hana miðað við þá gerð vega, sem stefna ber að samkv. 12. og 13. gr. vegal., nr. 98 1970, og þá flokkun vega, sem upp verður tekin í vegáætlun fyrir árin 1972–1975.“

Ef ég man rétt, var till. sú, sem hér er um að ræða, flutt af 11 þm., en þál., sem samþ. var, var nokkuð öðruvísi en till., þ. e. a. s. till. var breytt í n. í samræmi við umsögn vegamálastjóra um þetta mál. Þar sem það var gert, var talið, að það ætti að vera nokkurn veginn tryggt, að till. væri framkvæmanleg á þeim tíma, sem hér er um að ræða, þ. e. a. s. á s. l. ári. Nú hef ég ekkert heyrt um framkvæmd þessarar till., en vona, að að henni hafi verið unnið, og fsp., sem ég hef leyft mér að flytja, er svohljóðandi:

„Er lokið framkvæmd þál. 16. maí 1972 um yfirlitsáætlun um fullnaðaruppbyggingu þjóðvegakerfisins samkv. vegal., og ef svo er, hver er þá aðalniðurstaða kostnaðaráætlunarinnar?“

Ég geri ráð fyrir því, að þegar búið er að framkvæma þál. eða ef hún hefur þegar verið framkvæmd, verði gefin skýrsla um það til Alþingis, en það, sem ég spyr um, eru aðeins niðurstöður kostnaðaráætlunarinnar.