26.10.1972
Sameinað þing: 8. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

264. mál, útbreiðsla sjónvarps

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Eins og flestum landsmönnum mun vera ljóst, eru ýmis byggðarlög, sem hafa ekki ennþá möguleika á að sjá sjónvarp, og víða eru sjónvarpsskilyrði misjöfn, og þó að menn hafi af því einhver not, þá er ástandið alveg óviðunandi. Þannig er það t.d. víða í Norðurl. e. Þar eru heil sveitarfélög, sem hafa enga möguleika á því að sjá sjónvarp. Í Grímsey voru t.d. einhver skilyrði fyrst á árum sjónvarpsins, en nú eru þau sama og engin, a.m.k. venjulega. Það var áætlað að gera eitthvað í þessu á s.l. sumri, en því miður féll það niður. Í Öxnadalshreppi er þetta alveg eins. Þar sést ekki sjónvarp, og fremst á Þelamörk eru skilyrðin annaðhvort engin eða mjög slæm. Þarna eru um eða yfir 20 bæir í einni röð, ef svo má segja, þar sem fólk sér ekki sjónvarp. Sama má segja um Bárðardal. Þar er það aðeins á fremstu bæjunum, sem eru einhver mjög léleg skilyrði til sjónvarpsviðtöku, en annars staðar eru þau mjög léleg eða engin. Svona er þetta víða annars staðar, t.d. í kringum Laugar, á Yztafellsbæjunum í Köldukinn, og þannig mætti lengi telja. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. menntmrh.:

„1. Hvenær má vænta þess, að sjónvarp nái til allra landsmanna?

2. Liggur fyrir kostnaðaráætlun til að ná því marki?

3. Á hvaða stöðum er talin þörf á að byggja sjónvarpsstöðvar í Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslum, og hvenær er ráðgert, að það verði gert?“