21.02.1973
Neðri deild: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2030 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

Umræður utan dagskrár

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af þessum umr. utan dagskrár. Þessar fréttir, sem hæstv. forsrh. drap á, verka á mann eins og fremur ósmekklegt nart, sem ekki á að koma til greina á stórum stundum eins og þeirri, sem ég vil segja, að öll Norðurlönd hafi lifað í sambandi við afgreiðslu þessa mikla máls okkar. Við skulum bara vona, að þetta verði þá ekki meira og það sýni sig, að þetta sé eins og hver önnur yfirsjón, sem mér sýnist, að blaðamönnum hafi orðið á, og það sitji við það, og vonandi verður það þannig.

Ég stóð upp hér fyrst og fremst, fyrst tilefni var til þess, til að færa fram þakkir til hæstv. forsrh. fyrir frábæra framkomu hans í Norðurlandaráði í sambandi við þetta stórfellda mál. Það þarf ekki að tala neina tæpitungu um það, auðvitað hefur oltið mest á honum í þessu, því að um málið hefur verið fjallað fyrst og fremst á vegum forsrh. og forsætisnefndarinnar. Ég vil þakka honum alveg sérstaklega fyrir hans Framkomu í þessu og þann stórfellda árangur, sem náðst hefur, sem áreiðanlega er langt fram yfir það, sem nokkur maður bjóst við. Mér finnst, að það eigi ekki að verða umr. um þetta hér, án þess að þetta sjónarmið komi fram, sem ég er alveg sannfærður um, að er skoðun allra hv. þm. og raunar allrar þjóðarinnar. Við bjuggumst við öllu góðu af hálfu Norðurlanda, en við gerðum tæpast ráð fyrir, að afgreiðsla þessa máls yrði jafnstórhöfðingleg og raun hefur á orðið. Og eins og hæstv. forsrh. drap á, er enginn vafi á því, að þar hefur mjög hjálpað til, að á málinu hafði verið tekið hér á hv. Alþ. og af hæstv. ríkisstj. eins og fyrir lá, og einmitt vegna þess, eins og síðasti hv. ræðumaður sagði, getum við með fullri reisn tekið á móti þeirri hjálp, sem þarna er fram rétt. En tæpast hefðum við getað það, hefðum við ekki verið búnir sjálfir að gera þessar fyrstu ráðstafanir.

Ég álít, að hér hafi gerzt stór atburður í sögu Norðurlanda, sem menn muni lengi njóta, ekki bara Íslendingar, heldur einnig aðrir á Norðurlöndum. Ég held, að við höfum allt aðra tilfinningu og sterkari fyrir því, hve mikla þýðingu það hefur að halda saman á Norðurlöndum, eftir það, sem gerzt hefur, og ég held, að það muni einnig vera svo á hinum Norðurlöndunum, menn sjái, að það er í þessu fólgin veruleg trygging og stórkostlegt öryggi fyrir allar þessar þjóðir að halda saman, þegar á móti blæs.