21.02.1973
Neðri deild: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2030 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr.Hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að í þessum fréttum frá blaðamönnum, fréttariturum, hefði ekki verið nein áreitni. Það voru ekki mín orð. Ég sakaði þá ekki um áreitni. En þeir sendu skeyti, sem var til þess fallið að vekja ákveðnar hugmyndir, og ég taldi það skyldu mína að skýra Alþ. nánar frá þessu og gera grein fyrir því, hvernig ég hefði komið fram í þessu máli, og gera grein fyrir því hvers vegna ég var ekki viðstaddur þennan síðasta fund og hvers vegna ég taldi það eðlilegri hátt, að það væri maður úr þm.-hópi, formaður sendinefndar, sem þakkaði fyrir, heldur en ráðh. Það greiða alls ekki allir þeir, sem sitja í Norðurlandaráði, atkv. Aðeins þingkjörnir fulltrúar greiða atkv. þar, en ekki ráðh. Það, sem fyrir mér vakti, var ekki á neinn hátt að hafa uppi áreitni við einn eða neinn í þessu sambandi, enda væri ekki sæmandi í sambandi við þetta mál að vekja deilur, heldur vildi ég aðeins staðfesta í þingtíðindunum þessi atriði, sem ég sagði, af því að ég tel, að hér sé um svo mikilsvert atriði að ræða, að ég vil ekki láta söguna halda fram, að ég hafi viljað sýna eitthvert tómlæti í sambandi við þetta mál, eins og menn gætu haldið, ef þeir hefðu ekki fengið neitt annað fram um það heldur en það, sem stóð í fréttaskeytum.