22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2041 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs á fundi í fyrradag vegna fsp., er hv. 3. landsk þm., Bjarni Guðnason, gerði þá til viðskrh., bæði vegna ummæla hans og ummæla hæstv. viðskrh. þá.

Ég skal ekki fjölyrða um þá kenningu hæstv. viðskrh. og sjútvrh., að þær þrjár gengisfellingar, sem orðið hafa á valdatíma núv. ríkisstj., séu raunar aðeins ein, þ. e. sú, er gerð var í des. s. l. Það var á ráðh. að skilja, að eðlilegt og sjálfsagt væri að skrá íslenzku krónuna í samræmi við dollarann, á hverju sem gengur. Athyglisvert er raunar, að sósíalisti, Alþb.-maður í ráðherrastóli leggur áherzlu á að fylgja dollarnum 100%. Ég vil aðeins taka fram, að þótt við miðum við, að útflutningsatvinnuvegirnir standi jafnt að vígi eftir breytingar á gengisskráningu dollarans og áður, hefði ekki þurft þess vegna að fylgja dollarnum 100%. Fyrsta gengisfallið nam tæpum 8%, þ. e. á síðari hluta árs 1971, en þurfti ekki samkv. þessum mælikvarða, að því er snertir íslenzka útflutningsatvinnuvegi, að vera meira en 5–6% á íslenzku krónunni. Önnur gengisfellingin, frá því í des. s. l., nær 11%, var hreinræktuð íslenzk gengisfelling, eins og hæstv. sjútvrh. komst að orði. Þriðja gengisfellingin, nú í febrúar, var 10%, en þurfti samkv. tilkynningu Seðlabankans að vera 7–8% á íslenzku krónunni, svo að útflutningsatvinnuvegirnir stæðu jafnt að vígi eftir og áður. Hreinræktuð íslenzk gengisfelling, sem skrifast verður eingöngu á reikning núv. ríkisstj., er því a. m. k. um 16% á 1½ ári á sama tíma og helztu útflutningsafurðir okkar hafa stórhækkað í verði, t. d. frystur fiskur um 20–25% og jafnvel meira, loðnu- og þorskmjöl um 100%, og er nú hækkun þess komin í 200%, þótt síðustu hækkunar muni lítið gæta í sölu okkar á þessari vertíð.

Hér skal ekki dregin í efa þörf útflutningsatvinnuvega okkar á þessum ráðstöfunum þrátt fyrir stórhækkað útflutningsverð. En með þessu mati hefur ríkisstj. staðfest, að útflutningurinn þyldi ekki það innanlandsverðlag, sem hér væri orðið, svo að notað sé enn orðalag hæstv. sjútvrh., heldur þurfti 16% hreinræktuð íslenzk gengisfelling til að koma og dugði raunar ekki til, því að til viðbótar voru samþykktar, þegar fiskverð var ákveðið, 160 millj. kr. uppbætur til sjávarútvegsins á kostnað ríkissjóðs.

Engum blöðum er um það að fletta, að hækkun þessa innanlandsverðlags er heimatilbúin vandi ríkisstj. sjálfrar, sem við hana eina er að sakast um, eins og oft hefur verið gerð grein fyrir hér á Alþ. Hér er að vísu um liðinn tíma að ræða og þegar drýgðar syndir. Rétt er hjá hæstv. sjútvrh., að sumt af þessu verður ekki tekið til baka eða bætt. En óhugnanlegast er, að hæstv. ríkisstj. sýnist vera ráðlaus, hrekjast áfram á sömu hrakfallabraut og verið hefur.

Gengisfellingin í des. á s. l. ári átti að vera öllum gengisfellingum betri. Í fyrsta lagi var hún sögð heldur minni en oft áður, sem orkar tvímælis, eins og ég hef áður rakið, og í öðru lagi áttu launþegar að fá bættar allar verðhækkanir, sem yrðu af völdum gengisfellingarinnar, með hækkun kaupgreiðsluvísitölunnar. Um síðara atriðið sagði hæstv. sjútvrh. — ég held orðrétt — í fyrradag, að vísitalan ætti að vera í fullum gangi og mæla allar þær verðhækkanir, sem yrðu af gengisbreytingunni, og það var auðvitað öllum ljóst, að gengisbreyting af þessu tagi gat ekki komið okkar útflutningsatvinnuvegum að gagni nema tiltölulega stuttan tíma. Enn fremur sagði ráðh.:

„Ég hygg, að allir, sem stóðu að þessari gengislækkun, hafi gert sér grein fyrir því, að þetta færi svona, að áhrifin af þessari gengislækkun gætu ekki verið langvarandi.“

Hér tekur hæstv. sjútvrh. undir gagnrýni stjórnarandstöðunnar á því, hvernig staðið hefur verið að gengisfellingum ríkisstj., og þótt sjútvrh. segi nú öllum hafa verið þetta ljóst í des. s. l., þá reyndu stjórnarsinnar að leyna almenning þessu sem mest þeir máttu, m. a. í umr. hér á Alþ. fyrir jólin, og hrósuðu sér þvert á móti af því, að kaupgreiðsluvísitalan mundi mæla launþegum hækkað kaup. En nú verður þessu ekki leynt lengur, því að hin jákvæðu áhrif fyrir útflutning okkar af þeirri gengisbreytingu standa ekki, þegar liðið er fram á árið, eins og ráðh. sagði okkur hér í fyrradag. Það er sem sagt komið að skuldadögum. Spurningin er: Hvað tekur þá við? Var ráðh. að boða fjórðu gengisfellinguna — eða réttara sagt röð gengisfellinga, sem koma mundu?

Ef núv. stjórn ræður málum lengur með sama hætti og verið hefur, býst ég við, að slík þróun verði tæpast umflúin. Vitnað hefur verið í þessum umr. af hálfu hv. 3. landsk. þm. í orð hæstv. ráðh, á fundi kaupmannasamtakanna fyrir skömmu. Þar sagði ráðh. einnig:

„Ég viðurkenni það, að þeir tímar geti verið, að það sé óhjákvæmilegt að fella gengið og gera tilfærslur í þjóðfélaginu. Ég viðurkenni ekki, að gengisfelling sé almennt neitt lausnarorð, og allra sízt meðan þær stéttir í þjóðfélaginu, sem hafa mikil völd, eru ákveðnar að afnema áhrif tilfærslunnar tiltölulega fljótt á eftir. Slíkar gengislækkanir hafa raunverulega lítið annað að segja en að færa okkur bara á nýtt útreikningsborð.“

Ég er ekki með öllu ósammála hæstv. ráðh. í þessum orðum hans. En mér sýnist, að með þessum orðum hafi ráðh. einnig verið að boða fjórðu gengisfellingu núv. stjórnar eða áframhaldandi gengislækkanir.

En þessi orð eru einnig forvitnileg á margan annan hátt. Hverjar eru þær stéttir í þjóðfélaginu, sem hafa mikil völd og eru ákveðnar að afnema áhrif nauðsynlegra tilfærslna útflutningsatvinnuvegum í hag? Á ráðh. við samtök launþega, Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Verkamannasambandið? Er þá þannig komið því stefnuskráratriði hæstv. núv. ríkisstj., að hafa sem nánast samstarf við samtök launafólks og atvinnurekenda um ráðstafanir í efnahagsmálum?

Herra forseti. Að gefnu tilefni þessara umr. utan dagskrár er þessum aths. og spurningum hér með komið á framfæri.