22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2043 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

Umræður utan dagskrár

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Þegar ég hóf þessar umr. utan dagskrár s. l. þriðjudag, vakti það fyrir mér að fá staðfestingu á því hjá hæstv. viðskrh., að gengisfellingin, tæp 11%, í des. hefði verið í ljósi síðustu atburða mistök, og jafnframt vildi ég vekja athygli á hinni háskalegu verðlagsþróun, sem nú er fram undan í landinu. Ég tel, að í ræðu hæstv. viðskrh. hafi komið berlega fram, að hefði hann haft fyrir sér þá miklu verðhækkun, sem orðið hefur á íslenzkum sjávarafurðum á Bandaríkjamarkaði, þá hefði gengisfelling í des. að hans mati ekki komið til greina. Jafnframt lét hann, að ég hygg, orð falla um það, að hún hefði komið í raun og veru að litlum notum, því að áhrif hennar til hagsbóta fyrir útflutningsatvinnuvegina yrðu uppurin á nokkrum mánuðum. Þar með liggur í raun og veru fyrir opinber viðurkenning um það, að gengisfellingin í des. var, hvernig sem á er litið, sú leið, sem sízt átti að velja til lausnar efnahagsvandanum.

Nú hefur komið fram það, sem ég færði fram gegn desembergengisfellingunni. Hið vaxandi aflaverðmæti sjávarafurða og látlaus verðhækkun á útfluttum sjávarafurðum gerði hana ástæðulausa. Eðlilegar forsendur fyrir gengisfellingunni voru ekki fyrir hendi. Og nú hefur þorskblokkin, sem er meginstofn sjávarafurða á Bandaríkjamarkaði, hækkað um hvorki meira né minna en 10% frá áramótum eða um 53 cent, og ég fæ ekki séð, að það séu neinar sérstakar líkur á því, að verðið hætti að stíga.

Ríkisstj. hefur staðið að þremur gengisfellingum. En enginn getur láð henni þá fyrstu og síðustu, þar til koma ytri orsakir. En hinu er ekki að leyna, að mér kemur það nokkuð spánskt fyrir sjónir, að íslenzka krónan skyldi nú vera látin fylgja dollarnum að öllu leyti í stað þess að fara bil beggja, gjaldmiðla þeirra þjóða í Evrópu annars vegar, sem héldu gengi sínu óbreyttu, og Bandaríkjadollara hins vegar, úr því að gengisfellingin í des. var í raun og veru óþörf og þorskblokkin hefur hækkað um 10% frá áramótum og heldur að öllum líkindum áfram að hækka. Í þessu fæ ég ekki séð rökrænt samhengi hlutanna.

Síðasta gengisfellingin eykur verulega á efnahagsvanda þjóðarinnar, því að nú hækkar gjaldmiðill Evrópuþjóða, að vísu misjafnlega mikið, en frá þessum löndum kemur meginútflutningurinn, og segir þetta til sín í hækkuðu vöruverði innanlands. Úr þessari hækkun hefði mátt draga að einhverju leyti með því að fylgja ekki dollarnum að öllu leyti við gengisbreytinguna nú í síðustu viku.

Þegar litið er á málin í heild, gengisfellinguna í des., gengisfellinguna í s. l. viku og launahækkanir fram undan um næstu mánaðarmót, þar sem laun hækka milli 12 og 13.7%, er ljóst, að fram undan eru einhverjar mestu víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags allt frá stríðslokum. Það má ætla, að framfærsluvísitalan hækki um hvorki meira né minna en 20% frá 1. nóv. 1972 til 1. nóv. 1973, og ég þarf ekki að tíunda fyrir þingheimi þær afleiðingar, sem slík verðlagsþróun hefur fyrir hina margumtöluðu og þýðingarmiklu útflutningsatvinnuvegi og jafnframt fyrir allt efnahagslífið. Ég á t. d. bágt með að sjá, hvernig íslenzkur iðnaður og einkanlega sá hluti hans, sem ekki er fyllilega samkeppnisfær á erlendum mörkuðum, komi til með að standa undir þeim rekstrarkostnaði, sem af þessu leiðir. Og hið sama gildir að sjálfsögðu um aðrar atvinnugreinar. Vil ég t. d. minna á hækkandi rekstrarvörur bænda o. s. frv. Hið ömurlega er, að þegar allar þessar verðhækkanir eru komnar inn í verðlagið, má ætla, að útflutningsatvinnuvegirnir standi það illa að vegi, að gengisfellingaröflin í þjóðfélaginu knýi þá fram enn eina gengisfellingu. Kannske gerist það þá að verkalýðsforingjar standi fyrir því. Og þannig heldur leikurinn áfram.

Um leið og ég lýsi áhyggjum mínum, þungum áhyggjum, yfir þeirri verðlagsþróun og þeim efnahagsörðugleikum, sem nú blasa við, vil ég taka fram, að þar sem ég hef varðað við þeirri þenslustefnu, sem átt hefur sér stað í efnahagsmálum, bæði með of háum framkvæmdaáætlunum og uppsprengdum fjárl. og síðast, en ekki sízt þeirri dæmalausu gengisfellingu, sem átti sér stað í des., þá vil ég firra mig ábyrgð á þróun þessara mála, þeirri verðlagsþróun, sem fram undan er. Hins vegar hljóta þeir, sem stóðu að gengisfellingunni í des., að taka á sig þær afleiðingar, sem af henni verða. Í málefnasamningi ríkisstj. segir eitthvað á þá leið, að hún muni leitast við að hamla gegn verðlagsþróuninni, þannig að hún verði ekki meiri en gerist í helztu viðskiptalöndum okkar. Ég hygg, að ekki sé seinna vænna fyrir ríkisstj, að íhuga það ákvæði nánar.