22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2055 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs í umr. 8. febr. s. l., vegna þess að mér þótti ýmislegt í ræðum ýmissa flm. þessarar till. vera þannig, að það yrði að svara því að nokkru. Við yfirlestur á ræðum þeirra á eftir sé ég, að það er reyndar miklu fleira, sem ekki er svaravert, og ég leiði það að sjálfsögðu hjá mér.

Ég fann að því um daginn, að till. sem þessi skyldi flutt, þar sem svo skammt er síðan þetta mál var afgreitt, eða á síðasta þingi. Að þessum orðum mínum hafa ýmsir fundið, þ. á m. tveir flm., hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson og Steingrímur Hermannsson, og hafa reynt að leiða mig, nýliðann, í allan sannleikann um bað, að svona málsmeðferð sé mjög algeng hér á hv. Alþ. Af því tilefni, að ég sýndi þessa fáfræði af mér, spurði hv. 1. flm., hvar ég hefði eiginlega verið, áður en ég kom á þing. Ég get kannske sagt honum það í prívatsamtali seinna. En ég verð að segja, að sem betur fer var ég ekki hér til að læra þessar kúnstir, sem mér finnst ekki vera til sóma.

Það voru sem sagt nokkur atriði í ræðum hv. flm., sem mig langaði að gera athugasemdir við. Í fyrsta lagi vil ég leiðrétta það, sem hv. hm. Steingrímur Hermannsson sagði, að ég hefði í mínu máli talið eðlilegt eða geta komið til greina að innheimta veggjald af göngum gegnum fjöll eða öðrum meiri háttar framkvæmdum. Þetta er ekki alveg rétt eftir mér haft. Ég sagði einmitt að innheimta á veggjaldi á slíkum stöðum virtist ekki koma til greina, einfaldlega vegna þess, að umferðin er svo lítil. Hins vegar taldi ég að menn yrðu að vera samkvæmir sjálfum sér, og þar sem flm. leggja talsvert mikla áherzlu á það hagræði, sem fæst af svona vegaframkvæmdum, eins og að leggja slitlag á vegi, þá benti ég á, að hagræði fengist með ýmsum öðrum hætti, þ. á m. með því að leggja göng í gegnum fjöll og fleira þess háttar, og þess vegna kannske eðlilegt að leggja veggjald á þá staði líka. En af öðrum ástæðum er það ekki hægt, þ. e. a. s. innheimtan verður allt of dýr.

Þá hefur talsvert verið talað um þann sparnað, sem notendur veganna hafa af því, að slitlag er lagt á þá, Vissulega er það rétt, að notendur þessara vega spara mikil útgjöld í viðhaldi bíla sinna. En mér finnst hins vegar gleymast þarna meginmálið í þessu, og það er það, sem ég nefndi líka hér í umr. um daginn, að það er ekki nokkur leið að halda malarvegum við, þegar umferðin er orðin eins mikil og hún er á þeim vegum, sem lagðir hafa verið með bundnu slitlagi. Ég held, að menn megi gjarnan líta til hinna félagslegu aðstæðna á þessum þéttbýlu svæðum, sem hv. þm. Oddur Ólafsson kom hér inn á áðan. Hér er umferðin meiri, auðvitað vegna þess, að íbúarnir eru fleiri á tiltölulega afmörkuðu svæði. Það þarf ekki endilega að vera það, að menn aki svo miklu oftar, hver einstaklingur, heldur er það svo, að það eru fleiri, sem nota þessa vegi, og þess vegna kalla þeir á slitlag.

Ég benti á það hér um daginn, að það væri umferðin, sem gæfi tekjur í ríkissjóð, og þar af leiðandi gæfu þeir vegir mest, sem mesta hafa umferðina. Við það sparast viðhald viðkomandi vega, og þess vegna verður meira framkvæmdafé til að leggja í vegina úti á landi.

Ég talaði einnig um, að svona veggjald, sem tekið yrði hér alls staðar í kringum Reykjavík, mundi hafa víðtæk áhrif t. d. á flutningskostnað vegna allra þeirra miklu vöruflutninga, sem eiga sér stað bæði að og frá Reykjavík. Það var gert heldur lítið úr þessu og sagt, að þetta mundi vera alveg öfugt. Ég veit ekki, hvort menn hafa gert sér grein fyrir, hve mikið þessir vöruflutningar vega. Mér er kunnugt um, að það fór t. d. fram umferðartalning í síðasta mánuði, og þá kom í ljós, að 3/4 hlutar þeirra bifreiða, sem óku þarna um, voru vöruflutningarbílar víðs vegar að af landinu.

Annars virtist mér svo sem ræður hv. flm. gengju mest út á að hnýta í hv. 1. þm. Sunnl., fyrrv. samgrh., vegna þess að hann er nú meðmæltur því að fella niður veggjald, og þá er mjög talað um fyrri afstöðu hans í þessu máli. Það er vissulega gott að vera staðfestur í trúnni, en betra held ég að sé að vera maður til að skipta um skoðun, þegar forsendur breytast, en það geta hv. flm. þessarar till. ekki gert. Mér sýnist satt að segja það skína mjög í gegnum málflutning þeirra, að þeir hafi einna mesta nautn af því að vitna í gamlar ræður fyrrv. samgrh. Annars þarf ég ekki að vera að taka upp hanzkann fyrir hann, hann er fullfær um það sjálfur og þar með að bera af sér sakir fyrir skort á óhlutdrægni, eins og það var orðað svo skemmtilega hér um daginn. Mér var kennt, að þetta héti einfaldlega hlutdrægni, en ekki skortur á óhlutdrægni, en það skilst náttúrlega, ef menn leggja sig fram.

Hv. hm. Stefán Valgeirsson flutti hér mál sitt af miklum skörungsskap og talaði hátt, þegar hann talaði um þetta mál. Efnislega sagði hann eitthvað á þessa leið: Eiga þessir menn að borga sama skatt af bifreiðunum sínum og þeir, sem hafa allt aðra þjónustu? Er það réttlætið, sem hv. þm. eru að berjast fyrir, er það þetta þessi byggðastefna, sem þið eruð að ræða um og stefnið að? Viljið þið viðhalda og auka óréttlætið í þjóðfélaginu? Ég verð að lýsa alveg sérstakri undrun minni á svona málflutningi, og ég skil ekki, hvaða tilgangi hann þjónar. En það vantaði dálítið í sannfæringarkraftinn hjá þessum hv. þm., vegna þess að hann sagði í lok ræðu sinnar, að hann væri alls ekki að halda því fram, að þetta væri rétta leiðin, að setja á vegtolla, og það gæti ýmislegt annað komið til greina. Af hverju er það þá ekki athugað áður en menn fara að standa að flutningi þáltill. sem þessari?

Þá talaði hv. 7. landsk. þm., Karvel Pálmason, og hann lýsti undrun sinni á afstöðu þm. Reykn., þótti það furðuleg afstaða, þar sem þeirra umbjóðendur eru búnir að búa við þessa veggjaldsinnheimtu í áraraðir, og þegar nú væri komið að því að innheimta veggjald á öðrum vegum, þá berðust þeir fyrir afnáminu. Við höfum vissulega barizt fyrir afnámi veggjaldsins á Reykjanesbraut, og við breytum að sjálfsögðu ekki þeirri afstöðu okkar, þótt fleiri vegir komi til greina núna. Þótt einhver ákveðinn hópur manna hafi þurft að þola óréttlæti, þá er sá hópur ekkert betur settur, þótt fleiri bætist í hópinn.

Þá sagði hann, að fólkið úti í hinum dreifðu byggðum þurfi nú að borga meira, vegna þess að veggjaldið var afnumið á Reykjanesbraut og ekki tekið upp á Suðurlandsvegi. Það er alveg rétt, að þetta fólk þarf að borga meira nú, en það er einmitt vegna þess, að það var farið að till. þessara sömu manna í fyrra, að það tap, sem vegasjóður varð fyrir vegna afnáms veggjaldsins á Reykjanesbraut, skyldi greitt með hækkuðum benzínsköttum, en ekki úr ríkissjóði, eins og við vildum láta gera.

Ég hef rækilega bent á, hverjar tekjur ríkissjóðs eru af umferðinni, og það eru ekki nema rétt um 50% af tekjum ríkissjóðs af bifreiðum og rekstrarvörum þeirra, sem fara til vegagerðar í landinu.

Þá sagði hv. 7. landsk., að eina raunverulega réttlætið væri að hækka gjaldið á Reykjanesbraut og setja veggjald á Suðurlandsveg og þetta gjald ætti að vera 100% hærra en það var á Reykjanesbrautinni. Ég er í sjálfu sér ekkert hissa á þessum orðum. Þetta er alveg í samræmi við skoðanir og stefnu stjórnarliða að hækka alla skatta, og virðist svo sem þetta sé kannske hið eina, sem tengir þá orðið saman.

Þetta var það helzta sem ég vildi svara úr ræðum flm. Það var eitthvað í ræðu hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, sem kom mér dálítið spánskt fyrir sjónir. Ég vissi lengi vel ekkert, á hvora hliðina hann ætlaði að halla sér, en þóttist finna út í lokin, að hann hallaði sér öfugt. Hann nefndi, að hann hefði gjarnan viljað borga 2000–3000 kr. fyrir að losna við hrakninga á heiðarvegum fyrir vestan. Ég dreg það að sjálfsögðu ekki í efa. En ég sé ekki, hvað það á skylt við lagningu slitlags á vegi og greiðslu veggjald þess vegna. Ég held það snjói alveg jafnt á heiðum uppi, þó að komið sé slitlag á vegina.

Ég vil að lokum leggja áherzlu á það, sem hv. flm. nefndu ekki í ræðum sínum. Mér sýnist, að allur þeirra málflutningur byggist á því, að þeir, sem aka á vegum með bundnu slitlagi, búi við sérstök forréttindi og fyrir það eigi þeir að greiða veggjald. Það er einnig í þeirra málflutningi alið á úlfúð milli dreifbýlis og þéttbýlis. Slíkt er engum til sóma og engum til gagns.

Það er sem sagt miðað við það eitt, að slitlag sé komið á veg, en það er horft fram hjá hagræði af ýmsum öðrum framkvæmdum í vegamálum, — framkvæmdum, sem í sjálfu sér gætu réttlætt veggjald, ef umferðin væri svo mikil, að innheimtan svaraði kostnaði. En mér finnst, að menn verði að vera samkvæmir sjálfum sér, og ef veggjald á að leggja á vegna þess, að aukið hagræði fæst af viðkomandi framkvæmd, þá verður auðvitað að leggja veggjald á allar hliðstæðar framkvæmdir og ekki binda sig eingöngu við lagningu slitlags. Því hefur ekki heldur verið á móti mælt, hvað ríkissjóður tekur mikið af umferðinni til sinna þarfa og leggur raunverulega lítið til vegamála.

Eitt af því, sem lögð er áherzla á í grg. með þessari þáltill., er það, hvernig reglur séu erlendis, þar sé mjög algengt að taka veggjald. Ég rakti það í umr. hér um daginn, og því hefur ekki heldur verið mótmælt.

Ég sé ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta, en vil aðeins í lokin benda á það, að þótt menn bindi sig eingöngu við slitlagið, þá er skammt í það, að ýmsir aðrir vegir en hér í næsta nágrenni Reykjavíkur falli undir þetta kerfi. Ég nefni vegi fyrir vestan. Vegurinn frá Ísafirði og inn á flugvöll hefur þegar yfir 1200 bíla umferð á dag. Auðvitað er orðið tímabært að leggja slitlag á þann veg vegna svona mikillar umferðar, og þá ætti einnig samkv. þessu að taka þar veggjald. Vegurinn villi Hnífsdals og Ísafjarðar hefur orðið 840 bíla umferð. Vegurinn frá Akureyri inn á flugvöll er með 1800 bíla. Allir þessir vegir þurfa auðvitað að fá slitlag. En eftir þeim málflutningi, sem hér hefur verið hafður í frammi, hlýtur einnig að verða að innheimta veggjald af þessum vegum, eða á að koma með einhverja nýja reglu um það, að vegirnir verði að vera svo og svo langir, svo og svo margir km., til þess að veggjald verði innheimt.