22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér verulega inn í þetta mál. Það eru um það mjög skiptar skoðanir, og sjónarmiðin virðast illsættanleg. Þó langar mig að koma fram með ákveðið viðhorf.

Því er ekki að leyna, að það getur ekki talizt mjög æskilegt að girða af höfuðborgina með innheimtuskýlum, þannig að Reykvíkingar geti ekki komizt til Keflavíkur, til Hveragerðis, upp í Borgarfjörð nema greiða fyrir það ákveðin gjöld við þessi innheimtuskýli. Það má segja, að það sé nokkuð hart, að menn þurfi að greiða fyrir það að komast út úr borginni. Ég vil minna á, hvernig t. d. Kaupmannahafnarbúar mundu sætta sig við það, ef þeir gætu ekki ekið út úr Kaupmannahöfn án þess að greiða fyrir það sérstök gjöld á þeirri forsendu, að malarvegir væru nyrzt á Jótlandi. Svipað væri að girða Óslóborg af með vegskatti á þeim forsendum, að norður í Hálogalandi væru erfiðir vegir. Hvað snertir framkvæmdina, ef við tökum t. d. Austurlandsveg, hvað þyrfti að koma upp mörgum innheimtuskýlum t. d. austur að Hellu? Það þyrftu sjálfsagt að vera ein 3–4 innheimtuskýli, því að við getum ekki látið það henda, að maður geti ekið t. d. frá Selfossi að Hveragerði eftir varanlegu slitlagi, án þess að hann þurfi ekki að greiða gjald á þeim spotta. Og maður, sem ekur frá Hellu að Selfossi, þarf líka að greiða vegtoll fyrir akstur eftir þeim vegi o. s. frv. Það er dálítið hart að horfa á 3–4 eða jafnvel fleiri innheimtuskýli á leiðinni hérna austur fyrir fjall eða austur að Hellu. Kostnaður við þetta er mikill. Það þarf sjálfsagt 4 menn í skýli, og það þarf að reisa þau. Það væri mikill innheimtukostnaður. Yfirleitt vil ég segja það, að þessi skýlastefna, vegtollastefna er mjög hvimleið.

Að hinn leytinu vil ég taka fram, að ég tel, eins og fram hefur komið hjá flm., það vera forréttindi fyrir menn í þéttibýlinu, sem hafa þessa góðu vegi, og það sé ekki nema eðlilegt, að þeir láti eitthvað af hendi rakna til að jafna þann mun, sem er á vegum á landinu. Tel ég miklu eðlilegra að gera það á annan hátt en með þessum hvimleiðu innheimtuskýlum, fyrir utan allan þann kostnað, sem innheimtan sjálf leiðir af sér. Það ætti að sjálfsögðu að gera á þann hátt að hafa sérstakt hraðbrautargjald, sem menn greiddu á því svæði, þar sem menn nytu hraðbrauta, og innheimta það reglulega með hliðstæðum gjöldum af bílum. Það tel ég miklu viðkunnanlegri og viturlegri aðferð. Þá mætti reikna út lauslega, hvað mundi koma inn með vegtollinum, og síðan dreifa því á allan fjöldann, og það yrði ekki ýkjamikil upphæð. Þetta yrði miklu viðkunnanlegra en girða af höfuðborgina með innheimtuskýlum og valda þannig sífelldum leiða og sífellum deilum. Mér virðist málið standa þannig í þinginu, að þingheimur sé tvíklofinn í þessu efni og reyndar þjóðin að einhverju leyti líka. Ef t. d. kæmi fram till. um, að þeir, sem byggju á hraðbrautarsvæðinu, greiddu eitthvert ákveðið hraðbrautargjald, sem færi í vegasjóð til þess að flýta fyrir vegagerð út um dreifbýlið, þá mundi ég ekki leggjast gegn slíku, en teldi það miklu eðlilegri og betri leið.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, af því að ég viðurkenni fyllilega þau sjónarmið, sem flm. hafa, að því leyti, að þéttbýlið býr við ákveðin forréttindi vegna þessara ágætu vega. Og mér finnst ekki óeðlilegt, að við, sem njótum þeirra forréttinda, látum eitthvað af hendi rakna. En ég get ekki fellt mig við að girða af borgir og bæi hér á Suðurlandi meira og minna með alls konar innheimtuskýlum og innheimtumönnum og öllu, sem því fylgir. Ég tel það mjög fráleitt. En að öðru leyti styð ég algerlega þær hugmyndir, sem liggja að baki málflutningi flm.