22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það er a. m. k. ekki böl fyrir vegasjóðinn að hafa góða vegi, það er alveg víst, og ef hæstv. samgrh. hefur hlustað á orð mín áðan, þá sagði ég einmitt, að ég liti svo á, að hann hafi tekið upp nýja stefnu og hann hafi fundið leiðina til þess að láta hraðbrautaumferðina greiða vegina. Aðaltekjur vegasjóðs, sem munu vera um 1250 millj. á þessu ári, skilst mér, eru af umferðinni. Ég hef bent á, hve mikill hluti kemur frá hraðbrautaumferðinni. Og eins og ég tók fram áðan, stafar þetta af því, að þetta svæði hér er þannig orðið nú, að það er meira og minna eitt atvinnusvæði. Menn búa í Reykjavík, vinna suður í Grindavík, fiski Reykvíkinga er landað í Grindavík, honum er landað í Sandgerði o, s. frv. Allt þetta hefur í för með sér stóraukna umferð á þessum vegum. Og þegar svo er komið, að menn greiða 9.87 kr. af hverjum benzínlítra, sem þeir nota, og einn vörubíll borgar kannske upp í kvartmilljón á ári til vegasjóðs, þá hafði ég haldið, að það væri komið nóg. Ég gat einnig um það, sem ég tel rétt, að þeir, sem úti á landsbyggðinni búa, hafi í raun og veru allt aðrar aðstæður, þar sem fjöldinn býr ýmist á vinnustað eða mjög nálægt vinnustað. Þar þarf þess vegna minna að nota ökutækin, ekið minna árlega og greitt minna til vegasjóðs, enda þótt greitt sé meira fyrir hvern km.

Ég vildi nú leggja það til, þegar þetta mál kemur í n., að fengnar yrðu rækilegar upplýsingar um, hvernig notkun benzíns og olíu er hagað. Ég held, að það verði nokkuð auðvelt að finna a. m. k. hvað benzín áhrærir, hvernig þeirri notkun er varið, hvar hún er mest og hvað hún er mikil. Væri mjög fróðlegt fyrir okkur þm. að fá það upplýst.