22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2072 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

101. mál, fiskeldi í sjó

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég átti raunar ekki von á því, að það, sem ég sagði hér áðan, mundi verða túlkað á þann veg, sem hv. 1. flm. þessarar till. gerði í ræðu sinni. En ég sýndi fram á það í ræðu minni áðan, að það væru tvær stofnanir, sem lögum samkv. ættu að sinna þessum verkefnum. Þm. færðist alveg undan því að minnast á aðra þessa stofnun þ. e. a. s. Hafrannsóknastofnunina. Ég tók það alveg sérstaklega fram, að auðvitað ætti hún að sinna tilraunum í sambandi við sjávardýr, sjávarfiska, enda er það greinilega sagt í lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, í 17. gr., eins og ég sagði í minni fyrri ræðu: rannsóknir á fiskrækt og öllu, sem að því lýtur. Í sjálfu sér má segja, að í þeirri ræðu, sem hv. þm. flutti hér áðan, fælist í raun og veru vantraust á báðar þessar stofnanir, sem eiga lögum samkv. að vinna að þessum verkefnum. og ég harma,, að þm, skuli gera það hér í ræðustóli. Sannleikurinn er sá, að það má auðvitað lengi deila um, hver sé árangur á þessu sviði. Það eru í raun og veru byrjunarrannsóknir, sem þessar stofnanir báðar eru að inna af höndum, og ég verð að segja það, að eftir því sem skrifstofustjórinn í norsku veiðimálastofnuninni segir um þessa stofnun og þær rannsóknir, sem hafa verið gerðar á Íslandi, þá telur hann, að Íslendingar séu þar langtum fremri t. d. Norðmönnum, komnir lengra, og öfundar Íslendinga, hvað þeir hafi komizt langt einmitt í ræktun vatnafiska.

Það er mikill misskilningur hjá ræðumanni, að það sé nóg að hafa silungs- og laxaseiði í fersku vatni, þangað til sé komið að pokaseiðisstiginu. Það er mikill misskilningur, ef hann heldur það, eins og mætti ætla af ræðu hans hér áðan. Sannleikurinn er sá, að það er alveg sama verkefnið að rækta lax og silung, hvort sem það er í fersku eða söltu vatni. Og það eru ekki aðrir, sem hafa neina reynslu eða þekkingu á þessu sviði, heldur en þeir menn, sem eru að vinna að þessu verkefni.

Ég tók undir það í ræðu minni áðan, að það þyrfti að auka fjármagnið, og það kemur t. d. í ljós í þeirri grein, sem ég var að vitna hér í, sem er í alþýðublaðinu 17. jan., það er þýdd grein eftir skrifstofustjórann í norsku veiðimálastofnuninni, sem ég skal lána hv. þm., ef hann vill. (SvH: Ég hef séð hana.) Jæja, það er gott. En það er ekki hægt að heyra það á málflutningi hv. þm., a. m. k. hefur hann lítið með hana gert. En ég hef fylgzt með því, sem hefur verið að gerast í Kollafirði undanfarin ár. Ég efast um, að nokkur hafi komið oftar þar en ég, a. m. k, ekki af þm., því að ég kem þar oft á ári, og þess vegna veit ég, um hvað ég er að tala í þessu sambandi.

Þm. getur ekki borið á móti því, að ræktun á vatnafiski er landbúnaðarmál, og ef er verið að fela þetta öðrum en þeim stofnunum, sem heyra undir landbrn., þá er verið að reyna að seilast í það, og næsta stig, ja, hvað verður það?

Það var ekki hægt að heyra annað á orðum hv. þm. áðan en hann liti svo á, að það hefði verið ákaflega lítið gert á veiðimálastofnuninni. Eigum við ekki að reyna að vinna að því saman, að þær stofnanir, sem samkv. lögum eiga að sinna þessum verkefnum, fái fjármagn til að halda áfram sínum rannsóknum og þeir menn, sem hafa þekkinguna, sýni, hvað þeir komast. Þegar búið er að reyna það, er hægt að fara að tala um að fela öðrum það, sem vita þá kannske ekkert, hvað þeir eru að gera.

Ég vil endurtaka það, að ég vonast til þess, að hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, sendi það Búnaðarþingi, og ég hefði mikla ánægju af því að vita, hvort búnaðarþm. mundu ekki líta á þetta líkum augum og ég við nána athugun.