22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2074 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

107. mál, íbúðarlán úr Byggingarsjóði ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir flest af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um húsnæðismálin almennt. Það kom fram í upphafsorðum hans nokkur misskilningur um verk viðreisnarstjórnarinnar, en ég tel mig ekki hafa tíma til að svara því hér, því að ég mun samkv. þingsköpum aðeins hafa tíma til að gera aths., hef þegar talað þrisvar í þessu máli.

Ég kvaddi mér hljóðs til þess að gera aths. við ræðu hæstv. félmrh., sem hann flutti hér fyrir viku í lok þeirrar umr., sem þá fór fram um þetta mál. Hæstv. ráðh. kom þá hér upp í ræðustólinn ráðvilltur og rökvilltur og úthellti úr skálum reiði sinnar glórulausum fúkyrðum í minn garð. Það er nokkuð vandaverk nú að ætla að fara að svara þessu viku eftir að þessi ummæli voru viðhöfð. Bæði er það, að ég er nú kannske farinn að gleyma þessum ummælum að einhverju leyti og þó enn frekar aðrir hv. þm. Auk þess hef ég tekið eftir því, að í því hefti þingtíðinda, sem okkur hefur borizt í dag, hefur verið fellt niður eitthvað af þessum fúkyrðum. Það er ekki nema eðlilegt, að þau hafi ekki þótt prenthæf.

Annað mál er það, að það er nokkuð alvarlegt, þegar slíkt hendir menn, hver sem í hlut á, sem henti hæstv. ráðh. hér fyrir viku. Það er alvarlegt, þegar „heiftin hleypir æði og stjórnleysi í tunguna og deyfu fyrir eyrun“, eins og meistari Jón orðaði það. Og það er kannske þeim mun alvarlegra, þegar svo er að sjá, að það séu engin batamerki á þessum veikleika hæstv. félmrh.

Spurningin er: Hvað er hægt að gera? Hvað er hægt að aðhafast, þegar staðið er þannig frammi fyrir slíku fyrirbrigði? Í þessu sambandi kemur mér í hug atburður, sem skeði á Ísafirði fyrir mörgum árum. Haldinn var almennur stjórnmálafundur, og einn af köppum þeim, sem þar áttu að mæta, var Hannibal Valdimarsson. En svo bar við, að hann gat ekki mætt til fundarins, og hafði verið gripið til þess ráðs, að hann talaði inn á segulband, og það var spilað á fundinum. Á fundi þessum var gömul kona. Hún sá ekki Hannibal, en þóttist kenna rödd hans og þótti sem röddin kæmi úr kassa. Varð þá þessari gömlu konu að orði: „Mikið skelfing hefur hann nú verið æstur, fyrst þeir þurftu að loka hann inni í kassa.