22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

107. mál, íbúðarlán úr Byggingarsjóði ríkisins

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. þessi hv. þm., sem var að ljúka hér máli sínu, var búinn að tala sig dauðan, svo að það var dauðs manns rödd, sem þarna heyrðist. En eftir viku var hann ekki búinn að gleyma því, að ég hafði brugðið á gamanmál nokkurt, þegar hann hafði ausið yfir mig fúkyrðum í a. m. k. hálftíma ræðu, í sambandi við húsnæðismál átti það að vera. Þá brá ég á það ráð, að ég hafði yfir vísu eftir ekki minni mann eða verr rómaðan en Stephan G. Stephansson og önnur ummæli eftir fyrrv. formann Íhaldsflokksins gamla, Jón heitinn Þorláksson. Það voru þessi fúkyrði, sem þessir dánumenn hafa látið sér um munn fara, sem honum svíður svona sárt, að hann tekur til máls dauður til þess að bera af sér sakir, sem í þessum ummælum hafi falizt.

Nóg um það! Ég ætla að tala við lifandi menn, en ekki dauða, og ég get sagt það, að það er vafalaust rétt hjá hv. þm. Alexander Stefánssyni, að það væri full þörf á því að breyta húsnæðismálalöggjöfinni á ýmsan hátt, veita byggjendum meiri aðstoð en þar er gert. Hins vegar skal ég játa það á mig, að ég veit ekki, hvort ég mundi treysta mér til að taka byggingu leiguíbúðarhúsnæðis umfram allt annað og veitt þeim þætti byggingarmála lægri vexti, lengri lánstíma eða yfirleitt meiri fyrirgreiðslu en t. d. byggingu verkamannabústaða eða annarra slíkra þátta í byggingarmálunum. En spurningin er í raun og veru um það, hvaða form maður á að láta sitja þarna fyrir. Ég held, að það verði ekki gert nema með auknu fjármagni. Óefað er þörf á því, að slík endurskoðun fari fram á Öllum þessum þáttum, en þá út frá því, að veitt verði til þessara mála miklu meira fjármagni. Ég er ekki, held ég, talinn meðal fjandmanna landsbyggðarinnar, en ég trúi því varla, að það sé hægt að segja með réttum rökum, að landsbyggðin sé látin sitja við lakara borð að því er snertir fyrirgreiðslu í húsnæðismálum heldur en þéttbýlið. Ég held, að allar umsóknir utan af landsbyggðinni, sem berast um húsnæðismálalán og eru innan þess ramma, sem lögin marka, hafi fengið afgreiðslu á undanförnum árum. En það er því aðeins veitt lán út á landsbyggðina, að persónulagar umsóknir berist frá þeim, sem hafa fest það áform með sér að byggja yfir sig. Ef einhver aðili vill byggja upp á það að hafa hús á „lager“, þá getur enginn aðili verið þar nærtækari en sveitarfélögin, og þar sitja þau við sama borð og Byggingarmeistarar og aðrir þeir, sem eiga rétt á framkvæmdalánum. Spurningin er aðeins um það, hvort menn geta fótað sig á því að láta sveitarfélögin fá þar einhverja aukafyrirgreiðslu um betri kjör heldur en aðra þá, sem fást við að byggja íbúðarhúsnæði. Varðandi það að láta þau sitja við sama borð og byggingarframkvæmdirnar í Breiðholti, þá var opnaður möguleiki fyrir því í löggjöf, að það gerðist annars staðar líka. Það var aðeins einn staður á landinu, sem notfærði sér þetta, fór af stað með slíka byggingarframkvæmd samkv. sömu ákvæðum laganna og gilda um byggingarframkvæmdirnar í Breiðholtinu. Það var Sauðárkrókur. En það voru sveitarstjórnaryfirvöldin þar, sem hurfu frá þessu ráði, eftir að á því var byrjað, og því var breytt yfir í framkvæmd verkamannabústaða, og þeir verkamannabústaðir eru nú teknir í notkun. Sveitarfélög úti á landi, kaupstaðirnir sérstaklega, sem höfðu bezta aðstöðu til þess, áttu kost á að gera þetta, en þeir notfærðu sér það ekki.

Þessi Breiðholtsframkvæmd er þannig til komin, að það var gífurlegt húsnæðisleysi í Reykjavík, þegar samkomulag var gert um það í sambandi við kjarasamninga, að Reykjavíkurborg og ríkið skyldu byggja þar með sérstökum hætti 1250 íbúðir. Þær áttu að vera staðlaðar, þannig að hægt væri að koma við ítrustu tækni í byggingarframkvæmdum, miðað við að hafa undir 100 íbúðir hverju sinni. Og þetta hefur verið gert. Held ég, að það sé almannarómur, að einmitt þessi stórframkvæmd í byggingarmálum hafi markað tímamót í beitingu mikilvirkrar tækni við byggingu íbúðarhúsnæðis. Vafalaust hafa einhver mistök orðið í upphafi þessa máls, þegar menn fóru að þreifa sig áfram, en nú held ég, að það fari ekki á milli mála, að þau hús, sem þarna voru byggð, séu 1. flokks íbúðarhúsnæði, og árangurinn, sem næst í ár og á liðnu ári, er nálega ein íbúð á virkum degi. Það eru um 200 íbúðir á ári, sem þeir orka að byggja.

Ég held líka, að það fari ekki á milli mála, að þessi framkvæmd hefur haft áhrif á verðmæti íbúðarhúsnæðis í landinu, á byggingarkostnaðinn, og haldi honum niðri. Það hafa ekki orðið gífurlegar hækkanir á byggingarkostnaði hér í höfuðborginni, eftir að áhrifa þessara byggingaaðferða fór að gæta. En þó er sannast sagna, að húsnæðisskortur virðist hvergi vera átakanlegri en í Reykjavík eftir sem áður.

Það voru núna, þegar átti að úthluta 200 íbúðum, að því er skýrsla frá Reykjavíkurborg hermir, um 200 umsóknir um þær 60 íbúðir, sem Reykjavíkurborg átti að fá. Meginhlutinn af því fólki bjó samkv. skýrslu Reykjavíkurborgar við neyðarástand í húsnæðismálum, og gátu borgaryfirvöld Reykjavíkur engan veginn fallizt á, að þetta fólk, sem var umsækjendur um þessar 60 íbúðir, væri betur statt en húsnæðislaust fólk úr Vestmannaeyjum, taldi ranglætisverk, ef það húsnæði yrði frá Reykvíkingum tekið. Sama var að segja um úthlutunarnefnd þeirra 90 íbúða, sem verkalýðsfélögin áttu ráð á. Sú nefnd skilaði líka umsögn um húsnæðisástand þess fólks, sem hafði sótt um þær, og sagði að í flokki þeirra, sem væru verst staddir í húsnæðismálum og hefðu sótt um þær íbúðir, væru 178 fjölskyldur, rétt við tvöfalda töluna, sem þeir áttu að úthluta. Og þeir töldu, að þetta fólk byggi allt við sárustu neyð í húsnæðismálum. Ef þessar skýrslur eru réttar, sem ég treysti mér ekki til að vefengja, þá held ég, að það sé leitun á því sjávarþorpi eða þeim kaupstað á Íslandi, þar sem húsnæðisneyðin sé meiri og ástandið verra en hér, þrátt fyrir það, sem hefur verið gert sérstaklega í húsnæðismálum Reykjavíkur. Ég hef horfzt í augu við þetta nú fyrir nokkrum dögum, svona eru skýrslurnar um þetta. Ég held því, að fólk úti á landsbyggðinni megi ekki ímynda sér, að það sé búið að gera of vel við Reykvíkinga í húsnæðismálum þrátt fyrir þetta átak, sem þarna var gert umfram allt annað, og að landsbyggðin sitji við verri kost. Það hefur verið, eftir því sem ég bezt veit, fullnægt öllum þeim umsóknum, sem borizt hafa og lagaákvæðum fullnægja, en samt er svona ástand sem við horfumst í augu við. Og svo þetta, að kaupstöðunum var gefinn kostur á að byggja með sama hætti og í Breiðholtinu, en enginn kaupstaður leitaðist við að notfæra sér það nema Sauðárkrókskaupstaður, sem svo hætti við það í framkvæmd og sneri því yfir í verkamannabústaði.

Sannast sagna er það svo að öðru leyti, og það hef ég rætt sérstaklega við tæknimenn framkvæmdanefndar byggingaáætlunarinnar, að það er ekki hægt að koma þeirri tækni við, sem er notuð við Breiðholtsframkvæmdirnar, nema þar sem hægt er að taka undir í einu minnst 50 íbúðir. Og það eru ekki margir kaupstaðir á landinu, sem gætu tekið slíka áfanga til framkvæmda. Þessi framkvæmd byggist á sérstakri tækni, stórvirkri tækni, og hefur sannarlega skilað árangri, einkanlega eftir því sem á leið verkefnið og þá ekki hvað sízt nú og væntanlega í þeim næsta áfanga, lokaáfanganum, sem eftir er. Þessu er ekki auðveit að koma við nema þá í allra stærstu kaupstöðunum. En enginn þeirra hefur óskað að fara inn á þetta.

Ég vil ekki taka á nokkurn hátt neikvætt undir það, að húnæðismálalöggjöfin, sem þó er ekki mjög gömul, verði endurskoðuð. Einn af höfundum hennar er hér sitjandi hjá okkur og var að tala hér á undan mér, og hún kann að vera meingölluð, en hún er þó ekki með öllu ómöguleg, því vil ég ekki halda fram. En ég held, að ekki sé rétt, að misréttis gæti í framkvæmd hennar. Ég trúi því varla, að svo þurfi að vera, að hún veiti vonda þjónustu úti um landið, sízt af öllu að því er varðar verkamannabústaðina. Fyrrv. félmrh., Eggert G. Þorsteinsson, er sérstaklega ráðinn hjá Húnsnæðismálastofnuninni til þess að sjá um málefni verkamannbústaðanna, og ég trúi því ekki, að hann sé ekki til viðtals fyrir landsbyggðina alveg eins og fólk í þéttbýlinu og veiti þá þjónustu, sem honum ber samkv. því starfi, sem hann gegnir.