26.02.1973
Efri deild: 63. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

172. mál, vinnslustöðvar á sviði sjávarútvegs

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mun að vísu ekki geta veitt fullnægjandi svör við spurningum hv. þm., en þó vil ég segja það, að mér var ekki kunnugt um þessa ályktun, sem héðan mun hafa farið fyrir tveimur árum, enda sat ég þá ekki á þingi. Ég hef ekki orðið var við þessa ályktun hjá Framkvæmdastofnun ríkisins. Má vel vera, að hún hafi borizt þangað, en hún hefur a. m. k. ekki verið sýnd stjórn stofnunarinnar og þá að öllum líkindum ekki verið tekin til meðferðar, því að ég minnist þess ekki og tel mig raunar geta fullyrt, að hún hafi ekki verið á skrá þeirra mörgu verkefna, sem stofnunin samþykkti fyrir sína áætlunardeild. Ég vil hins vegar segja það, að áður en ég lagði fram þetta frv., ræddi ég efni þess ítarlega við nokkra aðila, m. a. tvo meðlimi í stjórn fiskveiðasjóðs og einn starfsmann sjútvrn. Ég var í upphafi með aðrar leiðir í huga um þetta, því að ég er sannfærður um, að þarna verður að grípa í taumana, ef ekki á að hljótast af vandræðaástand víða um land. En við athugun á málinu kom það í ljós, sem mönnum ætti raunar að vera ljóst, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að ýmsar þessar stöðvar til vinnslu, einkum á rækju, má setja á fót í raun og veru án þess, að nokkur lánastofnun þurfi að koma þar að. Það var þetta, sem fulltrúar fiskveiðasjóðs bentu mér á, þegar ég ræddi um það við þá, hvort ekki mætti tryggja þetta með lánveitingum frá sjóðnum. Þessar vélar má fá með lánskjörum erlendis frá, og það er ekki neinn möguleiki nú, eftir því sem ég bezt þekki, til að stöðva slík lán á vélum. Mér er ekki kunnugt um, að Framkvæmdastofnunin geti í raun og veru gert það. Þótt hún gerði áætlun um eðlilega uppbyggingu slíkra vinnslustöðva, er það að sjálfsögðu ekki hindandi fyrir einstaklinga, heldur aðeins fyrir lánastofnanir. Því varð niðurstaðan, að þetta yrði ekki með góðu móti tryggt nema með slíkum lögum. Og þá töldu þessir aðilar eðlilegast, að sjútvrn., sem getur tekið til sín ákvörðunarvald um leyfisveitingar við þennan sjávarútveg, veiti einnig leyfi til vinnslustöðva og gæti þess þá jafnframt, að þar fáist samræming á. Um það atriði, sem hv. þm. minntist á, að slíkt gæti leitt til alls konar fyrirgreiðslu af hálfu þm., hygg ég, að seint verði hjá því komizt. En mér finnst þó, að með lagasetningu sem þessari og með því að þetta sé í höndum sjútvrn. verði þó einna helzt tryggt, að vel verði á þessum málum haldið.