26.02.1973
Efri deild: 63. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

172. mál, vinnslustöðvar á sviði sjávarútvegs

Jón Árnason:

Herra forseti. Það er alltaf mikið vafamál, hvað hið opinbera á að skipta sér mikið af framkvæmdum á sviði atvinnumála og framleiðslu. Hingað til hefur það ekki verið þannig, að þurft hafi að sækja um til opinberra aðila, hvort megi vinna afla eða koma upp vinnslustöðvum við ákveðnar greinar í sjávarútvegi. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir, að hér verði farið inn á nýja braut og til þess að koma á fót vissum vinnslustöðvum þurfi opinbert leyfi. Nú er það svo um ýmislegt, sem fram kemur í grg. með þessu frv., að þar er um tegundir sjávarafurða að ræða, sem samrýmast alls konar annarri framleiðslu í sjávarútvegi, eins og t. d. humarframleiðsla. Það þarf ekki að setja á stofn nýja vinnslustöð til þess að bæta humar við þorsk eða ýsu í frystingu eða vinnslu. Sama má segja um rækjuna. Það þurfa að koma til viðbótar vélar, en annað ekki. Vinnslustöðin að öðru leyti er þá fyrir hendi. Hefði mátt ætla, að eftir að var búið að setja á stofn Framkvæmdastofnun ríkisins, sem átti að hafa heildaryfirlit yfir fjárfestingu í landinu, væri minni ástæða til að flytja frv. eins og það, sem hér liggur fyrir. En því miður hefur það verið svo um starfsemi þessarar stofnunar, Framkvæmdastofnunar ríkisins, að hún hefur stundum afgreitt mál frá sér á þann hátt, að það væri kannske full þörf á að hafa lög eins og þau, sem frv. gerir ráð fyrir. Nefni ég í því sambandi lánveitingar, sem stofnunin samþykkti á sínum tíma til eins staðar á Norðurlandi, til tveggja aðila á litlum stað, en fyrirfram var vitað, að var útilokað, að tvö fyrirtæki þar gætu staðið undir eðlilegum rekstri. Því miður hefur þetta átt sér stað, og slíkt getur vitanlega endurtekið sig. Framkvæmdastofnunin hafði vitanlega aðstöðu í þessu tilfelli til að skipa málunum þannig, sem þó endanlega varð, en það var ekki Framkvæmdastofnuninni að þakka, því að þessir menn komu sér saman um að stofnsetja eitt fyrirtæki á þessum stað. En það var ekki við afgreiðslu málsins frá Framkvæmdastofnuninni tilskilið eða bent á það eða reynt að vinna að því, að aðilarnir tækju höndum saman um að hyggja upp eitt slíkt fyrirtæki á staðnum.

Ég tel, að það komi margt til greina, sem þarf að athuga sérstaklega, áður en þetta frv. verður afgreitt. Ég á sæti í þeirri n., sem fær væntanlega frv. til meðferðar, og sé því ekki ástæðu á þessu stigi málsins til að orðlengja frekar um það.