26.02.1973
Neðri deild: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

146. mál, skólakerfi

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Hér í hv. d. komu til umr. 27. jan. 1971 tvö frv. um fræðslumál, annað, sem fjallaði um grunnskóla, en hitt um skólakerfi. Fór fram 1. umr. um bæði þessi mál, en hvorugt náði lengra áleiðis á því þingi. Eðli málsins samkv. vil ég leyfa mér að ræða bæði málin saman eins og gert var í hið fyrra skipti.

Við umr. 1971 kom fram, bæði hjá þáv. menntmrh., hv. 7. þm. Reykv., og öðrum, sem til máls tóku, að ekki væri þá fyrir mestu að hraða afgreiðslu frv., heldur að þau fengju sem vandaðasta meðferð og gaumgæfilegasta athugun.

S. l. vor tók til starfa 5 manna n., sem falið var að endurskoða frv. um grunnskóla og skólakerfi með það fyrir augum, að þau gætu komið fyrir þetta þing með þeim breytingum, sem ráðlegar þættu. Formaður þessarar n., eins og hinnar fyrri, sem frv. samdi í öndverðu, var skipaður Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri. Með honum tóku sæti í n. Andri Ísaksson deildarstjóri, sem einnig sat í hinni fyrri n., Ingólfur A. Þorkelsson kennari, Kristján Ingólfsson kennari, Páll Líndal borgarlögmaður og formaður Sambands ísl. sveitarfélaga. Með n. starfaði Indriði H. Þorláksson fulltrúi.

Ég tel í engu ofmælt, að sú athugun, sem ræðumenn hér í hv. d. fyrir tveim árum töldu nauðsynlegt, að frv. sættu, hafi í rauninni staðið yfir allar götur síðan. Varla hefur svo mánuður liðið þessi tvö ár, að ekki væri erindum, sem þau vörðuðu. beint til menntmrn. eða fjallað um einhver atriði þeirra á opinberum vettvangi. Álitsgerðir og aths. komu þó í tveimur meginhrinum. Sú fyrri hófst jafnskjótt og frv. höfðu verið kynnt í ársbyrjun 1971. Langt fram eftir því ári fjölluðu samtök og stofnanir um þau á fundum og gerðu samþykktir um nýmælin, sem í þeim fólust, margar hverjar hinar ítarlegustu. Eftir svo að n., sem falin var endurskoðun frv., tók til starfa, lýsti hún enn eftir till. og ábendingum, og urðu undirtektir töluverðar. Endurskoðunarnefndin hefur unnið mikið starf við úrvinnslu álitsgerða og samþykkta, sem borizt hafa. Niðurstaðan af starfi hennar kemur fram í fjölmörgum breytingum á frv. frá fyrri gerð, og taka þær bæði til stefnumótunar og framkvæmdaratriða. Annað er svo óbreytt, og eru þar á meðal mörg höfuðatriði. Er það eðlilegt, því að við umr. í jan. 1971 tóku ræðumenn allra flokka frv. vel, en töldu þau þarfnast gaumgæfilegrar athugunar og skoðunar. Vona ég, að menn geti verið mér sammála um, að sú skoðun hafi nú átt sér stað, hverjum augum sem menn kunna að líta á einstakar niðurstöður.

Hámarki hefur kynning á þessum þýðingarmiklu frv. náð allra síðustu vikur af hálfu nm., sem að endurskoðuninni unnu. Mun ég víkja nánar síðar að því atriði, en vil láta koma fram nú þegar, að við fundarhöld víða um land hefur þess hvergi orðið vart, að breytingarnar frá fyrri gerð þyki horfa til verri vegar. Þvert á móti er mér óhætt að segja, að þeim hefur verið vel tekið hvarvetna. Þetta er ekki sagt hér til að stærast af, heldur til að benda á, að affarasælt geti reynzt að gefa sér rúman tíma við lagasmíð, þegar við á, þannig að almenningi veitist færi á að tjá sig um málefnin, einkum þegar fjallað er um viðfangsefni eins og fræðslumál, sem í rauninni varða hvert mannsbarn í landinu.

Eins og áður var fram tekið, voru tveir menn hinir sömu í báðum n., þeirri, sem samdi frv. í öndverðu, og hinni, sem fékk þau til endurskoðunar. Munurinn var, að síðari n. hafði úr að moða aragrúa aths. og till. Breytingarnar á frv., stórar og smáar, skipta alls hundruðum, en um þær allar, að einum tveim undanskildum, svo og um allt það, sem óbreytt stendur, náðist full samstaða allra nm. Ég vil tjá þakkir öllum, sem starfað hafa í báðum n., sér í lagi Birgi Thorlacius ráðuneytisstjóra, sem hafði á hendi formennsku fyrir báðum. Ég get um það borið, hversu mikla alúð menn lögð við starfið í endurskoðunarnefndinni og spöruðu enga fyrirhöfn til að gera málin sem bezt úr garði í hendur Alþ.

Frv. þessi eiga, ef að lögum verða, að leysa af hólmi l. nr. 22 frá 1946, um skólakerfi og fræðsluskyldu, lög nr. 34 frá 1946, um fræðslu barna, og lög nr. 48 frá 1946, um gagnfræðanám. Fræðslulögin frá 1946 voru umdeild á sínum tíma, en nú mun leitun á manni, sem vefengir, að þau hafi verið mikið framfaraspor frá því, sem áður var. Mest munaði um, að nemendum úti á landsbyggðinni greiddist leiðin til framhaldsnáms. En hinu er ekki að leyna, að enn í dag skortir á, að fræðslul. frá 1946 séu komin til framkvæmda í sumum byggðarlögum, rúmum aldarfjórðungi eftir að þau voru sett. Þar að auki hefur fræðsluþörfin breytzt á þessu tímabili. Þegar fræðslul. voru sett í lok heimsstyrjaldarinnar síðari, var einkum um það hugsað að greiða unglingum leiðina til framhaldsnáms í menntaskóla. Síðan hefur það tvennt gerzt, að þessi einhliða áherzla á menntaskólanám hefur valdið vaxandi misræmi í framhaldsskólakerfinu og aðrir framhaldsskólar hafa flestir þyngt verulega inntökuskilyrðin.

Síðara atriðið er óhjákvæmilegur fylgifiskur örrar tækniþróunar og vaxandi sérhæfingar. Skólar, sem veita hvers konar starfsmenntun, þurfa að verja vaxandi tíma til fræðslu um sérgreinar sínar og gera því harðnandi kröfur til almennrar undirbúningsmenntunar nýnema. Af þessu hlýzt, að 8 ára skyldunámið, sem upp var tekið í kjölfar fræðslul. frá 1946, veitir eitt sér dvínandi möguleika, þverrandi aðgang að framhaldsnámi. Bitnar þetta harðast á þeim byggðarlögum, sem vegna strjálbýlis eiga erfiðast með að sjá uppvaxandi kynslóð fyrir fræðslu, sem brúar bilið milli skyldunáms og þeirra námsáfanga, sem veita réttindi til inngöngu í sérskóla. Ástandið í þessum efnum má glögglega marka af töflum þeim um dreifingu aldursflokka mismunandi byggðarlaga um skólakerfið, sem birtar eru í fskj. II með frv. um grunnskóla. Ég ætla ekki að rekja tölur, sem þar blasa við. Misræmið, misréttið milli skilyrðanna til framhaldsnáms, sem bjóðast í þéttbýli annars vegar og strjálbýli hins vegar, er svo áberandi, að óþarfi er að undirstrika það frekar. En í mínum augum er einna geigvænlegastur munurinn, sem er á niðurstöðum í töflum II og III á bls. 110. Í þeirri fyrri er gerð grein fyrir skólasókn barna fæddra 1953, sundurliðaðri eftir búsetu í þéttbýli og strjálbýli, á árabilinu 1967–1972 og miðað við búsetuna eins og hún var 1967, þegar skólaganga umfram skyldunám hófst hjá þessum ungmennum. Í síðari töflunni er sami hópur skólanema greindur á nákvæmlega sama hátt nema að því einu leyti, að tekið er tillit til breytinga á búsetu ár frá ári. Við þetta kemur í ljós, að síðari taflan ber því vott, að jafnt og þétt, eftir því sem á tímabilið líður, lækkar hlutdeild strjálbýlisins í þessum nemendahópi, en hlutdeild þéttbýlissvæðanna eykst að sama skapi. Í þessum mismun felast áhrifin, sem mismunandi fræðsluskilyrði í strjálbýli og þéttbýli hafa á búsetuna í landinu. Fjölskyldur flytjast burt af landsbyggðinni til þéttbýlissvæðanna í því skyni að afla börnum sínum aðstöðu til þess að njóta framhaldsmenntunar. Slík þróun er óhjákvæmileg í þjóðfélagi eins og hið íslenzka er orðið, þegar svo er búið í haginn, að búseta getur ráðið úrslitum um það, hvort uppvaxandi kynslóð á kost á framhaldsnámi eða ekki.

Þjóðfélagið er komið á það stig tækni og verkaskiptingar, að sérmenntunar af einhverju tagi er krafizt til flestra starfa og allra þeirra, sem eftirsóknarverðust þykja. Skyldunámið eitt sér veitir ekki aðgang að framhaldsskólamenntun. Þetta verður óhjákvæmilega til að ýta undir flutning fólks frá byggðarlögum, sem geta ekki boðið skólagöngu fram yfir skyldunám, til staða, þar sem aðgangur að frekara námi er greiður. Mest rekur þetta misræmi á eftir þeim fjölskyldum að færa sig um set úr strjálbýli í þéttbýli, sem ríkasta áherzlu leggja á að tryggja börnum sínum fyllsta aðgang að framhaldsmenntun.

Ég held, að það sé óþarfi, að ég útmáli frekar fyrir hv. d., hvað hér er að gerast. Upp er komið í landinu alvarlegt misrétti. Aðgangi að skólagöngu, eftir að skyldunámi lýkur, er svo misskipt, að þetta atriði eitt út af fyrir sig veldur mælanlegri röskun á búsetu strjálbýlinu í óhag. Sé ekkert að gert, hlýtur þessi röskun að ágerast, því að fyrirsjáanlegt er, að kröfur til sérmenntunar eiga enn eftir að aukast.

Ráðið við þessum vanda er aðeins eitt: að rétta hlut strjálbýlisins, að leitast við að tryggja, að enginn þurfi vegna búsetu þar að fara á mis við að afla sér réttinda til að leggja stund á framhaldsnám. Til þess að svo megi verða, þarf að stíga til fulls skrefið, sem stigið var til hálfs með fræðslul. frá 1946, gera skólakerfið samfellt, svo að þar taki hvert þrepið við af öðru, enginn þurfi að komast þar í þrot, vegna þess að heimabyggð hans hafi ekki aðgang að skóla, sem veiti honum réttindi til frekara náms. Meginmarkmið frv. um skólakerfi og um grunnskóla er að koma því til leiðar, að öll uppvaxandi kynslóð í landinu, án tillits til búsetu, komi úr almennu undirbúningsnámi með jöfn réttindi til framhaldsnáms. Að sjálfsögðu er vandi að ná þessu marki við íslenzka staðhætti, en sá vandi er ekki óleysanlegur, ef vilji er fyrir hendi.

Ráðið til að brúa bilið, sem nú ríkir víða um land milli undirstöðumenntunar, sem kostur er á í heimahögum, og framhaldsmenntunar, er að auka við skyldunámið að því marki, sem þorri hvers aldursflokks verður nú þegar aðnjótandi á þeim stöðum, þar sem aðgangur er greiðastur að skólum. Með því að fækka námsstigum á jafnframt að vera unnt að gera námið markvissara og samfelldara. Ásamt nokkurri lengingu skólaársins á þetta að hrökkva til, að 9 ára nám skili nemendum með hliðstæðan undirbúning undir frekari skólagöngu og nú fæst með 10 ára námi. Þetta þýðir, að eftir skyldunám í grunnskóla á nemandi að vera fær um að hefja nám í menntaskóla eða sérskólum, sem gera svipaðar undirbúningskröfur. Með þessu móti styttist námsferill þeirra, sem framhaldsnám stunda eftir grunnskóla, um eitt ár, miðað við það, sem verið hefur.

Verði þessi frv. að l., leiðir svo af því, að nauðsyn ber til, að fram fari endurskoðun löggjafar um framhaldsskólastigið í heild. Að sjálfsögðu er ekki ráð fyrir því gert, að hver og einn, sem aflar sér réttinda til framhaldsnáms, hefji það þegar að grunnskóla loknum, ekki frekar en nú tíðkast. En reynslan hefur nógsamlega sýnt, að fjöldi fólks, sem hefur aflað sér atvinnu strax að skyldunámi afstöðnu, kemst í þá aðstöðu fyrr eða síðar á ævinni að vilja gjarnan afla sér framhaldsmenntunar án þess að þurfa að auka við almenna undirbúningsmenntun sína. Eins og nú háttar, er þetta miklum örðugleikum bundið.

Lenging skyldunáms hrekkur að sjálfsögðu ekki ein til þess að jafna, eins og kostur er, menntunaraðstöðuna í þéttbýli og strjálbýli. Búa þarf svo um hnútana, að skólar strjálbýlisins séu það vel liðaðir og búnir kennslutækjum, að þar sé veitt hliðstæð fræðsla við þá, sem kostur er á að láta í té í fjölmenni. Þessu verður ekki komið í kring í efri aldursflokkum grunnskóla nema með því að sameina nemendur af allstórum svæðum í strjálbýlinu í skóla, sem ná æskilegri stærð, til þess að nýting bygginga, búnaðar og kennaraliðs fullnægi eðlilegum kröfum. Hins vegar geta yngri aldursflokkar sótt smærri skóla, sem færri byggðarlög standa að. Enginn skyldi ganga þess dulinn, að mikið vandaverk er að koma á skólaskipun, sem í senn fullnægir óhjákvæmilegum hagkvæmniskröfum, margbreytilegum staðháttum og eðlilegum óskum heimafólks í hverju byggðarlagi um, að skólasetur sé ekki í meiri fjarlægð en þörf gerist. Að þessu öllu miða þær till., sem gerðar hafa verið undanfarin ár í menntmrn. um skólaskipan víða um land. Þær eru samdar sem umræðugrundvöllur og eru nú á ýmsum stigum athugunar milli rn. og heimamanna í hverju héraði um sig.

Það er eðlileg ósk foreldra, að sem minnst sé gert að því að vista börn, einkum hin yngri, í heimavistarskólum fjarri heimilum. Bæði þess vegna og af kostnaðarástæðum er í grunnskólafrv. mörkuð sú stefna, að heimanakstur nemenda sé viðhafður, eins og aðstæður frekast leyfa, en heimavistum haldið í óhjákvæmilegu lágmarki.

Eitt nýmælið í síðari gerð frv. um grunnskóla fjallar um stofnun útibúa fyrir yngri aldursflokka nemenda frá hinum stærri skólum. Þykir það fyrirkomulag vænlegt til þess, að tengsl megi takast sem fyrst milli nemenda og þess skóla, sem þeir munu sækja síðar á námsbrautinni.

Þó að gert sé ráð fyrir lengingu skólaárs, er svigrúm í því efni mun meira í hinu nýja frv. Þar er einnig þýðingarmikið nýmæli, sem miklar vonir eru við bundnar, um heimild til að færa verulegan hluta kennslutíma frá vetri til sumars í yngri aldursflokkum grunnskólans. Kemur vissulega til álita, hvort sama heimild á ekki að ná lengra upp eftir aldursflokkum. Hún yrði þá einkum notuð þar, sem miklu varðar fyrir heimilin og reyndar einnig fyrir nemendur, að nemendur geti verið heima við á tilteknum annatímum ársins, þótt þau tímabil teljist eðlilegur skólatími, þar sem öðruvísi háttar.

Þrátt fyrir að velmegun ríki í landinu, geta ýmsar ástæður ráðið því, að til séu heimili svo illa á vegi stödd, að þeim sé um megn að kosta börn til skyldunáms að heiman frá sér. Þar sem sannanlega er svo ástatt, hefur hingað til verið ráð fyrir gert, að sveitarfélag greiddi skólakostnaðinn, en hlyti endurgreiðslu af hálfu úr ríkissjóði. Reynslan sýnir, að fólk veigrar sér við að þiggja aðstoð, sem það telur vera sveitarstyrk, og verður það jafnvel til þess, að börn fara á mis við skólagöngu. Er kveðið á í frv. um skólakerfi, að ríkissjóður beri einn slíkan kostnað, þegar sannanleg þörf er fyrir hendi. Í sama frv. er það nýmæli, að séu fleiri systkin en tvö samtímis við skyldunám í heimavistarskóla, skuli fæðiskostnaður fyrir þau, sem umfram eru tvö, greiddur úr ríkissjóði. Þetta ákvæði er einnig byggt á fenginni reynslu til. að afstýra því, að börn missi hreinlega af skólagöngu. Reiknað hefur verið út, að árlegur kostnaður af þessu ákvæði geti numið 6 millj. kr.

Veigamikið atriði frv. um grunnskóla er valddreifing til héraðanna með stofnun 8 fræðsluskrifstofa, einnar í hverju kjördæmi, þar sem fræðsluráð ásamt fræðslustjórum fara hvert á sínum stað með vald í ýmsum þeim málum, sem hingað til hefur verið skipað af menntamrn. Gert er ráð fyrir, að landshlutasamtök kjósi fræðsluráðin, og í heild er landshlutasamtökunum ætlað verulegt hlutverk í stjórn skólamála eftir þessu frv. Er því brýnt fyrir framkvæmd frv. um skólakerfi og um grunnskóla, að setningu löggjafar til bakhjarls starfsemi landshlutasamtakanna verði hraðað.

Allt það, sem nú hefur verið talið, og margt annað, sem ódrepið er á, miðar að því að jafna metin í fræðslumálum eins og framast er kostur, svo að í því efni sitji allir landsmenn við sama borð, hvað sem búsetu líður. Enn er þó ótalið eitt höfuðatriðið, sem hnígur í sömu átt, sem sé gjörbreyting útreiknings skólakostnaðar. Það hefur hingað til verið byggt á stærð, sem kölluð er „reiknaðar stundir“ og gripið hefur yfir allan launakostnað við skólahald. Hefur útkoman reynzt mun hagstæðari stærri skólum en þeim smærri. Í grunnskólakerfinu nýja er horfið með öllu frá þessari reikningsreglu og kostnaður sundurgreindur í kennslustundir og annað skólastarf. Með þessu móti á að tryggja, að hver skóli hljóti frá ríki og sveitarfélagi það fé, sem hrekkur til þess, að honum sé unnt að framfylgja settri námsskrá. Á þessi nýja regla að fyrirbyggja, að hagur smærri skólanna sé fyrir borð borinn.

Stofnun hinna stóru fræðsluumdæma verður grundvöllur að sérfræðilegri þjónustu við skólana um land allt, í líkingu við þá þjónustu, sem hingað til hefur nær einvörðungu verið veitt í mesta þéttbýlinu. Á þetta jafnt við um sérkennslu, námsráðgjöf og þjónustu sérmenntaðra manna í sálarfræði og félagsráðgjöf. Einkum er námsráðgjöfin þýðingarmikil samfara lengingu skólaskyldunnar. Áríðandi er, að nemendur eldri deilda grunnskólans eigi kost á leiðbeiningum færra manna um tilhögun náms, er valgreinar koma til sögunnar, og þar með leiðsögn um kosti á framhaldsnámi eða starfi.

Vissulega bakar nýja grunnskólafrv. sveitarfélögunum, ekki síður en ríkinu, aukin útgjöld, en það færir þeim líka ný verkefni og þar með aukið valdsvið í fræðslumálum. Samsvarandi aukning tekjustofna verður svo eðlilega að fylgja. Ástæða er til að vekja sérstaklega athygli á einu atriði, sem varðar fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga út af skólamálum. Sá háttur hefur hingað til viðgengist, að ríkið endurgreiði sveitarfélögum sinn hluta af rekstrarkostnaði skóla, annan en launakostnað, eftir árið. Nýja grunnskólafrv. kveður á um gerð áætlunar um rekstrarkostnað skóla fyrir skólaárið fyrir fram. Þegar hún hefur hlotið samþykki sveitarstjórnar, sem í hlut á, og rn., skal skólakostnaður greiddur jafnóðum með mánaðargreiðslum.

Rekstrarkostnaðarauki, sem áætlað er að leiði af samþykkt grunnskólafrv. og frv. um skólakerfi, nemur samtals 289 millj. kr., þegar bæði eru að fullu komin til framkvæmda. Þar af er hlutur ríkis áætlaður 229 millj., en sveitarfélaga 61 millj. Þar sem kveðið er á um, að framkvæmd ákvæða laganna eigi sér stað á 10 ára bili, dreifist kostnaðaraukningin á þann tíma, en þó alls ekki jafnt. Mest er hún fyrstu 6 árin, fer þá hæst í 44½ millj. á einu ári, en verður 2–4 millj. síðari 4 ár 10 ára tímans.

Ekki er svo að skilja, að öll ákvæði frv. horfi til aukins kostnaðar. Til að mynda er þar ákvæði, sem á að sporna við tilhneigingu til að fækka nemendum í bekkjardeildum úr hófi fram. Haldið er fast við meðaltalið rúmar 2 tylftir í bekk. Í fámennum bekkjardeildum fylgir kostnaðarauki í kennslulaunum og húsnæðiskostnaði, sem nemur 4–5% við hvern nemanda, sem þar fækkar. Árlegur kostnaðarauki af slíkri fækkun gæti numið tugum milljóna í stærstu skólahverfum, og engar sannanir liggja fyrir um það, að fækkunin skili sér í bættum námsárangri þeirra, sem eftir eru í bekkjardeildum.

Skv. fjárlögum ársins í ár er veitt til rekstrar- og stofnkostnaðar í þágu fræðslumála, allt frá skyldunámi til háskóla Íslands, og stuðnings við námsmenn fjárhæð, sem nemur 3 600 millj. kr. Þetta eru 16.8% af heildarútgjöldum fjárlaga. Hér er vissulega um að ræða mikla fjárhæð, sem áríðandi er, að vel sé varið. Ekki eru tök á að færa árangur skólastarfsins til bókar í krónum og aurum, en á því starfi veltur þó menntun og þroski þjóðarinnar, hvernig henni tekst að nýta auðlindir landsins og hverju lífi verður lifað á Íslandi um ókomin ár. Hér ríður á miklu, að grundvallarlöggjöf um skólakerfið sé sem bezt úr garði gerð, að hún skapi skilyrði til, að skólarnir megi koma sérhverjum nemanda til þess þroska, sem hæfileikar hans standa til.

Þótt miklu varði, að öllum landsmönnum séu sköpuð sem jöfnust menntunarskilyrði, er ekki síður þýðingarmikið, að lagasetningin veiti ákjósanleg starfsskilyrði við skólana til þess að rækja sjálft fræðslustarfið. Við lengingu skólaskyldunnar ríður á, enn meira en áður, að leitast við að tryggja alhliða árangur skólastarfsins með réttri stefnumörkun um námsmarkmið og starfshætti. Þar að auki er það liðin tíð, að almenn fræðsla geti tekið mið af því að veita nemandanum í eitt skipti fyrir öll undirstöðuvitneskju í nokkrum helztu þekkingargreinum. Það færist æ meira í vöxt, að menn verða að vera við því búnir að auka við þekkingu sína og færni á fleiri skeiðum ævinnar en aðeins yngri árum. Auk vitneskju um undirstöðuatriði í ýmsum greinum þekkingar þarf því almannaskóli nútímans að miðla nemendum sínum verkkunnáttu við að afla sér að staðaldri þekkingar á eigin spýtur, ásamt ratvísi á þau mið, sem bezt duga, þegar óstudd eigin viðleitni hrekkur ekki lengur til að fullnægja þekkingarþörf. Það er liðin tíð, að skóli geti skilað viðunandi árangri með því að tilreiða fyrir nemendur útmælda þekkingarskammta, sem hver og einn veitir viðtöku og gerir sér af þau not, sem sérhverjum er eiginlegt. Skóli, sem annast æsku þjóðarinnar níu viðkvæm þroskaár, verður skýlaust að stefna að því að hlúa að hverjum einstaklingi og veita honum, eins og aðstæður frekast leyfa, þroskaskilyrði við sitt hæfi.

Í 2. gr. frv. um grunnskóla er markmið skólans orðað svo:

„Hlutverk grunnskólans er, í samvinnu við heimilin, að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi, sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi og lýðræðislegu samstarfi. Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á mannlegum kjörum og umhverfi, á íslenzku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og skyldum einstaklingsins við samfélagið. Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins. — Grunnskólinn skal veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð, sem stuðli að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal því leggja grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra“.

Þessi grein er stefnumarkandi og byggist á þrem meginatriðum. Hið fyrsta er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi, sem er í sífelldri þróun. Annað er að efla skilning nemenda á íslenzku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum. Og hið þriðja er að binda ekki starf skólans við fræðsluna eina, heldur stuðla í æ ríkara mæli að alhliða þroska hvers og eins nemanda. Skólinn undirbýr nemendurna undir að starfa í lýðræðisþjóðfélagi. Af því leiðir að þróun þess hlýtur að hafa áhrif á starfshætti skólans. Samskipti nemenda í námi og starfi þurfa að mótast í lýðræðislegu samstarfi. Skólinn getur ekki rækt hlutverk sitt, svo að vel sé, nema hann sé sífellt vakandi fyrir breyttum þjóðfélagsháttum.

Síðan gildandi fræðslulög voru sett 1946, hefur framvindan í heiminum verið mjög ör og íslenzkt þjóðfélag tekið stakkaskiptum. Það eru breyttir þjóðfélagshættir, sem valda því, að ekki er lengur unnt að búa sig undir ævistarf í eitt skipti fyrir öll. Þessi þróun kallar því á bætta menntun þegnanna og sífellda endurmenntun, ekki sízt vegna þess, að vísindalegar rannsóknir draga nýja þekkingu svo ört fram í dagsljósið, að viðtekin þekking úreldist ört. Þróunin virðist sífellt ætla að verða örari. Þess vegna þarf skólinn að gera nemandann færan um að tileinka sér nýja þekkingu, bregðast við nýjum aðstæðum.

Af augljósum ástæðum hlýtur það m. a. að vera hlutverk skólans að varðveita menningararf íslenzku þjóðarinnar, tungu, bókmenntir og sögu, svo og sérkenni íslenzks samfélags. Varðveizla þessara menningarverðmæta er skylda þjóðarinnar. Þau hafa framar öllu öðru skapað okkur virðingu og viðurkenningu annarra þjóða og aukið heilbrigðan þjóðarmetnað. En jafnframt ber að forðast þröngsýn þjóðernissjónarmið og minnast þess, að íslenzk menning á sér víða rætur. Hún er ekki og hefur aldrei verið einangrað fyrirbæri. Við höfum lært margt af öðrum þjóðum, og það munum við halda áfram að gera.

Heill og þroski mannsins er takmark í sjálfu sér. Starf skólans er því ekki bundið við það eitt að veita þekkingu, heldur skal það í æ ríkara mæli stuðla að alhliða þroska hvers nemanda. Með „alhliða“ er átt við vitrænan, tilfinningalegan og líkamlegan þroska.

Skólinn verður að leggja mikla áherzlu á að venja nemendur við hlutlægni og gagnrýnið, en jákvætt hugarfar, svo að þeir geti tekið málefnalega afstöðu. Sérstaklega ber að varast að innræta nemendum ákveðnar skoðanir, t. d. í stjórnmálum. Það merkir þó ekki, að skólinn eigi að leiða hjá sér umræður og fræðslu um ágreiningsmál, heldur ber honum að kynna þau og veita nemendum tækifæri til að fjalla um þau á óhlutdrægan hátt.

Í þessari grein er lögð áherzla á, að efla beri skilning nemenda á mannlegum kjörum og umhverfi. Hér er bæði átt við félagslegt umhverfi og náttúru landsins, sem er í sífelldri hættu vegna mengunar, gróðureyðingar og ofveiði. Það er því æskilegt, að skólinn veki nemendur til skilnings á skynsamlegri náttúruvernd.

Í gr. er lögð áherzla á skyldur einstaklinganna við samfélagið. Mönnum hættir til að gleyma því, að réttindi og skyldur eiga jafnan að haldast í hendur. Með orðinu „samfélag“ er átt við hvort tveggja í senn, íslenzkt samfélag og mannlegt samfélag yfirleitt.

Gert er ráð fyrir því, að grunnskólinn taki fullt tillit til þess, að nemendur eru misjafnlega bráðþroska, með ákvæði á þá leið, að nemendum séu heimiluð námslok á skyldustigi með þeim réttindum til framhaldsnáms, sem þeim fylgja, einu ári eða fleirum fyrr en aldur segir til um.

Í samræmi við breytta starfshætti í samfelldum grunnskóla er gert ráð fyrir, að mjög verði dregið úr prófum. Bæði fer til þeirra mikill tími frá reglulegu námi og framkvæmd prófa með núverandi hætti kostar mikið fé, sem einsætt þykir, að verja mætti að verulegu leyti til brýnni þarfa skólastarfsins. Má þar sérstaklega benda á eflingu skólabókasafna, sem eru ómissandi undirstaða undir því skólastarfi, sem gert er ráð fyrir að eigi sér stað í grunnskólanum. Í gildandi löggjöf er ekki lögð nægilega mikil áherzla á eflingu skólabókasafna. Hins vegar má öllum vera ljóst, að með gerbreyttum kennsluháttum, sem miða að því fyrst og fremst að kenna nemendum sjálfum að afla sér þekkingar, hlýtur bókasafn að verða eitt helzta starfstæki skólans. Vegna þess skorts á bókasafni, húsnæði og bókakosti, sem margir skólar landsins búa við nú, verður kostnaðarsamt og tekur sinn tíma að bæta hér úr. Gert er ráð fyrir, að víða í smærri byggðarlögum hafi hreppsbókasafn og skólabókasafn samvinnu eða verði sameinuð og verði þá í flestum tilfellum í skólahúsinu. Við gerð skólahúsa þarf að taka fullt tillit til þessa mikilsverða þáttar, sem skólabókasöfn þurfi að vera í skólastarfinu. Efling skólabókasafna verður meðal brýnustu verkefna, þegar lögin koma til framkvæmda og jafnframt kostnaðarsamt. Í sumum skólum hefur þó nú þegar verið komið upp góðri aðstöðu fyrir bókasafn.

Í 43. gr. frv. um grunnskóla, sem fjallar um námsefni í skólanum, segir svo:

„Við setningu námsskrár og skipulagningu námsefnis fyrir grunnskóla skal þess sérstaklega gætt, í samræmi við markmið skólans, að öllum nemendum séu gefin sem jöfnust tækifæri til náms, jafnframt því sem skólinn komi til móts við og viðurkenni mismunandi persónugerð, þroska, getu og áhugasvið nemenda“.

Þessi mikilvægu ákvæði fela í sér mörkun grundvallarstefnu um jafnrétti nemenda í grunnskóla og aðlögun skólastarfsins að þörfum einstaklingsins. Í grunnskóla skal veita drengjum og stúlkum sem jöfnust tækifæri til náms, þannig t. d. að í gerð aðalnámsskrár og kennslunni sjálfri sé öðru hvoru kyninu ekki bægt frá áhugaverðum og mikilsverðum námssviðum, t. d. í handíðum eða heimilisrækt.

Þessi kafli, einkum niðurlag hans, miðar m. a. að því, að námsaðgreining verði eitt af grundvallaratriðunum í starfi grunnskóla. Annars vegar felur þetta í sér þá almennu kvöð, að skólinn skuli jafnan leitast við eftir föngum að laga uppeldisstarf sitt að þörfum hvers einstaklings — að sönnu er þungbær kvöð í framkvæmd, en jafnframt ófrávíkjanlegt stefnumark skv. markmiðsgr. frv. Hins vegar miða þessi ákvæði umrædds kafla að því, að nám á unglingastigi grunnskóla, einkum í 8. og 9. bekk, skuli, eftir því sem kostur er, greinast í samræmi við mismunandi persónugerð, þroska, getu og áhugasvið nemandans. Hér verður um að ræða valfrelsi námsgreina, svo og mismunandi áherzlu og misþunga námsskrá í ýmsum skyldunámsgreinum. Meðal slíkra námsgreina verða að líkindum stærðfræði og raungreinar svo og vissir móðurmálsþættir. Er að því stefnt, að allir grunnskólar geti boðið fram a. m. k. tvær meginlínur eða deildir skv. þessu í 8. og 9. bekk og helzt að einhverju leyti einnig í 7. bekk. En slíkt kerfi þarf að vera eftir föngum frjálst og sveigjanlegt, eigi ekki að koma til talsverð hætta á misrétti í nýju gervi.

Í stað þess að drepa hér í örfáum orðum á, sem allra flest nýmæli, sem í frv. felast, hef ég kosið að fjalla að mestu um tvö meginatriði þeirra, annars vegar jöfnun námsaðstöðu, hvað sem búsetu líður, hins vegar áherzluna á þroska hvers einstaklings, eftir því sem hæfileikar hans til hugar og handa segja til. Við má svo bæta þriðja meginatriðinu. Í grunnskólafrv. er sú stefna mörkuð, að námsstarf nemenda fari fram sem mest innan veggja skólans, hann sé ekki yfirheyrslustofnun, þar sem nemendum er hlýtt yfir lexíur, sem þeir hafa áður tileinkað sér í heimahúsum. Þetta eru óhjákvæmilegir starfshættir, ekki sízt á þeim stöðum, þar sem nemendur eru fluttir á milli heimilis og skóla með tímafrekum heimanakstri. Þar að auki tekur það engu tali, að börnum og unglingum sé ætlaður mun lengri vinnudagur í skóla og heimanámi samanlagt en talin er hæfa fulltíða fólki. Ljóst er, að kostnaðarsamt verður að uppfylla þessar kröfur, en þó má benda á, að í skólabyggingum, sem nú eru nýrisnar og eru að rísa úti um land, er þegar gert ráð fyrir húsrými með starfsaðstöðu fyrir nemendur þann tíma, sem þeir þurfa að bíða heimanaksturs.

Annars er það að segja um aukinn stofnkostnað skóla, sem af grunnskólafrv. leiðir, að um hann verður ekkert fullyrt að svo stöddu. Eins og ég gat um, eru till. um skólaskipan víðast hvar á landinu nú til meðferðar, en endanleg nákvæm áætlunargerð getur ekki farið fram, fyrr en lagagrundvöllur hefur verið lagður.

Frv. um skólakerfi og grunnskóla lágu fyrir frá hendi n., sem annaðist endurskoðun þeirra, um miðjan des. Í stað þess að leggja þau formlega fram á síðustu þingdögum fyrir jól var sá kostur tekinn að senda þau öllum alþm. til kynningar. Jafnframt var þeim dreift meðal forstöðumanna menntastofnana og forustumanna stéttarsamtaka og landssamtaka, skólanefndarmanna og sveitarstjórnarmanna. Eftir áramótin var svo efnt til almennra funda á vegum menntmrn. í ýmsum landshlutum, þar sem nm. í grunnskólanefnd gerðu grein fyrir frv. og heimamönnum á hverjum stað gafst kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Hafa nú verið haldnir 15 slíkir fundir í öllum landshlutum, og enn eru tveir eftir af þeim, sem ráðgerðir voru í upphafi. Þar að auki hafa svo nm. í grunnskólanefnd komið á 7 fundi og ráðstefnur einstakra félagssamtaka til að fjalla um frv., og fleiri slíkir fundir eru fram undan.

Óhætt er að segja, að á fundunum kom í ljós mikill áhugi á þessu afdrifaríka máli og ánægja með fundarhöldin, þótt sitt sýndist að sjálfsögðu hverjum, að því er stefnumörkun og einstök ákvæði varðar. Ég vænti þess eindregið, að þessi rækilega kynning verði til þess að létta störf þn., sem fá frv. til meðferðar. Ósk mín er, að frv. fái afgreiðslu á þessu þingi. Sú rækilega athugun og kynning, sem í upphafi var talin nauðsynleg, hefur nú átt sér stað. Því vænti ég þess, að hv. alþm. geti tekið undir það, að tími ákvörðunar hins háa Alþ. í þessum málum sé nú runnin upp.

Að svo mæltu vil ég, herra forseti, leggja til, að báðum frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. að þessari umr. lokinni.