26.02.1973
Neðri deild: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2111 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

146. mál, skólakerfi

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að lýsa fylgi mínu og míns flokks við meginatriði þessara frv., við þá meginstefnu í skóla- og menntamálum, sem í þeim er mörkuð. Það þarf kannske engum að koma á óvart, þó að ég lýsi fylgi mínu við meginatriði frv. þegar við 1. umr. málsins, vegna þess, eins og fram kom í ræðu hæstv. menntmrh. og er raunar tekið fram í grg. frv. beggja, að þau voru upphaflega samin, meðan ég veitti menntmrn. forstöðu.

Í þessu sambandi vil ég gjarnan minna á það, að eitt fyrsta verk mitt, eftir að ég hafði tekið við forstöðu menntmrn. 1956, var að skipa n., sem skyldi hafa það hlutverk að kanna, hvort tímabært væri orðið að endurskoða gildandi löggjöf um fræðsluskyldu, sem sett hafði verið 10 árum áður og var þar með orðin áratugs gömul. Þessi n., sem skipuð var hinum sérfróðustu mönnum á sviði skólamála, bæði embættismönnum og fulltrúum úr kennarastétt, skilaði ítarlegu áliti og komst þá að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki orðið tímabært að endurskoða grundvallaratriði fræðslulöggjafarinnar frá 1946, þó að hún væri þá orðin 10 ára gömul. Með hliðsjón af þessu beindi menntmrn. athygli sinni fyrst og fremst að því að vinna að endurskipulagi á innra starfi skólanna með því að setja nýja námsskrá, og var hún sett fyrir allt skyldunámið árið 1961. Í því fólust miklar endurbætur, sem ég vona, að allar hafi reynzt vera til bóta á hinu innra starfi skólanna, þó að grundvellinum undir skipulagi skólakerfisins væri ekki breytt. Jafnframt var athyglinni beint að því að endurskoða löggjöf um einstaka skóla, og á rúmum áratug var endurskoðuð löggjöf um alla skóla, sem búa við sérstaka löggjöf. Auk þess var lögð á það mikil áherzla að stuðla að margs konar breytingum á skólastarfinu sjálfu. Auk nýrrar lagasetningar um einstaka skóla var t d. komið á fót sérstakri skólarannsóknadeild í menntmrn., sem ég hika ekki við að fullyrða, að sé eitt stærsta framfarasporið, sem stigið hefur verið á undanförnum árum, að því er varðar raunhæft skólastarf, og hefur komið ótrúlega miklu góðu til leiðar og auðveldað þá umfangsmiklu lagasetningu, sem orðið hefur á undanförnum 10–15 árum um einstaka skóla og skólastarfið í einstökum atriðum.

Engu að síður var ljóst, þegar tók að líða á s. l. áratug, að slíkar breytingar voru að gerast í þjóðlífinu, að nauðsynlegt yrði að taka sjálft skólakerfið, grundvöll skólastarfsins og skipulag skólamálanna til endurskoðunar, og var það gert nokkru eftir miðbik s. l. áratugs. Árangur þess starfs voru frv. þau, sem hæstv. menntmrh. gat um, að ég hefði lagt fram fyrir hönd fyrrv. ríkisstj. á þinginu 1970–1971, frv. um grunnskóla og frv. um skólakerfi. Að baki þeirra frv. lá margra ára starf. Fyrst voru gerð frumdrög að nýju skiplagi á skólakerfinu í rn. sjálfu, þ. e. a. s. af embættismönnum þess. Þegar þau lágu fyrir, var skipuð n. hinna sérfróðustu skólamanna til þess að ganga frá frv. í endanlegri gerð, og hika ég ekki við að fullyrða, að fá frv., sem lögð hafa verið fram á Alþ. á síðari árum, hafi verið betur undirbúin en skólafrv., sem lögð voru fram á þinginu 1970–1971. Það var ekki aðeins, að þau höfðu fengið mjög vandlega embættislegan undirbúning og verið unnin í nánu samráði við alla þá embættismenn, sem hlut áttu að máli, og samtök skólamanna, heldur voru þau einnig rædd á mjög stórri ráðstefnu, sem haldin var um málið á Hótel Sögu, áður en endanlega var gengið frá frv. Þar komu fram ýmsar mjög nytsamlegar ábendingar, sem tekið var tillit til við endanlega gerð frv.

Eins og hæstv. ráðh, tók fram í ræðu sinni, voru frv. síðan lögð fram á þinginu 1970–1971. Þau hlutu mjög góðar undirtektir, óvenjulega góðar, að ég tel, miðað við það, hversu róttækar breytingar hér var um að ræða, gagngera breytingu á einu mikilvægasta sviði sérhvers þjóðlífs, sem skólastarfið hlýtur að teljast. Að vísu heyrðist einstaka afturhaldssöm rödd í þessum efnum, en þó hygg ég, að fullyrða megi, að í ræðum manna hafi komið fram sú yfirgnæfandi skoðun, að í frv. væri stefnt í rétta átt, þau horfðu til bóta og framfara í skólamálum.

Það var ekki von til þess, að þinginu ynnist tími til að afgreiða jafnmikilvæg mál og hér var um að ræða á einu þingi, þ. e. sama þingi og þau voru lögð fram, enda ætlaðist ég á þeim tíma ekki til þess, að það yrði gert. Hins vegar vann menntmn. Nd., sem fékk málin til meðferðar, mjög ítarlegt og merkilegt starf að athugun á frv. En eins og ég tók fram, varð fullt samkomulag um, að málið skyldi ekki afgreitt á því þingi, heldur næsta sumar notað til ítarlegrar kynningar á málinu fyrir næsta þing.

Sú kynning fór fram. Frv. var sent til allra skóla á landinu og þeirra aðila yfir höfuð að tala, sem málið var talið skipta verulega. Ég man ekki betur en milli 300 og 400 eintök af frv. hafi verið send til aðila úti um allt land. Ég bjóst því við því, að málið mundi verða lagt fyrir aftur þegar í upphafi síðasta þings, þ. e. a. s. haustið 1971. Það gerðist ekki. Ég er auðvitað ekki að segja, að frv., eins og þau upphaflega voru lögð fram, hafi verið alfullkomin. En ég tel, og það er mjög eindregin skoðun mín, að rétta aðferðin til að hrinda málinu fram hefði verið sú að leggja málið fyrir Alþ. að nýju strax haustið 1971 og fá það menntmn. Nd. til meðferðar. Hún var orðin málinu þaulkunnug, og það er ekki vafi á því, að þá hefði verið hægt að ljúka afgreiðslu málsins á því þingi. Ég skal endurtaka, að ég er ekki að staðhæfa, að með þeim breytingarhugmyndum, sem uppi voru í hv. menntmn., mér var vel kunnugt um og ég var samþykkur fyrir mitt leyti, hefði frv. komizt í alfullkomið eða endanlegt form. Frv. eins og þessi komast aldrei í endanlegt eða alfullkomið form. Frv. um skólamál þurfa í raun og veru að vera í stöðugri endurskoðun. En ég hygg, að rétta aðferðin hefði verið sú að leggja málið fyrir þingið haustið 1971 og afgreiða það á því þingi, fara síðan að framkvæma löggjöfina, láta hana sýna sig í reynd í 2–3–4 ár og taka hana síðan aftur til meðferðar í ljósi þeirrar reynslu, sem þá hefði fengizt. En þetta gerðist ekki, frv. kom ekki til meðferðar á síðasta þingi, og þann drátt, sem af þeim sökum hefur orðið á málinu, harma ég mjög. Hann hefur í raun og veru tafið bráðnauðsynlega framþróun í íslenzkum skólamálum í 1–2 ár.

Ég varð líka fyrir vonbrigðum varðandi það, að frv. skyldu ekki lögð fyrir í upphafi þessa þings. Hefði það verið gert, er ég ekki í nokkrum vafa um, að tekizt hefði að afgreiða málin á þessu þingi, og vitna ég þar enn sérstaklega í þá miklu þekkingu og þá miklu vinnu, sem hv. menntmn. Nd. var búin að leggja í athugun á málinu á þinginu 1970–1971. En frv. komu ekki til kasta Alþ. fyrr en nú í febrúarlok, eftir að þau hafa verið til framhaldsathugunar í menntmrn. og í sérstakri n. í langan tíma. Þrátt fyrir þetta vona ég hins vegar, að það takist að afgreiða málin nú á þessu þingi, þó að játa verði, að tíminn er orðinn mjög naumur. Ef það tekst ekki, — ég er sammála hæstv. menntmrh. um, að mjög nauðsynlegt er, að það takist, — er öll töf málsins orðin stórskaðleg.

Síðustu orð mín skulu vera þau, að Alþfl. mun ekki aðeins styðja meginatriði málsins. Af hálfu fulltrúa Alþfl. mun eflaust ýmsum hugmyndum verða hreyft í sambandi við meðferð þeirra í n., eins og eðlilegt er, en ég endurtek, að við munum ekki aðeins styðja meginatriði málsins, heldur einnig stuðla að því, að hægt verði að afgreiða frv. sem fyrst.