26.02.1973
Neðri deild: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2117 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

146. mál, skólakerfi

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að taka undir þau orð, sem standa í grg. frv, til l. um grunnskóla, en þar segir, að vafasamt sé, „að nokkur löggjöf leggi þýðingarmeiri grundvöll fyrir þjóðarheild og einstaklinga en sú löggjöf, sem ákveður hina almennu grundvallarmenntun landsmanna.“

Sú fræðslulöggjöf, sem við höfum búið við, er nú orðin rúmlega aldarfjórðungs gömul, og eðlilegt er og tímabært, að hún sé tekin til rækilegrar endurskoðunar, eins og reyndar gert hefur verið nú um nokkurt skeið. Enginn vafi er þó á því, að lögin frá 1946 voru og eru að flestu leyti merk löggjöf, sem hefur þjónað okkur vel. Það hafa jafnvel heyrzt raddir nú í síðustu umræðum um þessi mál, að sú löggjöf hefti á engan hátt eðlilega þróun í fræðslumálum og að innan þeirrar löggjafar eða með breytingum á henni megi koma í framkvæmd flestum þeim nýmælum, sem þetta frv. felur í sér, þ. e. a. s. grunnskólafrv. Um það skal ég ekki dæma, en hitt skal undirstrikað, að endurskoðun, ítarleg úttekt á fræðslulöggjöfinni var fyrir löngu orðin aðkallandi með hliðsjón af nýjum viðhorfum og þjóðfélagsaðstæðum ekki sízt á þessum vettvangi. Hvort sú úttekt krefst nýrrar löggjafar eða jafnvel róttækrar byltingar, er annað mál, sem verður að koma í ljós og kemur væntanlega í ljós við athugun þessa frv. og þessara frv. beggja. Ég nefni orðin „róttæk bylting“, en mér til nokkurra vonbrigða kom fram í blaðavitali í síðustu viku við einn ágætan nm., sem vann að undirbúningi þessa frv., að hann liti svo á, að þetta frv. fæli í sér mjög róttæka byltingu. Nú þarf að vísu ekki að taka fram, að ég er ekki mjög mikill byltingarmaður og allra sízt á vettvangi, sem hefur mótazt og aðlagazt í samræmi við þjóðfélagsþróun og þjóðlífið almennt, en ég held, að róttæk bylting sé ekki eftirsóknarverð, þegar um er að ræða löggjöf eins og þessa, sem leggur grundvöll að menntun allra landsmanna, og a. m. k. verði að vera fyrir hendi óumdeildar forsendur slíkrar byltingar, ef hana á að framkvæma. Ég vona, að ég flokkist ekki í hóp afturhaldsmanna, enda þótt ég bregðist svona við þessum ummælum. „Varðar mest til allra orða, undirstaðan sé réttleg fundin,“ var sagt einu sinni, og það á frekar við í þessu máli en flestum öðrum. Að mínu viti fer því fjarri, að sú undirstaða, sem núgildandi fræðslulög eru, sé svo fjarri öllu lagi, að hún krefjist byltingarkenndra breytinga, enda lít ég ekki svo á, að þetta frv. feli í sér neina byltingu, enda þótt margt sé þar nýmælið. Hér er frekar á ferðinni eðlilegt framhald af núgildandi löggjöf, réttmætt og eðlilegt spor stigið í takt við framrás og þróun tímans.

Ef við lítum ekki á þetta grunnskólafrv. eða hugmyndirnar, sem að baki því liggja, sem róttæka byltingu, heldur eðlilegar breytingar, þá held ég, að frv. og það, sem út úr því á að koma, geti orðið jákvætt og gagnlegt spor. Ef við skoðum þetta frv. með það fyrir augum, að það sé endurbætt útgáfa af núgildandi löggjöf, breyting, en ekki bylting, þá náum við miklu meiri árangri, og þá valda allar breytingar eða nýmæli minni röskun, hvort heldur er hjá nemendum, kennurum eða þjóðfélaginu í heild. Þegar ég segi þetta, þá lýsi ég vilja mínum á því og tek sérstaklega fram, að ég styð, að ýmis nýmæli þessa frv. nái fram að ganga. En um leið geri ég ráð fyrir, að þm. leggi sig fram um að skoða þetta frv. og leggja á það sjálfstætt mat. Geri ég ráð fyrir, að málið fái rækilega meðferð hér í þinginu, og þess vegna er áríðandi, með hvaða hugarfari þm. framkvæma athugun sína, að þeir skoði málið í fullkomnum tengslum við núgildandi löggjöf og lagi breytingarnar að ríkjandi aðstæðum — breytingar, sem kunna að verða gerðar, verði ekki byltingarkenndar, valdi ekki svo mikilli röskun og uppreisn, að löggjöfin verði ekki framkvæmanleg, að hún verði nemendum og kennurum óviðráðanleg og andstæð.

Þar eð ég hef gert væntanlega meðferð þingsins að umtalsefni, vildi ég víkja örfáum orðum að þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð hafa verið við undirbúning þessa máls. Í því sambandi get ég því miður ekki tekið undir ummæli síðasta hv. ræðumanns, 1. þm. Austf., hins þingreynda manns, Eysteins Jónssonar, um, að þessi vinnubrögð hafi verið alls kostar ánægjuleg. Tvær n. hafa unnið við gerð þessa frv., og í sjálfu sér eru það ekki óvenjuleg eða óeðlileg vinnubrögð og ekkert nema gott um það að segja að sjáifsögðu. En sá háttur hefur verið hafður á að safna saman álitum og umsögnum, sem margar hverjar eru prentaðar með frv. eða liggja nú fyrir, áður en frv. kemur fyrir þingið. Ég er að sjálfsögðu ekki að gagnrýna vandaðan undirbúning og að frv. sé sniðið eftir skoðunum þeirra, sem framkvæma eiga þessa löggjöf. En það hefur komið fram hér hjá hv. 7. þm. Reykv., að hann lítur svo á, að fyrir vikið hafi dregizt að leggja málið fyrir þingið, og hafi það verið skaðlegt að hans áliti, og keimurinn af þessum undirbúningi er óneitanlega sá, að það eigi að leggja frv. fyrir Alþ. nánast til þess eins, að það afgreiði það hugsunarlaust, sem sagt Alþ. sé afgreiðslustofnun fyrir þá embættismenn og aðra aðila, sem ganga frá málinu fullgerðu í okkar hendur.

Nú vil ég taka fram, að þetta er að sjálfsögðu ekkert einsdæmi. Hvað eftir annað er kastað hér inn fullsmíðuðum frv., oftast af viðkomandi ríkisstj., og það þarf mikið átak og oft mikið hugrekki — oftast án mikils árangurs — til að gera brtt. á þessum frv. Þm. hafa takmarkaða möguleika til að fylgjast með undirbúningi mála, og þeim eru framandi þau rök, sem liggja að baki ákvæða eða frv., sem þeim er síðan ætlað að samþykkja, oft á mjög skömmum tíma.

Hvað þessu ákveðna máli viðvíkur, sem hér er á dagskrá, leikur vart vafi á því, að fræðslulöggjöf er ein mikilvægasta stoð þess þjóðfélags, sem við viljum móta hér á landi. Og auðvitað er það grundvallaratriði, að Alþ. Íslendinga sé sér þess fullkomlega meðvitandi, hvað löggjöfin feli í sér, að þm. samþykki ekki frv. sem þetta hrátt og óhugsað. Auk þess er vitað, að verulegur ágreiningur er uppi um veigamestu ákvæði þessa grunnskólafrv., lengingu skólaskyldunnar og lengingu skólaársins. Því hefði að mínu viti verið hyggilegt, um leið og unnið var að þeim undirbúningi, sem fram hefur farið og út af fyrir sig er lofsverður, að gefa þm. kost á að fylgjast betur með gerð þessa frv. frá upphafi og gefa mönnum kost á að fylgjast með skoðanaskiptum, kynna sér umsagnir og viðtökur áhuga- og hagsmunahópa. Ef rétt er á málum haldið hér í þinginu, þurfa nú þn. að fara í gegnum allar umsagnir á nýjan leik, kalla til sín umsagnaraðila, endurtaka umr. og hefja eflaust deilur um ýmis atriði, sem sjálfsagt eru komin inn í frv. sem niðurstöður slíkra mismunandi skoðana. Það er ljóst, að ef þessi athugun verður framkvæmd hjá þn., mun þetta frv. ekki verða afgreitt á þessu þingi. Ef þessi athugun fer hins vegar ekki fram, sannast það enn einu sinni, að Alþ. er afgreiðslustofnun, ekki aðeins í augum annarra, heldur líka þm. sjálfra.

Í þessu frv. eru fjölmörg athyglisverð nýmæli, og ég held, að hægt sé að fullyrða, að n. sú, sem hefur haft þetta mál til endurskoðunar og meðferðar, hafi unnið mjög gott starf, hún hafi dregið fram í sviðsljósið ýmis mál, sem markverð teljast, og hvort sem frv. verður samþykkt eða ekki, hafa menn mun betri yfirsýn yfir fræðslumálin og átta sig nú betur en fyrr á því, hvar skórinn kreppir. Af þeim nýmælum, sem ég tel athyglisverðust, nefni ég fyrst þá viðleitni að dreifa yfirstjórn fræðslumálanna til landshlutasamtaka, skólastjóra og kennara. Ég nefni líka tilraunirnar til að jafna möguleika allra landsmanna eða landsbarna til skólanáms án tillits til búsetu. Ég tek undir þær tilraunir af mjög heilum hug og get verið í því sambandi mjög sammála síðasta ræðumanni. Ég nefni samræmingu barna- og gagnfræðastigsins og það, að skólakerfið sé gert samfellt. Ég nefni þá reglu, að lokapróf hvers áfanga grunnskólans sé jafnframt inntökuheimild næsta skólastigs, og ég fagna þeirri hugmynd, að námsárangur skuli nú metinn eftir leiðum námsmats, en ekki einstrengslegum og oft gölluðum prófum, eins og við höfum þekkt þau, og þá sérstaklega, ef námsmatið, eins og ég skil það, á að taka mið af framförum eða frammistöðu hvers nemanda frá einum tíma til annars, frekar en að stilla honum upp í óeðlilegri keppni við alla hina. Þroski nemenda er mismunandi, hæfileikar þeirra liggja á ýmsum sviðum, og ég tel, að með þessu sé meira tillit tekið til einstaklings, hvers einstaks nemanda, og yfirleitt sé stefnt að því í þessu frv. að sinna meir hverjum einstökum heldur en hópnum eða bekknum. Það kemur fram í minni bekkjardeildum, meira tilliti til einstaklingsbundinna vandamála, eflingu sálfræðiþjónustu og auknum skólarannsóknum. Ég nefni þau ákvæði, sem snerta einkaskólana, sem athyglisverð, þótt þau þurfi að skoða betur, og mörg nýmæli varðandi stöðu kennara og starfsliðs skólanna. Þessi ákvæði og reyndar mörg fleiri eru tvímælalaust spor í rétta átt. Hins vegar nefni ég ekki á þessu stigi málsins þau tvö atriði, sem skipta kannske hvað mestu máli, þ. e. a. s. lengingu skólaskyldunnar og lengingu skólaársins. Mér er ljóst, að þar eru stigin stærstu sporin til breytinga, en um leið er þar um að ræða þau ákvæði, sem mestum deilum kunna að valda.

Það er upplýst í grg, frv., að á úrtökuári, — sennilega 1968–1969, það skiptir ekki megin máli, — stunda 82% allra nemenda nám í 3. bekk gagnfræðastigs, en 3. bekkur er sami bekkur og kemur til með að verða 9. og efsti bekkur grunnskóla. Lenging skólaskyldunnar er því rannverulega formsatriði gagnvart þessum yfirgnæfandi meiri hluta nemenda. Lögbinding skólaskyldunnar um eitt ár til viðbótar er þess vegna í sjálfu sér ónauðsynleg þeirra vegna og ekkert aðalatriði að binda alla slíka hluti í lög, gera það að skyldu, sem fólk almennt velur af frjálsum og fúsum vilja. Athyglin beinist því að þessum 18% nemenda, sem halda ekki áfram skólagöngu. Hvaða fólk er það? Af hvaða ástæðum heldur það ekki áfram námi? Í grg. er upplýst, að hlutfallslegur meiri hl. þeirra sé búsettur í dreifbýli, og dregur n. þá ályktun, að búseta valdi því, að þessi hlutfallslegi meiri bl. sæki ekki skóla, eftir að skyldunni lýkur. Þessar ályktanir eru ekki nægilega rökstuddar að mínu áliti. Hér þyrfti að liggja fyrir ítarleg könnun á ástæðunum fyrir brotthvarfi nemenda úr skóla. Mér er ekki grunlaust um, að fjölmargar aðrar ástæður og þá jafnvel þyngri á metunum valdi þessu fráhvarfi. Ekki er öllum unglingum ljúft eða átakalaust að sækja skóla á þessum aldri, og það orkar tvímælis að þröngva stálpuðum unglingum, nauðugum viljugum, til bóknáms, þegar hugur þeirra og hæfileikar standa til annars. Sálarheill hvers nemanda er mikilvægari en framkvæmd á þröngum lagabókstaf.

Með þessu er ég ekki að lýsa mig andvígan lengingu skólaskyldunnar, og ég hef frekar tilhneigingu til að fallast á hana. En ég tel, að það örlagaríka spor megi ekki stíga nema að mjög vandlega athuguðu máli, og kostir þess þurfa að vera yfirgnæfandi og sannfærandi.

Lenging skólaársins er sömuleiðis spursmál, sem ekki hefur verið svarað að öllu leyti. Hvað knýr svo mjög á í því sambandi? Nýtist hinn lengdi skólatími eins vel? Hvað um námsleiða og skólaþreytu unglinga, sem fullir eru af lífsorku og athafnaþrá? Hvað um atvinnuvegina, sem hafa notið þessara starfskrafta, og hvað um það lífsnám og lífsreynslu, sem unglingar hafa öðlazt með tengslum sínum við lífið og starfið? Er ekki einmitt hætta á, að þau tengsl rofni og skólaæskan fjarlægist enn meir atvinnulífið og einangrist í hámenntaðri yfirstétt akademíkara, embættismanna og sérfræðinga? Hver er reynsla annarra þjóða af lengingu skólaársins, og er það sambærilegt við íslenzkar aðstæður?

Þessum spurningum varpa ég fram. Ég hef ekki sjálfur nein endanleg svör við þeim, og sjálfsagt yrðu þau svör sum hver jákvæð eða mæltu jafnvel með lengingu skólaársins. Ég held þó, að þau þurfi að liggja fyrir, áður en við stígum skrefið til fulls. Ég get fyrir mitt leyti frekast fallizt á lengingu skólaskyldunnar um eitt ár, en það eru vissar efasemdir uppi í mínum huga um gildi þess að lengja skólaárið þannig, að unglingar sitji á skólabekk fram á sumar. Vorið og sumarið, sá óviðjafnanlegi og dýrmæti árstími hér á Íslandi, eru ekki of löng, þótt sá tími sé ekki enn styttur með þvingaðri og þreytandi innisetu.

Ég sagði áðan, að frv. fæli í sér mörg athyglisverð nýmæli, og það fer ekki á milli mála, að þeim yrði mörgum feginsamlega tekið af fræðsluyfirvöldum, kennurum og nemendum. En þessi nýmæli sem og margt annað í þessu frv. krefst að sjálfsögðu nánari athugana og aths. Ég gat þess, að augljós væri í frv. ákveðin viðleitni í þá átt að auka áhrif landshlutasamtaka í yfirstjórn fræðslumálanna. Ég sagði jafnframt frá því, að ég styddi þá viðleitni. En í því sambandi er gert ráð fyrir, að landshlutasamtök gegni þar ákveðnu hlutverki. Þó er sá galli á gjöf Njarðar, að þessi landshlutasamtök eru enn ofar skýjum, hafa ekki lögviðurkennda stöðu í þjóðfélaginu, og vissulega er það ankannalegt að gera ráð fyrir verkefni til banda samtökum, sem formlega séð, eru ekki til. Því má bæta við, að viðleitnin til valddreifingarinnar er oft meira til að sýnast heldur en hitt. Og þegar til kastanna kemur og betur er farið ofan í ýmis ákvæði frv., liggur því miður allt of mikið raunverulegt vald áfram hjá menntmrn., sem hefur aðsetur hér í höfuðborginni. Þannig eiga landshlutasamtök að kjósa fræðslunefndir, en rn. að skipa fræðslustjóra, þannig mega fræðslunefndir veita umsagnir um val skólastjóra, aðstoðarskólastjóra og kennara, en rn. tekur lokaákvörðun, og raunar getur það hunzað algerlega meðmæli og óskir fræðslunefnda eða skólastjóra, ef kennarar eiga í hlut,

Rétt er að taka fram, svo að þetta sé ekki allt á sömu bókina lært, að það segir í 34. gr., að sveitastjórnir megi ráða húsverði, ef þær telji þörf á, svo að eitthvað er rétt að sveitarstjórnum þrátt fyrir þetta.

Ég get ekki heldur stillt mig um að vekja athygli þingheims á 33. gr., sem er kannske gott dæmi um burókratíið og þá broslegu tilhneigingu til að halda nú öllu í höndum rn. þrátt fyrir allt og alla. Í 33. gr. segir, að „þegar skólastjóra- eða kennarastaða losnar í skólahverfi, ber skólanefnd að tilkynna fræðslustjóra það tafarlaust. Fræðslustjóri sendir tilkynninguna til menntmrn., sem auglýsir stöðuna. Skólanefnd veitir viðtöku umsóknum um skólastjóra- og kennarastöður og sendir fræðslustjóra till. sínar og umsagnir. Skylt er skólanefnd að leita álits skólastjóra um umsækjendur, ef velja á kennara, en fræðslustjóra, ef velja skal skólastjóra. Verði ágreiningur um umsækjendur milli skólastjóra og skólanefndar, gerir hvor aðili um sig tillögur til fræðslustjóra.“ — Fræðslustjóri sendir síðan till. til menntmrn. ásamt umsögn sinni, þar sem lokaákvörðun er tekin. M. ö. o : skólanefnd tilkynnir fræðslustjóra, fræðslustjóri tilkynnir rn., rn. auglýsir, skólanefnd tekur á móti umsóknum, sendir þær skólastjóra, skólastjóri sendir umsagnir til skólanefndar, skólanefnd sendir þær til fræðslustjóra og fræðslustjóri sendir þær til rn. Þar er loks tekin ákvörðun um það, hvort ráða skuli þennan kennara eða hinn. Flóknara getur það nú varla verið.

Annað gott dæmi um áframhaldandi ráð rn. er í 16. gr., þegar rætt er um skólahverfi, en í síðustu mgr. þeirrar gr. segir: „Menntmrn. leggur till. um skiptingu landsins í skólahverfi fyrir fræðsluráð, er kynna þær hlutaðeigandi sveitarstjórnum og skólanefndum. Nú getur fræðsluráð ekki fallizt á till. rn., og skal þá boða til sameiginlegs fundar og leita samkomulags. Um þau atriði, sem ekki næst samkomulag um, sker menntmrn. úr.“ M. ö. o.: menntmrn. gerir till., leggur þær fyrir aðila, sem málið snertir, og ef þeir fallast ekki á till., ef ágreiningur kemur upp, þá skal rn. skera úr um eigin till. Ekki er þetta nú fullkomlega í anda lýðræðis og hlutlausrar meðferðar. Rn. á samkv. þessu að vera dómari í sjálfs síns máli.

Fleiri dæmi má finna í sama dúr, og ég hirði ekki um að rekja þau. Þetta er til athugunar, og þetta er hægt að lagfæra í meðferð. Landshlutasamtök eða sveitarfélög, meðan landshlutasamtökin eru í raun og veru ekki til, hljóta líka að skoða slík atriði og fjölmörg önnur, sem snerta fjárhagsmál og ákvarðanatöku, og ég er í sannleika sagt undrandi á því, að ekki skuli hafa verið gengið hreinlega til verks varðandi þá kostnaðarskiptingu, sem er á milli ríkis og sveitarfélaga og er sífellt þrætuepli og deilumál á milli þessara aðila. Í þeim efnum mætti vissulega ganga lengra í þá átt að aðgreina verkefna- og kostnaðarskiptingu á þann hátt, að sveitarfélögin hefðu ákvarðanir og sjálfstjórn meir á sinni hendi.

Margir aðrir kaflar frv. eru aðfinnsluverðir. Skoða verður markmiðsákvæðin betur og tengsl skólanna við kirkjuna og kristna trú og siðfræði.

Skoða þarf betur, hvort ekki megi efla og móta lýðræðislega vitund nemenda í samræmi við höfuðmarkmið frv. og þjóðfélagsskipunina hér á landi. Endurskoða þarf grunnskólaráð og verkefni fræðslustjóra og fræðsluráða. Betur þarf að athuga um framkvæmd þess kafla, sem snýr að skólahúsnæði, og taka ber fullt tillit til sjónarmiða kennara um réttarstöðu þeirra, stöðu þeirra innan skólans og skólastjórn. Ráðningu kennara þarf líka að skoða betur og starfstíma o. s. frv. leggja þarf fram frekari rök fyrir nauðsyn þess, að skólarannsóknum séu gerð svo ítarleg skil og hátt undir höfði í þessu frv., og vandlega þarf að fara með viðkvæm mál eins og erfiðleika með einstaka nemendur. Hvernig verður sálfræðiþjónustunni háttað, og má ekki enn setja fjölmörg frv.- ákvæði í reglugerð í stað þess að hafa þau í þessari löggjöf? Nákvæm upptalning á kennslutímum sýnist t. d. lítið erindi eiga inn í heildarlöggjöf sem þessa.

Herra forseti. Ég skal ekki tína fleira til. Ég vil aðeins að lokum segja það, að ég fagna því, að þetta frv. er komið á dagskrá hv. þd., svo að þm. geti nú af alefli snúið sér að því að grandskoða þessi frv. Grunnskólafrv. verður að fá ítarlega meðferð í n., það verður að gerjast með mönnum, og menn verða að átta sig á því, hvað samþykkt þess hefur í för með sér, og hér má ekki rasa um ráð fram. Þessi löggjöf leggur þýðingarmeiri grundvöll fyrir þjóðarheild og einstaklinga en flest annað, snertir mennta- og menningarstefnu þessarar þjóðar yfirleitt, hefur áhrif á uppeldisvenjur, tengsl æskunnar við heimili og atvinnulíf og getur ráðið miklu, ef ekki öllu, um þróun fræðslu- og kennslumála hér á landi næstu árin, jafnvel næstu áratugina. Við skulum því flýta okkur hægt í þessu máli. Ég er ekki hvatamaður að því, að þetta mál sofni í n., síður en svo. Ég mun sem nm. í menntmn. Nd. leggja mig fram af áhuga og alefli, að málið fái þinglega og gaumgæfilega meðferð, þannig að það verði ekkert lát á því, að það verði skoðað. En ég vil, að þm. fari ofan í þetta frv., ekki aðeins þeir, sem sitja í n., heldur raunverulega þingheimur allur. Ég held, að þegar svona stórt mál er á ferðinni, — og það verða mín síðustu orð, — þá sé betra að fara að öllu með gát í stað þess að samþykkja eitthvað, sem leiði til hins verra. Um það ættum við að geta verið sammála.