27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (1672)

119. mál, sjónvarp

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög þýðingarmiklu máli í fsp. þeirri, sem er til umr., þó að það varði einungis eitt kjördæmi, Austfirði. Það hefur áður á þessu þingi komið fram hliðstæð fsp. varðandi þessi mál hvað viðkemur Vestfjörðum. En það er upplýst í báðum tilfellum, hve hér er um að ræða mikið verkefni óunnið.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri allt í óvissu um, hvernig þessu verki miðaði áfram í Austurlandskjördæmi. Hliðstætt sagði hann um Vesturlandskjördæmi. Og hann sagði, að það færi eftir fjárhag Ríkisútvarpsins. Auðvitað fer þetta eftir fjárhag Ríkisútvarpsins. Hæstv. fyrirspyrjandi var með tilmæli til hæstv. ráðh. um það, að hann gerði áætlun um þessi efni og ynni að því, að til framkvæmda kæmi. Mér finnst hv. fyrirspyrjandi heldur lítillátur í þessu efni, þegar haft er í huga, að hér er um einn aðalvaldamann ríkisstj. að ræða, raunverulega mann, sem ræður sjóum og vindum hjá þessari ríkisstj. og vekur hana upp til lífsins, ef á þarf að halda, og gerir önnur kraftaverk. Hann lætur sér nægja að vera með slík blíð tilmæli til ráðh., þegar vitað er, að það er algerlega út í hött, nema unnið sé með allt öðrum hætti að þessu máli heldur en núv. ríkisstj. gerir, þ. e. a. s. það sé útvegað sérstakt fjármagn til þess að vinna að þessu sérstaka verkefni, sem er sérstaks eðlis og varðar jafnvægi í byggð landsins.

Ekki er hér hægt að koma neinum arðsemissjónarmiðum og ekki hægt að ætlast til þess, að undir venjulegum kringumstæðum geti Ríkisútvarpið ráðið við þetta verkefni, — ég segi: undir venjulegum kringumstæðum. En nú eru ekki venjulegar kringumstæður. Í því efni ber að minna á meðferð Alþ. á Ríkisútvarpinu í sambandi við afgreiðslu fjárl. fyrir þetta ár. Þá voru fjárl. afgreidd með 110 millj. kr. tekjuhalla á Ríkisútvarpinu. Auk þess situr Ríkisútvarpið uppi með 20 millj. kr. rekstrarhalla fyrir s. l. ár, og eftir eru að koma til áhrifin af síðustu gengislækkun.

Af þessu leiðir, að hér þarf að taka miklu betur á málum, en ríkisstj. hefur tilburði til. Ég treysti því, að hæstv. fyrirspyrjandi taki raunhæft á þessu máli með því að vera meðmæltur og greiða atkv. með þáltill., sem ég ásamt fleiri þm. hef horið fram til þess að ráða bót á þessu mikilvæga máli.