27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2138 í B-deild Alþingistíðinda. (1674)

288. mál, rekstur annarrar lyfjabúðar í Hafnarfirði

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr, hvort ég vilji hlutast til um, að komið verði á laggirnar annarri lyfjabúð í Hafnarfirði. Eins og hann vék að í ræðu sinni hér áðan, óskuðu bæjaryfirvöld í Hafnarfirði í fyrsta skipti formlega eftir því, að sett yrði á laggirnar ný lyfjabúð í „Norðurbæ“ í Hafnarfirði árið 1969, en ekki var talið tímabært að verða við þeirri ósk þá. Heilbr.- og trmrn. bárust ítrekuð tilmæli bæjaryfirvalda í júlí 1972, og var þá leitað umsagnar þáv. landlæknis, Sigurðar Sigurðssonar. Hann lagði til, að lyfsalanum í Hafnarfirði yrði heimilað að setja upp lyfjaútibú í „Norðurbæ“ í Hafnarfirði í samræmi við 43. gr. lyfsölulaga. Um leið og bæjaryfirvöldum var greint frá þessari umsögn landlæknis, skýrði rn. frá því, að ekki yrði ákveðið um fjölgun lyfjabúða í Reykjavík og nágrenni, meðan n. til að gera till. um endurskipulagningu lyfjaverzlunarinnar væri startandi. Þessi n. er skipuð til að gera tili. á grundvelli málefnasamnings ríkisstj., að því er varðar lyfsölumál.

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði höfnuðu sjálf hugmyndinni um lyfjaútibú, en ítrekuðu ósk sína um, að sett yrði á stofn lyfjabúð í „Norðurbæ“ hið fyrsta. Rn. svaraði bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði hinn 12. jan. s. l., og var þar enn vakin athygli á, að áðurgreind n., sem fjallaði um endurskipulagningu lyfjaverzlunar, hefði ekki lokið störfum. Hins vegar tók rn. fram í bréfi sínu, að það vildi af sinni hálfu greiða fyrir skjótari ákvörðunartöku með því að afla upplýsinga um þróun byggðar og þjónustugreina í hverfinu. Till. lyfjamálanefndar um dreifingu lyfja, þar með um staðarval fyrir lyfjabúðir, liggur ekki fyrir, en búast má við, að svo geti orðið að mánuði liðnum. Hafnarfjörður er ört vaxandi kaupstaður, og miðað við meðalíbúafjölda fyrir hverja lyfjabúð í Reykjavík, sem er um 6700 manns, virðist stefna að því, að stofnsetja verði aðra lyfjabúð í Hafnarfirði, þótt núv. lyfjabúð sé vissulega mjög vel í sveit sett. Núv. landlæknir, Ólafur Ólafsson, hefur nú til meðferðar nýjustu gögn varðandi þetta mál, og er umsagnar hans að vænta mjög brátt.

Svar mitt verður því á þá lund, að ég er reiðubúinn til að hlutast til um, að ákvörðun verði tekin hið fyrsta á grundvelli þeirrar vitneskju, sem aflað verður á næstunni um málið. Ég vil hins vegar einnig ítreka það að lokum, að bæjaryfirvöldin í Hafnarfirði höfnuðu sjálf þeirri lausn, að sett yrði upp útibú í „Norðurbæ“, en það hefði um sinn leyst brýnustu þörfina fyrir lyfsöluþjónustu í hverfinu.