27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2145 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

290. mál, gufuaflsvirkjun til rafmagnsframleiðslu

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. út af svörum hæstv. ráðh. um raforkumál á Norðurlandi. Hann lagði mikla áherzlu á það í öllum svörum sínum við þessum spurningum, að samtenging við Norðurland væri forsendan fyrir þessum virkjunum. Nú veit þingheimur, að ákveðin er Sigölduvirkjun hér á Suðvesturlandi og að sú virkjun framleiðir miklu meiri orku en þörf verður á við núverandi aðstæður á Suðvesturlandi á næstu árum, jafnvel áratugum. Þess vegna er það afar erfitt dæmi að koma saman, hvernig hæstv. ráðh. telur, að forsenda fyrir virkjunum á Norðurlandi sé að tengja þær við svæði, sem framleiðir miklu meiri orku væntanlega en það þarf að nota. Þetta er a. m. k. dæmi, sem ég á afar erfitt með að koma heim og saman, enda mun ætlunin sú að tengja Norðurland við Suðvesturland til þess að afla Norðlendingum grunnorku. Og það, sem við Norðlendingar hræðumst í sambandi við það, er, að það verði mjög mikið öryggisleysi í þeirri orkuöflun. Reykjavíkurbúar og þeir, sem búa hér á landsvirkjunarsvæðinu mættu gjarnan hugleiða það, að þeir urðu tvisvar sinnum orkulausir í vetur og hafa þó tvöfalda línu að Búrfelli. Hvað þá um Norðurland, ef það á að byggja algerlega á slíkri orkuöflun?