26.10.1972
Sameinað þing: 9. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

19. mál, olíuverslun

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ef síðasta mál á þessari dagskrá hefur verið nóg til þess að koma í gang umr. um grundvallarstefnur í atvinnumálum, býst ég við, að sú till., sem ég mæli fyrir, geti ekki síður orðið til þess, enda þótt hún sé gamall kunningi í sölum Alþ., sem ekki verður sagt um hugmyndirnar um Norðurl. v.

Á þskj. 19, 19. mál, er till. frá þm. Alþfl. um endurskipulagningu olíuverzlunar í landinu. Till. er þannig að þessu sinni:

„Alþingi ályktar að kjósa sjö manna n. til að gera till. um endurskipulagningu á innflutningi á olíuvörum og dreifingu þeirra í landinu í því augnamiði að tryggja fyllstu hagkvæmni í innkaupum, sölu og dreifingu olíuvara innanlands, svo að þær geti jafnan verið á boðstólum á lægsta verði til notenda.“

Alþfl. hefur oft á umliðnum árum flutt eða stutt svipaðar till. og haft það á stefnuskrá sinni, sem ítrekað var síðast á sunnudaginn var, að olíuverzlun, olíuinnflutningur og olíudreifing á Íslandi eigi að vera í höndum ríkisins. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum til þess að lýsa því, hvernig olíuverzlun Íslendinga er nú háttað. Innflutningurinn á mestöllum olíuvörum, sem hér er notaður, er í höndum ríkisvaldsins og annast það hann að verulegu leyti. Hins vegar er dreifingin á þessum vörum í höndum þriggja stórfyrirtækja hér innanlands. Árangur af því hefur orðið sá, að um landið allt, bæði í stórum byggðum og smáum, er viðast hvar þrefalt olíudreifingarkerfi, og hefur verið harla erfitt að sannfæra allan þorra landsmanna um, að þetta þrefalda kerfi væri hagkvæmt og leiddi til annars en aukins kostnaðar á þessum nauðsynlegu vörum. Hið sama má segja um dreifingu á olíu til húshitunar og raunar hvaða hluta olíudreifingar sem litið er á. Þá má einnig minna á staðsetningu stórra olíubirgðageyma. Eru þess dæmi, að geymar frá tveimur mismunandi félögum standi hlið við hlið, en væntanlega með tvöfalt starfslið til þess að gæta þeirra og vinna við þá.

Þessi till. okkar hljóðar, þrátt fyrir yfirlýsta stefnu okkar, ekki beinlínis um að fyrirskipa þjóðnýtingu á olíuverzluninni. Vegna reynslu undanfarinna ára og þeirrar tregðu, sem ávallt hefur reynzt vera á því að fá þetta mál kannað til botns, leggjum við til, að málið verði athugað og dregnar fram allar upplýsingar um það, en að þeirri athugun lokinni megi íhuga, hvers konar fyrirkomulag væri bezt að hafa á olíuverzluninni. Það er hægt að hugsa sér marga möguleika, t.d. þann, að innflutningurinn væri algerlega þjóðnýttur, en smásöludreifing gæti verið í höndum einstaklinga, samvinnufélaga og jafnvel annarra aðila, hugsanlega sveitarfélaga. Það er hægt að hugsa sér, að öll olíuverzlun og dreifing innanlands verði í höndum eins eða fleiri opinberra fyrirtækja, og um fleiri möguleika getur vissulega verið að ræða.

Ríkisstj. sú, sem sat á undan núv. ríkisstj., lét gera allmiklar rannsóknir á víssum þáttum þessara mála, og kann að vera, að þær rannsóknir geti auðveldað störf þeirrar n., sem við leggjum nú til, að verði sett í málið, og efast ég raunar ekki um, að þau gögn, sem þegar hefur verið aflað, muni létta störf n. Engu að síður er nauðsynlegt að ljúka þessum athugunum, leggja þær fram og gera sér grein fyrir því eftir einhverju öðru en einstrengingslegum pólitískum skoðunum, hvort menn telja hentugast fyrir Íslendinga, að olíuverzlunin sé að einhverju, nokkru eða öllu leyti í höndum ríkisins.

Herra forseti. Ég legg svo til, að till. verði vísað til atvmn.