27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2148 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

291. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin, en því miður get ég ekki sagt, að ég sé ánægður með þau. Ég verð að lýsa yfir nokkurri undrun minni yfir því, að hæstv. ráðh. skyldi ekki verða auðið að kalla n. saman fyrr en einum 3 eða 4 mánuðum eftir að hún var kosin, og ef það hefur verið svona erfitt að fá nm. til að mæta, þá held ég, að réttara hefði verið af þeim að gera fyrr aðvart um það, ef þeir gætu yfirleitt ekki mætt í svona n.

Ég hygg, að þessi fsp. sé réttilega beint til hæstv. forsrh., því að undir hann heyrir stjórnarskráin, en vera má, að nm., sem hér eru í þingi, kunni að geta gefið nánari upplýsingar um, hvernig n. hefur starfað. T. d. heyrði ég ekki, að hæstv. ráðh. upplýsti, hve marga fundi n. hefur haldið, en um það spurði ég sérstaklega í framsöguræðu minni.

Það væri e. t. v. ástæða til þess að rifja dálítið upp sögu þessa máls í sambandi við þessa fsp. og í tilefni af því, sem hæstv. forsrh. sagði, að það þyrfti langan tíma og þyrfti að vanda vel til endurskoðunar stjórnarskrárinnar, og það er alveg rétt. En hins vegar vil ég vekja athygli á því, að þetta er ekki í fyrsta sinn, sem hafizt er handa um að endurskoða stjórnarskrána. Stjórnarskrárnefnd var sett hér á laggirnar 1945 og aftur 1947, og þessar n. störfuðu árum saman, en enginn árangur varð af störfum þeirra. Nú var á það bent af mér og fleirum, sem stóðu að flutningi þessa máls á sínum tíma, að það virðist svo, að í hvert sinn, sem hafizt er handa um stjórnarskrárendurskoðun, leggi þingflokkarnir sína dauðu hönd á verkið. Og það, sem gerðist á síðasta þingi, var sannarlega athyglisvert. Till. tvær, sem fram voru bornar um endurskoðunina, gerðu ráð fyrir því, að þessi n. yrði blönduð, þannig að aðeins hluti af n. yrði skipaður hér á Alþ. af þingflokkunum og að öðru leyti yrði n. skipuð af aðilum utan þings og formaður n. yrði utanþingsmaður. Þetta var með vilja gert, vegna þess að a. m. k. ég fyrir mitt leyti óttaðist, að ef innanþingsmenn, fulltrúar flokkanna, væru einir í þessari n., þá kynni að fara eins og fyrr, að n. yrði svæfð. Og mér sýnist allt útlit fyrir, að svo ætli að fara, að þessi n. verði svæfð í starfi og það gerist sem sé ekki neitt, sagan endurtaki sig frá fyrri tíma, þegar slíkar n. voru skipaðar. Þó að ég óttist þetta, vil ég samt vona, að reyndin verði önnur.