27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2150 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

291. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég get ekki fundið, að svarræða mín áðan hafi gefið tilefni til þeirra orða, sem hv. síðasti ræðumaður lét falla. Ég hef játað, að það dróst nokkuð að kalla n. saman. Ég gaf skýringu á því, hvers vegna það var. Ég lagði áherzlu á, að það væri hægt að fá alla til að mæta, en það tókst ekki, og þá fór svo að lokum, að n. var kvödd saman, án þess að allir kæmu á fund.

Auðvitað hef ég aflað mér upplýsinga um, hvað hefur gerzt í n. Ég sagði, að samkv. þeim upplýsingum, sem ég hefði fengið, hefði verið aflað gagna. Frekari upplýsingar hef ég ekki fengið um starf n. Ég skil ekki, hvað þau stóryrði eiga að bíða, sem hv. síðasti ræðumaður viðhafði hér. Ég vil benda á, að þetta er þingkjörin n. Hver þingflokkur á fulltrúa í henni. Það er hægur hjá fyrir hvern einasta þm., sem vill fá upplýsingar um störf þessarar n., að bera fram fsp. um það í sínum þingflokki og leita upplýsinga hjá þeim fulltrúum, sem af hans hálfu voru kjörnir í n. Það hefði þessi hv. ræðumaður átt að gera.