27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

291. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Mér finnst, að þeir menn, sem bera ábyrgð á einhverjum störfum í þjóðfélaginu, eigi líka að standa við þá ábyrgð og ekki reyna að koma henni yfir á aðra, ef deilt er á þá. Ég hafði ekki búizt við því af hæstv. félmrh., formanni stjórnarskrárnefndar, að ætla að reyna að gera mig samábyrgan um seinaganginn í þessu máli. Held ég, að það sé alveg gagnslaust. Hæstv. félmrh. hefur tekið á sig þá ábyrgð og þá skyldu að vera formaður í n. og stýra störfum hennar, og það var gert samkv. uppástungu hæstv. forsrh. Hann ber auðvitað ábyrgð á því, að nefndarfundir hafa ekki verið haldnir og n. hefur ekki starfað að kalla, hún hefur varla tekið til starfa. Ég vil til skýringar einnig taka fram, að ég hef nokkrum sinnum á þessum tíma giskað eftir því við hæstv. félmrh., að hann kallaði n. saman, og einu sinni hef ég gert það opinberlega í blaðagrein, þegar hitt dugði ekki, en allt kemur út á sömu lund. En þegar hæstv. félmrh. segir sér til afsökunar, að meðan þing standi, sé ákaflega erfitt að ná n. saman, þá hefur hæstv. forsrh. hina afsökunina, að þegar þingi var lokið, var í 4 mánuði varla hægt að ná n. saman.