27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2152 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

165. mál, þjóðhátíð 1974

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Árið 1967, eða fyrir nærfellt 6 árum, var samþ. hér á hv. Alþ. þáltill. um undirbúning 1100 ára afmælis byggðar á Íslandi árið 1974. Þessi ályktun fól m. a. í sér, að kosin var 7 manna n. til að íhuga og gera till. um, með hverjum hætti minnast skyldi afmælisins. Þessi n. hefur starfað allar götur síðan. Í téðri þáltill. er komizt m. a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Skal n. heimilt að hefja undirbúningsframkvæmdir þeirra till. varðandi hátíðina, sem við nánari athugun þykir rétt að framkvæma, en aðalákvarðanir hennar skulu bornar undir ríkisstj., áður en framkvæmdir hefjast.“

Ætla má, að þáv. forsrh. hafi sérstaklega haft forgöngu í þessu máli, þ. e. a. s. Bjarni Benediktsson, enda mælti hann fyrir ályktuninni og reifaði ýmsar hugmyndir, sem upp höfðu komið varðandi hátíðahöldin. Drap hann á þjóðarhús á Þingvelli, byggingu þinghúss og/eða stjórnarráðs, vegagerð umhverfis Þingvallasvæðið, ýmiss konar útgáfustarfsemi, svo sem útgáfu Íslandssögu og safnrits, úrvalsrits úr íslenzkum bókmenntum, gerð listamannabúða á Þingvelli og listahátíðir, víkingaskip, gerð eftirlíkingar af sögualdarbæ o. s. frv. Það skal tekið fram, að Bjarni Benediktsson tók ekki beina afstöðu til einstakra hugmynda, en taldi þær allar verðar nánari íhugunar. Í umr. greindi Bjarni Benediktsson frá því, hvernig hann taldi rétt, að staðið yrði að þessum málum. Hann segir svo í ræðu í Sþ. 18. apríl, með leyfi hæstv. forseta:

„Það getur ekki komið til greina, að n. verði falið ótakmarkað fjárveitingavald eða ákvörðunarvald, hvorki um stórbyggingar á Þingvöllum, um þinghúsbyggingu né neitt slíkt. Þessar ákvarðanir hlýtur Alþ. að taka með fjárveitingum, eftir atvikum samkv. till. ríkisstj., eftir atvikum að eigin frumkvæði, og meðan ég hef um þessi mál að fjalla, samþykki ég ekki, að þar verði ráðizt í neinar slíkar framkvæmdir, sem eðli málsins samkv. heyri undir ríkisstj. og Alþ.“

Af þessu er ljóst, að Bjarni Benediktsson hafði í huga, að ríkisstj. bæri allar meiri háttar framkvæmdir vegna afmælisins undir Alþ., enda má segja, að það liggi í hlutarins eðli.

Þar sem n., sem um þessi mál fjallar, hefur nú setið 6 ár á rökstólum, en rúmt ár er til hátíðahaldanna, er ekki úr vegi, að Alþ. fái nokkra vitneskju um það, hvernig þessi mál standa í heild. Þess vegna hef ég borið fram þrjár spurningar til hæstv. forsrh. út af þessu efni, og dylst væntanlega ekki neinum, að þær bera með sér ákveðið viðhorf til þessara mála. Þær eru á þskj. 305 og hljóða svo:

„1. Hverjar eru helztu framkvæmdaáætlanir á prjónunum hjá þjóðhátíðarnefnd sumarið 1974 í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar?

2. Hversu miklu fé er ætlunin að eyða til hátíðarhaldanna?

3. Væri ekki skynsamlegt að stilla kostnaðinum í hóf og draga úr yfirborðskenndum fagnaði, ekki sízt vegna þeirrar ógæfu, sem jarðeldarnir í Heimaey hafa valdið þjóðinni?“