27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

165. mál, þjóðhátíð 1974

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir skýr og greinargóð svör. Ég hygg, að fram hafi komið öll þau meginatriði, sem máli skipta í þessu sambandi. Ég vil enn fremur taka fram, að mér sýnist ætlunin að halda vel og skynsamlega á öllum málum og það sé alveg rétt afstaða hjá hæstv. forsrh. að láta þingflokkum í té kostnaðaráætlanir í sambandi við þetta mál, og þá geta þingflokkarnir tekið endanlega afstöðu til þessara mála.

Ég sé ekki neina ástæðu til þess að fara að bollaleggja um þessi mál á þessu stigi málsins, af því að þetta er allt í athugun, og læt því þetta nægja að sinni. Ég vil þó ekki láta hjá líða að segja það sem skoðun mína, að hugmynd eins og sú að byggja eftirlíkingu af sögualdarbæ er ekki aðlaðandi. Varðandi þjóðhátíðarhaldið á Þingvöllum tel ég ekki mikinn ávinning að stefna öllu landsfólkinu á Þingvöll, því að ég hygg, að miklu fremur ætti hvert einstakt byggðarlag að standa að hátíðinni með ýmsum tilbrigðum og reyna þannig að gera þetta að verulegri einingu í byggðarlögunum, en ekki að einhverju stórmóti á Þingvöllum með öllum þeim vandræðum, sem slíku stefnumóti hlýtur að fylgja.