27.02.1973
Sameinað þing: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2166 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

115. mál, verðjöfnunarsjóður vöruflutninga

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég hlýt að fagna þessum tillöguflutningi. Hér er hreyft máli, sem ég hef oftar en einu sinni flutt hér á Alþ., og algerlega í samræmi við það, sem ég hef áður flutt þar um. Það hafa fleiri flutt till. um þessi mál á þingum að undanförnu, svo sem hv. þm. Björn Jónsson, og var síðasta till. hans um hliðstæð mál samþ. Ég er ekki alveg viss um það, að till. sjálf sé svo nauðsynleg, þó skal ég reyndar ekkert um það segja. Það liggur fyrir þingvilji í þessu máli með samþykkt þál. frá þingi 1970 um rannsóknir á vandamálum atvinnurekstrar úti á landsbyggðinni vegna kostnaðar við vöruflutninga, en sú ályktun var þannig, með leyfi hæstv. forseta.

Ed. Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta sem fyrst fara fram sérfræðilega rannsókn á þeim vanda, sem kostnaður vegna vöruflutninga skapar atvinnurekstri utan höfuðborgarsvæðisins, og hvernig helzt megi draga úr þeim vanda eða leysa hann:

Þetta var samþ. í Ed. 25. apríl 1970 eftir þeirri till., sem ég minntist á, sem hv. þm. Björn Jónsson flutti þar í deildinni.

Svo er samþ. hér á Alþ. 5. apríl 1971 önnur till., sem tekur til víðara sviðs um skipulag vöruflutninga og jöfnun flutningskostnaðar. Sú ályktun er þannig:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj, að láta fara fram athugun á vöruflutningum landsmanna og gera till. um bætta skipan þeirra. Stefna ber að því að gera flutningakerfið sem hagkvæmast og hraðvirkast án óhæfilegs tilkostnaðar. Leita skal leiða til jafnaðar á flutningskostnaði, svo að allir landsmenn sitji við sama borð í þeim efnum, eftir því sem við verður komið:

Þessi ályktun er gerð eftir till., sem ég og fleiri þm. fluttum á því þingi, nálega samhljóða till. að öðru leyti en því, að við lögðum til að kjósa 5 manna mþn. til þess að athuga málið, en ályktunin var um að fela ríkisstj. þessa athugun.

Ég sagði, að e. t. v. væri ekki bein þörf á tillöguflutningnum út af fyrir sig. En þó er það nú svo, — og þess vegna sagði ég e. t. v., — að þegar spurzt var fyrir um þetta mál á þingi fyrr í vetur og ráðh. gaf sín svör, þá þótti mér sem ekki hefði verið nægilega í það gengið að framkvæma þann þingvilja, sem fram kom í nefndum tveimur þál. Þess vegna er e. t. v., þrátt fyrir þennan ótvíræða vilja Alþ., ástæða til þess að árétta hann með flutningi og síðar samþykkt þeirrar till., sem hér liggur nú fyrir til umr.

Það er ástæða til sannarlega að fagna liðveizlu fjögurra hv. þm., þar af 2 úr hópi eldri og reyndari þm., við þetta málefni. Ég álít, að þeir hafi ekki alltaf verið a. m. k. nægilega vel á verði í þessu efni.

Þegar Íslendingar eignuðust millilandaskip á sínum tíma, voru teknar upp siglingar beint frá útlöndum á fjölmargar hafnir á landinu. Þetta stóð í allmörg ár. Mér og mínum jafnöldrum, sem bjuggum við sjávarsíðuna, er það vitanlega í barnsminni, þegar þessi ágætu skip komu inn á hafnir, smáar og stórar, hreint og beint eftir þörfum, færandi varninginn heim beinustu leið frá erlendum verzlunarfyrirtækjum. En þetta breyttist, og það hefur sjálfsagt verið erfitt að koma í veg fyrir það. Síðari heimsstyrjöldin hafði sín áhrif á breyttar ferðir frá útlöndum. Það var tekið að gera stærri innkaup en áður var og menn þóttust að sjálfsögðu ná út úr því meiri hagkvæmni í vöruverði. Þannig innleiddust hér breyttir verzlunarhættir, sem ég skal ekki ræða um, hvaða áhrif hafi haft á þjóðarhag í heild. En tvímælalaust höfðu þessar breytingar óhagkvæm áhrif á hag landsbyggðarinnar út af fyrir sig.

Hvernig var svo við þessum breytingum snúizt? Það er m. a. gert með því að efla skipakost Skipaútgerðar ríkisins, sem var orðinn mjög góður um eitt skeið, þótt snögglega breyttar aðstæður í flutningamálum gerðu það að verkum, að sú uppbygging varð ekki að öllu hagkvæm, þegar árin liðu. Það var hins vegar gert með því að taka upp svokölluð gegnumgangandi vörufarmgjöld. Hvað er það, sem felst í hugtakinu gegnumgangandi vörufarmgjöld? Það er m. a. þetta í fyrsta lagi: Vara, sem skráð er beint á hafnir, hvar sem er á landinu, þegar hún er afgreidd í skip erlendis, þá skyldi með hana fara með sama kostnaði hvert á land sem var, jafnvel þó að þyrfti að skipa henni upp hér í Reykjavík og senda hana síðan með strandferðarskipunum á hafnir úti á landi, á hverja einustu höfn, sem þessi skip kæmu á, skyldi hún flutt á sama verði. Í öðru lagi var svo það, að þegar um var að ræða stærri vörusendingar, þá höfðu skipafélögin samninga sín á milli, þannig að þótt vörunni væri skipt í Reykjavík, þá var flutningnum jafnað út og varan flutt á sama verði á hafnir víðs vegar um landið. Í þriðja lagi, og það sýnir, hvað menn vildu ganga langt í þessum efnum, að jafnvel þótt fóðurvöru væri blandað í Reykjavík, var hún einnig flutt út á land án aukakostnaðar hér.

Þessi gegnumgangandi farmgjöld giltu hér frá því um 1930 a. m. k. og fram á síðasta áratug. Þetta hafði þá í raun og veru enn þá meiri þýðingu en sama fyrirkomulag mundi hafa nú, vegna þess að þá var minni iðnaðarframleiðsla í landinu, sem flytja þurfi á milli hafna innanlands og tiltölulega meira innflutt af þeim vörum, sem menn almennt notuðu.

Í grg. hv. flm. með þessari till. segir m. a.: „Á sama tíma og samningar um kaup og kjör og verðlagsuppbætur á laun eru hin sömu hvar sem er á landinu, er tilgangur þessarar till. að gera jafnframt að veruleika það, sem svo margir hafa haft á orði á undanförnum áratugum, að jafna sem mest verð á vöru á þann veg, að það verði hið sama á öllum stöðum, sem vöruflutningaskip sigla til og flugvélar og vöruflutningabifreiðar halda uppi áætlunarferðum til. Slík jöfnun flutningskostnaðar er nauðsynlegur áfangi að því marki, að allir landsmenn sitji við sama borð í þessum efnum“, segja flm. þessara till. Þetta er hárrétt, og þetta er það, sem leitast var við að gera, svo langt sem það náði, með gegnumgangandi vörufarmgjöldunum, meðan þau voru við lýði. Menn sáu og viðurkenndu í verki að mjög verulegu leyti einmitt það, sem hv. flm. taka fram í sinni grg. Ég veit ekki, hvort menn hafa gert sér þetta ljóst þá. En það eru vissulega sterk rök, sem þarna koma fram, að á sama tíma og fólkinu er mælt sama kaup, sama gjald fyrir sína vinnu um allt land, verður að reyna að jafna aðstöðumun og þá m. a. þann, sem hér er um að ræða. Annars er ekki hugsanlegt, að byggð haldist til lengdar í hinum ýmsu landshlutum, ef þannig hallar á, á ótal sviðum. Það er hins vegar ofurlítið villandi, sem ég vitnaði áðan til, þar sem talað er um í grg. með till. að gera það að veruleika, sem svo margir hafa haft á orði á undanförnum áratugum. Ég er ekki að segja, að þetta sé rangt út af fyrir sig. En þetta er ofurlítið villandi. Að nokkru leyti var þetta framkvæmt, sem tillögumenn og við allir, sem fyrir þessum málstað höfðum barizt, t. d. hér á Alþ., stefnum að. Það er alls ekki svo, að það hafi verið óbreytt ástand á undanförnum áratugum í þessum efnum. Ég verð að segja það, að þetta skynsamlega kerfi, sem ég hef minnzt á, var ekki einasta skynsamlegt vegna þess, að það var réttlátt, og það, sem nálgast réttlæti, er auðvitað alltaf skynsamlegt um leið. En þetta var líka mjög hagstætt, á margan hátt. Þetta kerfi stuðlaði vissulega að aukinni notkun standferðaskipanna, og það stuðlaði aftur á móti að því að hlífa vegakerfinu, sem þá var enn veikara en það er nú. Ég held, að það fari ekki á milli mála, að okkur ber, eftir því sem hagkvæmi frekast leyfir, að hlífa vegakerfinu við þungaflutningum. Þetta voru hvort tveggja alls ekki svo lítil atriði. Alveg sérstaklega var það og er þýðingarmikið að nýta þennan skipakost, strandferðaskipin, því að hann verðum við að hafa. Þótt ekki sé vegna annars en þeirrar aðstöðu, sem hér skapast ævinlega á veturna, þegar engu farartæki er fært á landi, þá verðum við að hafa þennan skipakost, og þá hljótum við að vilja stuðla að því, að hann nýtist sem allra bezt.

En hvað varð svo um þetta kerfi, sem ég var að lýsa? Það er aðeins vikið að þessu í grg. með till. og að framvindu þessara mála á undanförnum áratugum. Þar segir: „Eins og samgöngum við strjálbýlið er nú háttað, fara þær fram loft-, sjó- og landleiðis. Engin raunhæf tilraun hefur þó verið gerð til samvinnu eða samræmdra aðgerða milli þessara þriggja þátta samgöngukerfisins, og af því hefur leitt, að flutningsgjöld eru orðin óbærilega há. Má í því sambandi benda á hærri byggingarkostnað í strjálbýli,“ segir hér enn í grg., og þá hnykkja flm, aftur á atriði, sem þeir minnast á fyrr, þ. e. sama kaup hvar sem er á landinu. Og þetta er dagsanna. Það hefur engin raunhæf tilrann verið gerð til þess að samræma þessa þætti samgöngumálanna. Eins og ég vék að áðan, þrátt fyrir að þetta hafi oft verið rætt hér á þingi og menn hafi verið hér með tillöguflutning um þetta, þá var ekkert raunhæft t þessu gert. En breytingin, sem verður við tilkomu flugsins kemur ákaflega ört og er mjög afgerandi, þannig að það eitt út af fyrir sig hlaut að kalla á það, að menn reyndu að koma einhverju samræmi á þessa hluti. En þetta var bara ekki gert á 12 ára tímabili viðreisnar. Það var hins vegar gert annað á þessum árum varðandi strandsiglingarnar, því að þær voru lamaðar. Það var ekkert gert til að greiða fyrir því hér í Reykjavík, þar sem var aðalflöskuhálsinn varðandi vöruflutningana, að þeir gætu farið fram með skikkanlegu móti. Og skipin voru seld, áður en önnur skip voru fengin í skarðið, þannig að þessi starfsemi fór meira og minna í rusl á síðustu 10–12 árunum, einmitt á þeim tíma, þegar mest lá á, vegna þess að flugið var orðið afgerandi þáttur. Þetta var ekki gert. En það er annað, sem er gert á þessum tíma, og vil ég nú enn vitna í grg. hv. flm., en þar segir: „Þannig var sú regla í gildi fyrir nokkrum árum, að skipafélög, sem fluttu vörur til landsins, voru skylduð til þess af hendi verðlagsyfirvalda að flytja tilteknar þungavörur til hafna úti um land án aukagjalds fyrir umhleðslu í Reykjavík og flutning þeirra frá Reykjavík til hafna úti um land. Árið 1968 ákváðu skipafélögin að skjóta sér undan þessari kvöð,“ segir í grg. En þetta er nú a. m. k. ófullkomin lýsing á því, sem þarna hefur gerzt. Ég er ekki svo sögufróður, að ég viti alveg, hvernig framhaldsfragtin varð til, en ég er alls ekki viss um, að hún hafi orðið til fyrir þvingun frá verðlagsyfirvöldum. En hitt veit ég, hvernig hún er afnumin, Það er gert í áföngum. Það er byrjað að takmarka þessa þjónustu árið 1962, síðan er næsta skrefið stigið 1965, og 1968 er framhaldsfragtin afnumin með öllu. Og núna hefur það komið í staðinn eins og hv. 1. flm. lýsti, að Eimskipafélagið flytur innfluttar vörur með sama gjaldi á tilteknar aðalhafnir, sem nú eru í öllum landsfjórðungum, og hins vegar þetta, að Skipadeild Sambandsins er með 50 tonna regluna. Og hvað sem fer út fyrir þennan ramma, þar verður landsbyggðin að greiða viðbótarkostnað að fullu, sem getur þýtt 50% viðbót á flutningskostnað vöru, sem flutt er frá útlöndum. Ég hef alveg ákveðin dæmi í huga um það.

Þetta er sú sorgarsaga, sem gerzt hefur, en flm. till. segja á óvenjulegan hátt með stuttri setningu þannig: „Árið 1968 ákváðu skipafélögin að skjóta sér undan þessari kvöð: Mér finnst full ástæða til þess að spyrja, þegar ég verð var við mikinn áhuga þessara ágætu manna, sem flytja þessa till., hvernig það gat skeð, að við misstum þennan rétt út úr höndunum á okkur smátt og smátt á þeim tíma, sem þessir ágætu þm., a. m. k. tveir þeirra voru hér á Alþ. og studdu ríkisstj. Hvernig getur það gerzt, að þessi réttindi eru látin ganga landsbyggðinni úr greipum á þennan hátt? Þetta er eiginlega merkilegt rannsóknarefni, og það er ekki hægt annað en rifja þetta upp. En þó finnst mér þetta vera algert aukaatriði í málinu, eins og komið er í dag. Meginatriðið er að snúa sér að umbótum á þessu sviði, og þess vegna vil ég fagna þeim skilningi, sem hv. flm. þessarar till. sýna nú á þessu máli, þeir hinir sömu sem a. m. k. létu það viðgangast, að sú verðjöfnun, sem fólst í gegnumgangandi fragtinni, var niður felld, þrátt fyrir að hún væri búin að gilda hér óslitið í meira en þrjá áratugi. Eftir þeim heimildum, sem ég hef, mun hún hafa gilt allt frá því 1930 og lítið breytzt fram að 1962.

Nú verðum við að stefna að því og ganga eftir því, að framkvæmdur verði sá þingvilji, sem áður hefur komið fram í samþykkt þeirra þál., sem ég greindi frá hérna áðan, bæði þál., sem samþ. var fyrir atbeina Björns Jónssonar o. fl. um sérstaka athugun vegna atvinnuveganna, og þeirrar almennu till., sem ég og fleiri fluttum og einnig var samþykkt sem ályktun Alþ. Till. sú, sem hér er til umr., hnykkir á þessu og greinir nokkru nánar einstök atriði heldur en gert hefur verið í þeim ályktunum, sem hér hafa verið afgreiddar áður. Nú vona ég það að vísu, að hæstv. samgrh. hafði að verki sínum mönnum, sem hann hefur sett til þess að skoða þessi mál, og að þeir vinni betur og meir en þeir hafa þegar gert. En hvað sem því líður, felli ég mig nú, alveg eins og 1970, þegar ég og fleiri lögðum hér fram till. þar um, miklu betur við það, að sett sé þingkjörin n, til þess að athuga þetta mál. Ég er enn þeirrar skoðunar, að með því náum við betur okkar tilgangi. Ég tel, að það séu meiri líkur til þess að í þingkjörinni n. komi fleiri stjórnarmið fram og að sjónarmið landshlutanna komi betur fram í þingkjörinni n. heldur en í n., sem skipuð er einhliða af stjórnarvöldum. Við höfum áður fengið slíkar n. í samgöngumálum. Það voru settar n. hér til þess að athuga um strandsiglingar fyrir nokkrum árum. Ég man t. d., að það átti enginn Austfirðingur sæti í þeirri n., en Austfirðirnir eru annar sá landshluti, sem mest á annars undir strandsiglingunum. Það voru fengnir til erlendir sérfræðingar, og það er auðvitað oft ágætt að fá þá, en út úr því komu m. a. svo furðulegar till. frá sjónarmiði Austfirðinga sem það að gera Djúpavog, sem er syðsta höfn næst Hornafirði, að umhleðslumiðstöð fyrir siglingar að Austurlandi. Ég felli mig sem sagt mjög vel við þá hugmynd, að nú verði sett þingkjörin nefnd.

Í till. fjórmenninganna koma fram nokkrar ábendingar, og mér virðist fljótt á litið, að þær séu allar skynsamlegar. Þeir leggja til, að stofnaður verði verðjöfnunarsjóður. Ég hef ekki trú á því, að gegnumgangandi vörufarmgjöld verði tekin upp aftur. Þar að auki, eins og ég vék að áðan, þá er það nú miklu meira, sem þarf að flytja frá þéttbýlissvæðum til dreifbýlisins og milli þéttbýliskjarna þannig að þótt þau væru tekin upp aftur, sem mér finnst ósennilegt að þætti aðgengilegt, þá ná þau ekki nema hluta af því, sem hér er stefnt að. Eins og hv. 1. flm. benti hér á, er þetta kerfi, verðjöfnunarsjóður, notað á öðrum vettvangi. Innlenda landbúnaðarframleiðslan er verðjöfnuð í flutningum. Það er ekki ætlazt til þess, að neytandi í Reykjavík borgi meira fyrir þá vöru, sem til hans er send norðan frá Akureyri, heldur en neytandinn á Akureyri gerir. Og þó að það sé kannske ekki eins auðvelt að koma á svona fyrirkomulagi varðandi almenna vöruflutninga og á þessum afmörkuðu sviðum, þá hef ég a. m. k. ekki komið auga á aðra aðferð líklegri til þess að ná þessu marki en einmitt þá, sem hv. tillögumenn stinga upp á. Þeir eru með aðra ábendingu um það, að verðjöfnunin skuli ná til allra viðkomustaða, sem áætlunar ferðir eru til á landi, á sjó og í lofti. Og þetta finnst mér líka skynsamlegt. Ég sé ekki, að við komumst lengra í þessu, og tel það þess vegna skynsamlegt að stefna að þessu marki. Þá er einnig vikið að því að gefa gætur að skipulagi vöruflutninga til landsins, hvort ekki yrði hægt að beina meir en nú er gert vöruflutningum á hafnir úti á landi fram hjá aðalhöfninni hér í Reykjavík. Það er sjálfsagt að mínum dómi að athuga þetta sem allra vandlegast. Hins vegar má búast við því, að menn reki sig á ýmsa erfiðleika, ef á að fara að gera stórbreytingar í þessu efni, vegna breyttrar tilhögunar í innflutningsverzlun frá því, sem var á þeim tíma, sem ég vék að áðan.

Ég skal ekki fjölyrða miklu meira um þetta. Mér finnst sem sagt, að hér beri jólin upp á páskana. Í málefnasamningi ríkisstj. er ákvæði um þetta atriði. Það hafa verið samþ. hér á Alþ. tvær ályktanir um þetta. Það er byrjað að vinna að málinu eftir þeim upplýsingum, sem hæstv. samgrh. gaf hér í haust, þó að flm., mér og vafalaust fleirum sýnist ekki gengið nógu rösklega að verki. Og loks koma svo hv. flm. till. og leggja fram sinn skerf. Ég held að hæstv. ríkisstj., og hæstv. samgrh. sérstaklega, hljóti að taka þessum tillöguflutningi afar vel. Ég sé ekki annað en sá áhugi, sem þessir hv. þm., sem flytja þessa tilt. núna, sýna þessu máli, verki eins og vorregn á nýplægða jörð, sem lengi hefur verið í vanhirðu, en byrjað er að vinna og raunar búið að sá í, og ég vænti þess, að þessum stuðningi verði tekið með þökkum.

Það er ekki hægt að neita því, að það er sama, hver er í stjórn nú og hverjir hafa farið með stjórn áður, við getum orðið sammála um það, að við höfum ekki enn þá sett upp ákveðna og heillega stefnu í byggðajafnvægismálunum. Ég held, að við verðum að kannast við það. Menn hafa verið að vinna að þessu á undanförnum árum, og það er reynt enn, en þetta hefur ekki tekizt. Það er eins og menn verði oft feimnir, þegar kemur að fjármagnsþættinum, þegar kemur að því að flytja fé þaðan, sem það fyrst og fremst safnast fyrir, og þangað, sem þess er þó ekki síður þörf, ef landið á allt að verða byggt og skila þeim arði eftir atvinnurekstur okkar, sem þeir geta gert. En þetta verður aldrei gert með neinum vettlingatökum. Það verður, eins og einhver orðaði það, einhvern tíma að taka peningana með valdi og færa þá þangað, sem þeir þurfa að vera, til þess að allur þjóðarlíkaminn fái þrifizt og atvinnuvegirnir geti skilað eðlilegum hagnaði. Menn gera sér tæplega grein fyrir hinum ýmsu kvíslum peningastraumsins frá strjálbýlinu og suður í þéttbýlið. Það er t. d. ekki lítið fjármagn, sem strjálbýlið leggur fram í uppeldi þess fólks, sem svo flyzt hingað, og til þess að kosta menntun þess að nokkru leyti. Það er ekki heldur nein smákvísl, sem rennur hingað suður í þéttbýlissvæðið í gegnum húsakaupin. Þeir eru ófáir úti á landi, sem sjá þann kost vænstan til þess að ávaxta fé sitt á tryggilegan hátt að festa það í steinsteypu hér í Reykjavík. Og þá er hún ekki lítil, sú kvíslin, sem rennur hingað suður — og á auðvitað skylt við húsakaupin, — þegar aldrað fólk úti á landi tekur sig upp, selur eignir sínar og flytur suður með fjármunina. Hvað ætli það séu t. d. margir bændur í sveit, sem alla sína ævi eru — og verða í enn stærri mæli í framtíðinni, eftir því sem jarðir hækka í verði, að borga af jörðinni sinni til hins burtflutta. Þannig er þessi straumur í mörgum kvíslum, og þess vegna er ómögulegt annað, ef á að vera eitthvað raunhæft í þessu máli, en að þora að taka á hlutunum líka á því sviði, sem kemur til hinna stærri aðgerða á fjármálasviðinu. En þessi till. er út af fyrir sig ekki um mörkun heildarstefnu. Hún fjallar hins vegar um þátt, sem er mjög þýðingarmikill og miklu þýðingarmeiri en menn oft og einatt láta í veðri vaka og vilja viðurkenna.