27.02.1973
Sameinað þing: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

115. mál, verðjöfnunarsjóður vöruflutninga

Pétur Pétursson:

Herra forseti: Aðeins örfá orð í sambandi við þessa till. — Ég vil fyrst segja það, að mér finnst hún mjög athyglisverð, og styð hana fullkomlega. Mér finnst hér vera um að ræða réttlætismál, og ég skal engan veginn blanda mér í það, hvað eða hverjir hafi unnið að þessu áður. Mér fannst bara gæta í orðum hv. síðasta ræðumanns hálfgerðrar — ja, ég veit ekki, hvort það ætti að kalla það öfundar yfir því, að það skyldi vera búið að taka þetta mál upp að nýju. Undarlegt er það, þar sem alveg sérstaklega er margundirstrikað í kverinu góða, að nú skuli jafnvægi í byggð landsins eflt og nú skuli ekkert láta ógert til að efla þetta jafnvægi.

Nú er það staðreynd, að ýmsar vörutegundir í landinu eru seldar á sama verði um allt land, og það á sér þegar stað umtalsverð verðjöfnun á vörutegundum um allt landið. Ég held, að það spor, sem hér yrði stigið, sé einmitt gífurlega mikið í þá átt að efla þetta réttlæti og gera að veruleika þá drauma, sem margir ala í brjósti, sem úti um landið búa, að það sé nokkurn veginn eins gott að vera þar og hér á þéttbýliskjörnunum. Þetta er mál, sem verður bókstaflega að taka föstum tökum, ef byggð á að haldast sæmilega sterk úti um landsbyggðina. Um þetta hafa mörg falleg orð verið sögð og ekki hvað sízt af núv. hv. stjórnarþingmönnum, og nú er bezt, þegar stjórnarandstaðan fer að ýta við þeim í vissum málum, að sjá, hver viðbrögðin verða. Ég á von á því, að nú verði brugðið snögglega við.

Ég held hins vegar, að þetta sé nokkuð flókið mál og erfitt í framkvæmd. Ég held, að þetta sé nokkuð stórt í sniðum. En þeir snillingar, sem settir yrðu í n. eftir þessari till., mundu væntanlega reyna að finna út hvernig haganlegast væri að koma þessu fyrir. Í fljótu bragði a. m. k. þykist ég sjá marga erfiðleika á leiðinni við að koma þessu í land. Vitaskuld eru líka flutningar utan af landsbyggðinni og hingað til Reykjavíkur, sem þyrftu að koma inn í þetta að einhverju leyti, og margt og margt fleira, sem auðvitað hefur ekki verið athugað enn þá. En málið sem heild, að reyna að gera vörurnar í landinu álíka dýrar, hvar sem þær eru keyptar, er áreiðanlega réttlætismál og með stærri málum til þess að efna eitthvað af því, sem stendur í loforðasamningnum um aukið jafnvægi í byggð landsins.