27.02.1973
Sameinað þing: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2175 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

115. mál, verðjöfnunarsjóður vöruflutninga

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég skal reyna að verða mjög stuttorður. Hv. síðasti ræðumaður, 7. landsk. þm., sá ástæðu til þess að taka fram, að hann tryði enn þá á núv. ríkisstj. Mér þykir vænt um það, því að það eru svo margir aðrir að missa trúna á ríkisstj. og farnir að afneita henni. En þetta er saklaus og elskulegur maður, eins og allir vita, sem þekkja hann, og einlægur í sinni trú, og ég er reglulega ánægður með, að hann skuli halda tryggð við blessaða ríkisstj. En hitt líkaði mér ekki eins vel, sem hann sagði, að hann saknaði ekki nema bara samgrh., og leit hérna á stólinn hans. En ég sé ekki annað en þeir séu allir stólarnir 7 auðir en veit ekki, hvar blessuð ríkisstj. er. Það var venja hjá ríkisstj., sem var á undan, að það sæti alltaf eftir fulltrúi fyrir hana, þegar voru fundir í Sþ. En nú er brugðið út af þessum vana, og ég sé ekki, að ríkisstj. hafi sérstaklegan eða lofsverðan áhuga fyrir málefnum strjálbýlisins. — En nú er að koma einn, einn af 7, hann er þó kominn í lokin, og ég fagna því, að einn fulltrúi ríkisstj. skuli þó vera kominn, þó að hv. 7. landsk. þm. hafi ekki séð, að það vantaði nema einn ráðh., hara samgrh.

Ræða hv. 5. þm. Austf. kom mér nokkuð á óvart. Hún var mjög jákvæð í sambandi við efnishlið þessa máls, en það vottaði alloft fyrir geðvonzku í ræðunni hjá þessum þó geðgóða og dagfarsgóða þm. En ég ætla að segja honum það, að það er ekki mín sök eða flm. þessa máls, þó að ekkert hafi verið gert til þess að framkvæma þá till., sem þessi hv. þm. flutti á síðasta kjötímabili og fékk samþ. hér á hv. Alþ. 5. apríl 1971. Mér finnst ekki ástæða til þess að beina til okkar einhverri óánægju og allt að því skætingi, þó að þetta hafi ekki verið gert. En hitt er svo annað mál, að ég auðvitað gerði hlut, sem ég hefði kannske átt að spyrja þennan ágæta hv. þm. um, hvort mér væri leyfilegt að spyrja um það á Alþ., hvernig hafi gengið framkvæmd þeirrar þáltill., sem samþ. var og hann var 1. flm. að. En mér láðist alveg að gera það. En ef það er á bak við, þá þykir mér leitt, að ég skuli ekki hafa spurt hann fyrst, af því að ég vil á engan hátt styggja þennan ágæta vin minn.

Hitt er svo annað mál, að þrátt fyrir barnatrú hv. 7. landsk. þm. á ríkisstj., liggur sú staðreynd fyrir, að sá ráðh., sem með þessi mál fer hæstv. samgrh., sem ekki sést hér, hafði ekkert gert, og till. hv. 5. þm. Austf. var mun ógleggri en sú till., sem hér liggur fyrir. Að vísu var það matsatriði, hvort Alþ. ætti að kjósa n. eða ríkisstj. ætti að láta kanna þessi mál. Það tel ég ekki vera neitt sérstakt atriði í raun og veru. En ég tel það vera orðið töluvert atriði úr þessu, fyrst það var ekki gert samkv. till., sem samþ. var. Sú till. var aðeins um að láta fara fram athugun á vöruflutningum landsmanna og gera till. um bætta skipan þeirra til jöfnunar á flutningskostnaði, eftir því sem við yrði komið. Það var ekki fastara að orði komizt í þeirri till. Og ég held, að það sé rétt munað hjá mér, að það var engu breytt í þeirri till. frá því, að hún var lögð fram, nema í stað þess að kjósa mþn. til þess að athuga það, var ríkisstj. falið það. En í þessari till. okkar er gert ráð fyrir því alveg skýrt og skorinort að fela n. að semja frv. til l. um stofnun verðjöfnunarsjóðs vöruflutninga, sem hafi þann tilgang, að verð á allri vöru verði það sama á öllum stöðum, sem vöruflutningaskip sigla til og flugvélar og vöruflutningabifreiðar halda uppi áætlunarferðum til, og enn fremur að kanna, hvernig ástatt er með vöruflutninga alla, og gera till. um bætt skipulag þeirra.

Hv. 5. þm. Austf. sagði, að það hefði aldrei verið gert neitt til þess að samræma skipulag samgangna. Ég vil þó minna á, að ég hygg, að það hafi verið á Alþ. 1956, að samþ. var till. um kosningu 5 manna n. til að samræma skipulag samgangna. Þessi n. skilaði störfum og skilaði mjög ítarlegu nál., og það vill svo til, að tveir af nm. í þessari mþn. eiga sæti hér á Alþ. nú, þ. e. hv. 3. þm. Austf., Páll Þorsteinsson, og ég. Með þessu nál. sömdum við frv. um bætt skipulag vöruflutninga og fólksflutninga í landinu, og það frv. var lagt fram, að mig minnir, á Alþ. 1960 og dagaði uppi. Það virðist enginn af þeim þm., sem þá sátu á þingi, hafa haft áhuga á því að flytja þetta mál aftur. Ég tel, að ef það frv. hefði verið lögfest, væri margt öðruvísi og margt einfaldara og betra í samgöngumálum en nú er. Það má segja, að rétt sé, að enginn árangur hefur náðst. En þessi tilraun var gerð, en náði ekki lengra en þetta, því miður.

Hv. 5. þm. Austf. spurði, hvernig það hafi skeð, að landsbyggðin missti þennan rétt, þegar skipafélögin breyttu flutningsreglum sínum. Þessar flutningsreglur voru ekkert bundnar að lögum, hað veit þessi hv. þm., en það varð afar mikill hvellur út af þessari breytingu, sem varð þó til þess, að sérstaklega Eimskipafélagið guggnaði að nokkru leyti á því, sem félögin ætluðu að gera. Það eru fleiri en eitt skipafélag, og mér er ekki grunlaust um, a. m. k. hef ég oft heyrt það, að framsóknarmenn segjast hafa mikil áhrif í Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, og ég veit, að það er alveg rétt. Ég spyr: Af hverju var þá ekki beitt áhrifum þar, til þess að Skipadeild S. Í. S. drægi ekki úr þessari þjónustu, fyrst Eimskipafélag Íslands gerði það? Hvers vegna þurfti það að fylgjast að?

Sami hv. þm. sagði, að hann hefði orðið var við það á undanförnum árum, — þá hlýtur hann fyrst og fremst að hafa átt við okkur, sem erum búnir að vera þó nokkur ár á þingi, mig og hv. 3. þm. Sunnl., hinir tveir flm. eru búnir að vera hér tiltölulegan skamman tíma, — að hann hefði orðið var við það, að þessir þm. hefðu ekki verið nægilega á verði í þeim efnum að vernda og vinna Fyrir rétt strjábýlisins. Ég skal fúslega játa, að ég hefði gjarnan vilja koma meiru fram fyrir strjálbýlið en raun ber vitni. Og ég skal líka játa það, að ég hef kannske ekki verið nógu harður eða ákveðinn að koma mínu fram. En ég tel þó sjálfur, að ég hafi aldrei svikið mál strjálbýlisins og vilji minn hafi alltaf verið að vinna því til hagsbóta. Og ég vona það varðandi mál, sem ég hef flutt eða lýst stuðningi við, að ég hafi ekki seinna snúizt öndverður gegn. Ég bið þá þennan hv. þm. að minna mig á, hvenær það hafi komið fyrir. En ég minnist aftur þess, að 1969 fluttu 6 þm. Framsfl. frv. til laga um byggðajafnvægistofnun ríkisins og ráðstafanir til að stuðla að verndun og eflingu landsbyggðar og koma í veg fyrir eyðingu lífvænlegra byggða, og meðal flm. var þessi hv. þm. Í 9. gr. þess frv., í l. lið, segir, að tekjur byggðajafnvægissjóðs séu 2% af árlegum tekjum ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi, í fyrsta sinn af tekjum ársins 1971, sem greiðist sjóðnum í byrjun hvers mánaðar af innheimtum tekjum næsta mánaðar á undan, í fyrsta sinn í byrjun febrúarmánaðar 1971. Þetta frv. náði ekki fram að ganga. Kannske var ég einn af þeim, sem voru linir að koma á byggðajafnvægisstofnuninni. Ég var kannske ekki alveg á því að stofna algerlega þessa stofnun. Hins vegar hef ég verið á því, að þjóðfélagið eigi að auka framlög til byggðamála, og þegar frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins var lagt fram og kom fyrir fjhn., leyfði ég mér að flytja þessa till. um tekjur til byggðasjóðs, nákvæmlega eins og þetta var orðað í frv. þessa hv. þm., að öðru leyti en því, að það var auðvitað miðað í fyrsta sinn við byrjun febrúarmánaðar 1972. En hvað skeði þá? Þá snerust þessir hv. þm. allir, nema Gísli Guðmundsson, sem sat hjá, hinir, sem þá voru hér á þingi, snerust gegn þessu hugsjónamáli sínu og drápu það. Þetta finnst mér vera miklu verra. Ef slíkt hefur komið fyrir mig, sem ég veit ekki til, þá treysti ég þessum hv. þm. til að minna mig á það, og þá ætla ég að muna rækilega eftir að láta slíkt ekki koma fyrir aftur. En ég veit ekki til þess, að það hafi komið fyrir mig að drepa mín eigin hugsjónamál.