27.02.1973
Sameinað þing: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2177 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

115. mál, verðjöfnunarsjóður vöruflutninga

Lárus Jónason:

Herra forseti. Hér er um athyglisverða till. að ræða, og hafa farið fram fróðlegar umr. um þetta mál, sem hér er á dagskrá. Þetta gæfi kannske tilefni til að ræða landsbyggðamálin að verulegu leyti í heild, en það gefast miklu fleiri tækifæri til þess en hér, og það er orðið áliðið fundar, þannig að ég ætla ekki að gera það.

Það voru einkum tvö atriði í ræðu hv. 5. þm. Austf., sem fengu mig til að kveðja mér hér hljóðs. Hann ræddi af miklu raunsæi, að mér fannst, sumar hliðar skipulags verzlunarinnar, hvernig það hefði breytzt í landinu, og skipulag vöruflutninga. Og hann rakti ýmsar ástæður fyrir þessu, m. a. hvað hefði breytzt, þegar styrjöldin skall yfir, og komið í kjölfar hennar. En það er eitt mikilsvert atriði, — ákaflega mikilsvert atriði, — sem hv. þm. gleymdi í sambandi við þetta, sem ég tel vera ákaflega veigamikla ástæðu fyrir þeirri breytingu, sem á er orðin, og það er sú haftastefna, sem var rekin hér á árunum eftir styrjöldina, þegar hver maður þurfti að fara hingað til Reykjavíkur og fá leyfi fyrir hverri einustu vöru, sem hann ætlaði að flytja inn í landið. Þetta voru það þungar búsifjar fyrir verzlunina í landinu, fyrir utan það, að samvinnuverzlunin efldi á sama tíma mjög heildverzlun sína hér í Reykjavík. Það má vel vera, að það hafi verið hagkvæmt fyrir hana, en hins vegar voru þetta mjög verulegar ástæður fyrir þeim breytingum, sem urðu á verzlunarháttum og þar með á skipulagi innflutnings í landinu. Þessum þáttum gleymdi hv. þm., og ég vildi gjarnan minna á þá í sambandi við þetta mál.

Svo var annað, sem kom mér svolítið á óvart í málflutningi hans, og það var, að hann taldi, að það væri rétt og skylt að leggja til, að þingkjörin nefnd kannaði þetta mál og gengi frá því. Þetta yrði til þess, að sjónarmið landsbyggðarinnar kæmu gleggra fram heldur en ef embættismenn fjölluðu þarna um. Þá minnist ég þess, að á síðasta þingi flutti ég till. um veigamikinn þátt byggðamálanna og lagði til, að þingkjörin nefnd fjallaði þar um, 5 manna nefnd, en það var að athuga um staðarval opinberra stofnana í landinu. Við þekkjum það frá undangengnum þingum, og það hafa orðið miklar umr. um þau mál, en þeim mun minna hefur verið í þeim framkvæmt. Ríkisstj. gerði það í málinu, að nokkru eftir að ég hafði lagt fram þessa till., að Alþ. kysi nefnd í þetta mál, skipaði hún embættismannanefnd í þetta, sem hefur ekki heyrzt í stuna eða hósti síðan. Síðan koma vonandi einhvern tíma till. frá þessari ágætu stjórnskipuðu nefnd embættismanna. Þá á Alþ. eftir að fjalla um þessar till., og við vitum, að margt af þessu eru viðkvæm mál og þm. hafa á þessu skiptar skoðanir, þannig að mér er til efs, að þessi vinnubrögð, sem ekki virtust vera til neins fallin annars en að geta vísað till. minni frá, — mér er til efs, að þessi vinnubrögð verði landsbyggðinni til góðs.

Ég vildi aðeins minna á þetta tvennt í sambandi við ræðu hv. þm. Ég vil ekki fara frekar út í önnur atriði, sem varða byggðamálin, að þessu sinni, til þess gefast tækifæri síðar.