27.02.1973
Sameinað þing: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2179 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

115. mál, verðjöfnunarsjóður vöruflutninga

Alexander Stefánsson:

Herra forseti: Ég vil taka undir það, sem hv. 2. landsk. þm., Pétur Pétursson, sagði hér áðan, að það er nauðsynlegt að taka svona mál föstum tökum. Ég vil þó rifja upp, eins og hér hefur raunar komið fram áður, að þessi mál sem önnur og ekki sízt sá þáttur, sem þessi till. fjallar um, hafa vissulega þróazt í öfuga átt gagnvart landsbyggðinni á s. l. áratug eða áratugum, sérstaklega undir viðreisnarstjórn, og þar hefði hv. 2. landsk. þm. átt að hafa heimatökin til að koma á vissum lagfæringum. Ég vil taka undir það, sem hann sagði hér áðan, að þetta er viðamikið mál, og verður sjálfsagt erfitt að koma þeirri skipan á, sem æskilegust væri.

Ég átti sæti í nefnd, sem fjallaði um gjaldskrár hafna á Íslandi. Við söfnuðum upplýsingum um mismunandi aðstæður, hafnagjöld í landinu almennt, og eitt það örðugasta, sem við var að fást í sambandi við þessi mál, var að reyna að koma á jöfnuði í sambandi við samræmda gjaldskrá fyrir hafnir á Íslandi. Það, sem er að, er einmitt þessi mismunur eða réttara sagt þetta ástand. Eins og allir vita, fer meiri hluti af öllum vörum, sem fluttar eru til landsins, í gegnum eina höfn, þ. e. a. s. Reykjavíkurhöfn.

Þetta er í mörgum tilfellum tvísköttun fyrir landsbyggðina, sem erfitt er að komast fram hjá, og það er erfitt að fá þá aðila, sem hér eiga hlut að máli, til að skilja þetta mál. Sú hugmynd kom fram við þessa endurskoðun, og það væri rétt í sambandi við að styrkja stöðu hafna í landinu að láta hafnagjald af olíu og benzíni, sem flutt er til landsins, ekki renna til Reykjavíkurhafnar eða Hafnarfjarðarhafnar, eins og nú er, heldur renna í sérstakan verðjöfnunarsjóð eða þá beint í hafnabótasjóð og yrði notað til styrktar höfnum úti um landsbyggðina. Þetta mál var talið mjög mikil fjarstæða, að láta sér detta þetta í bug, og allt, sem lýtur að því að jafna þennan mismun, hefur verið talið erfitt í framkvæmd. Ég er því hræddur um, að svo verði einnig í sambandi við þetta mál.

Ég vil lýsa því yfir, að ég er því fyllilega sammála, að þessi tilraun sé gerð, og vil vekja athygli þm. á því, að einmitt í sambandi við þessi mál hafa nú komið upp ný viðhorf í landinu í sambandi við málefni dreifbýlisins almennt. Áhugi manna hefur á undanförnum árum farið stöðugt vaxandi á því að styrkja stöðu dreifbýlisins, og er það vissulega vel. Ég tel, að stofnun landshlutasamtaka sveitarfélaga, sem nú er orðin að veruleika í öllum landshlutum, sé har merkur þáttur. Tel ég, að einmitt þetta mál, sem hér er til umræðu, og mörg önnur, sem snerta hagsmuni dreifbýlisins, eigi einmitt þar heima og eigi nú vaxandi fylgi að fagna og megi vænta þess, að með stofnun landshlutasamtakanna verði hægt að samræma kraftana betur til að vinna að þessum málum, sem koma dreifbýlinu að sem mestum notum. Ég vil minna á í sambandi við þetta mál, sem er hér til umr., að á síðasta ársfundi Fjórðungssambands Vestfjarða var þetta mál eitt af stærri málum, sem þar voru tekin til meðferðar, og ég efast ekki um, að landshlutasamtökin í landinu eru bezti vettvangurinn til þess að samræma skoðanir manna til þess að ná árangri á þessum sviðum sem öðrum. Ég vil vænta þess, að hv. flm. og yfirleitt þm, almennt fari að hugsa meira raunhæft um þessi mál en verið hefur til þessa.