27.02.1973
Sameinað þing: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2180 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

20. mál, vistheimili fyrir vangefna

Frsm. Björn Fr. Björnsson) :

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er á dagskrá hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því í samráði við Styrktarfélag vangefinna, að komið verði upp vistheimilum fyrir vangefna í þeim landshlutum, þar sem slík heimili eru ekki til nú.“

Á síðari árum hefur mjög vaxið skilningur á málefnum vangefinna. Hefur þar lagzt á eitt: almenningsálitið, sem telur, að þessi hópur innan samfélagsins eigi að njóta hinnar ríkustu samúðar og allrar þeirrar þjóðfélagsaðstoðar, sem á hverjum tíma er unnt að veita. Aukin menntun á hinum mörgu sviðum hjálparstarfsins á vegum vangefinna hefur auðveldað margs konar framfarir, bæði hvað snertir skilyrði til aukins þroska upphaflega takmarkaðra hæfileika og eins til bættrar ytri aðstöðu. Þá mun framúrskarandi myndarlegt starf Styrktarfélags vangefinna og sleitulaus barátta þess fyrir málefnum vangefinna hafa átt sinn ríka hlut að því, hversu miðað hefur fram. Margs konar annar félagsskapur svo og fórnfúsir einstaklingar hafa komið hér löngum vel til liðs. Þess ber að geta, að höfuðstofnunin í þessum efnum er í Kópavogi. Þá eru og fjögur vistheimili í landinu: að Skálatúni, Sólheimum, Tjaldanesi og á Akureyri, og auk þess eru tvö dagvistarheimili í Reykjavík á vegum Styrktarfélagsins. Þannig hefur verið unnið að markvisst og árangur lofsverður. En þó að margt hafi verið að gert og vel hafi miðað, er hitt vafalítið, að þörf er að herða enn á. Hér ber hinu opinbera eða ríkinu að beita sér af alefli og hafa sem mest samráð við þann fjölda áhugamanna og þann félagsskap, sem lengst af hefur veitt málefnum vangefinna það brautargengi, sem úr hefur skorið.

Í grg. fyrir þáltill. segir m. a. með leyfi hæstv. forseta:

„Þó vekur það athygli, að í tveimur landshlutum eru engar slíkar stofnanir til, á Vestfjörðum og á Austurlandi. Enginn efar þó, að þar er einnig fólk, sem eins og annars staðar þarf að eiga þess kost að njóta heimilisvistar af þessu tagi. Það er að vísu rétt að benda á það, að talið er, að til þess að kleift sé að stofnsetja slíkt heimili þurfi ákveðinn fjölda vistfólks, og eins hitt, að rétt er einnig að hafa í huga, að það dugir lítt að koma á fót stofnun sem þessari, ef ekki fást til hennar starfskraftar, sem hlotið hafa nægilega kunnáttu í þessum efnum. Um fyrrnefnda atriðið er það að segja, að því miður mun sú mótbára ekki vera fyrir hendi, að vistfólk muni skorta. Að hinu ber jafnframt að vinna, að sem bezt verði að stofnuninni búið á hverjum stað, ekki sízt með því að fá þangað gott starfslið, sem reyndar er frumskilyrði:

Í umsögn, sem nefndinni hefur borizt frá Styrktarfélagi vangefinna, segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnin mælir með samþykkt þessarar till., að því tilskildu, að undan fari rannsókn um þörf fyrir slíkt hæli í þessum landshlutum, þannig að víst sé, áður en lagt er í kostnaðarsamar byggingar, að nægur fjöldi vistmanna sé fyrir hendi til að mynda eðlilega og hæfilega rekstrareiningu.“

Þá hefur enn fremur borizt umsögn frá landlækni, og vil ég leyfa mér að lesa lítils háttar upp úr þeirri umsögn. Þar segir m. a.:

„Fyrir því er nú fengin nóg reynsla, að meðferð á vangefnum börnum getur ráðið úrslitum um það, hvort takmarkaðir hæfileikar þeirra nái að þroskast að því marki, að þau geti orðið nýtir þjóðfélagsþegnar, eða hvort þau verða ósjálfbjarga ævilangt. Fyrstu þroskaskilyrði er aðeins hægt að veita þessum börnum með því að beita við uppeldi þeirra vísindalegri þekkingu í sálarfræði, læknisfræði og ýmsum fleiri greinum. Þess vegna eru nú gerðar til stofnana, sem þeim eru ætlaðar, eftirtaldar kröfur m. a.: Þær verða að hafa á að skipa sérmenntuðu starfsliði, svo sem sérmenntuðu gæzlufólki, sérmenntuðum kennurum, félagsráðgjöfum, hjúkrunarkonum, læknum og sálfræðingum. Þetta sérmenntaða starfslið á að vinna hópstarf á skipulegan hátt, en jafnframt á hvert barn að njóta persónulegrar umönnunar. Stofnanirnar verða að ráða yfir möguleikum til fjölþætts náms og starfs, bæði til munns og handa, svo að hvert barn geti átt kost á verkefni við sitt hæfi. Þessum kröfum verður af fjárhagsástæðum aðeins fullnægt á stórum stofnunum, sem þá er skipt í litlar deildir til þess að firra þær ókostum þeim, sem annars eru á stórum stofnunum. Sökum mannfæðar er ekki til þess að hugsa að halda uppi nema einni slíkri stofnun hér á landi, og er Kópavogshæli vísir að henni. En ekkert þarf þó að vera því til fyrirstöðu að reka sem útibú frá aðalstofnuninni smærri stofnanir, sem hver um sig hefði tiltekið, afmarkað hlutverk, enda nytu börn á þeim stofnunum, svo sem framast væri unnt og við ætti, sérfræðilegrar þjónustu starfsliðs frá aðalstofnuninni til jafns við börn á henni sjálfri:

Með hliðsjón af umsögnum og að öðru leyti til þess, að rækileg könnun færi fram á margs konar aðstöðu við framhaldsaðgerðir í vistheimilismálum vangefinna, þótti allshn, rétt að færa þáltill. á þskj. 20 á nokkru víðara svið. Þannig verði kannað, hver sé fjöldi vangefinna í landinu, og skipting þeirra eftir landshlutum, enn fremur kannað, hver sé aðstaða til sérhæfingar fyrir það fólk, sem þjónustustörf annast á vistheimilum, þ. á m. nauðsynlega kennslu. N. hefur því einróma lagt til, að tillgr. á þskj. 20 orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj.: 1) Að kanna tölu vangefinna í landinu og skiptingu þeirra eftir landshlutum. 2) Að kanna aðstöðu til sérhæfingar fyrir það fólk, sem tekst á hendur þjónustustörf á vistheimilum fyrir vangefna, h. á m. kennslu. 3) Að beita sér fyrir því í samráði við Styrktarfélag vangefinna, að komið verði upp vistheimilum fyrir vangefna, þar sem þeirra verður talin þörf.“

Það verður að segja eins og er, að að vissu leyti leggur landlæknir gegn því, að sérstakar stofnanir fyrir vangefna eða vistheimili verði sett á stofn, þar sem þær eru ekki fyrir núna, vegna þess að þær einingar, sem um kann að vera að ræða, séu svo smáar, að ekki komi til álita annað en að á slíkum stöðum, ef til kæmi, verði útibú frá svokallaðri aðalstofnun, þ. e. a. s. Kópavogshælinu. Nú er í raun og veru ekki vitað, hversu háttar í því efni, er varðar fjölda þeirra barna, unglinga eða eldri, sem þyrftu á hjálp að halda í þessu efni. Þess vegna hefur n. lagt til, að rannsókn fari fram á þessum atriðum. Og það er ekki endilega víst, að ekki geti skapazt sú aðstaða eða að það megi ekki skapa þá aðstöðu, að fullkomið vistheimili geti risið upp á stöðum, þar sem þau eru ekki fyrir hendi og þeirra er þörf. Allt er þetta rannsóknarefni, og n. hefur því lagt til og nm, leggja kapp á það, að slík rannsókn fari fram, ekki sízt vegna þess, að hingað til hefur ekki verið í raun og veru neitt sérlegt gert fyrir þá landshluta, sem kynnu að hafa fyllstu þörf fyrir, að slíkum stofnunum yrði þar komið upp. Svo kemur það í ljós við nánari rannsókn málsins, hvort hægt er eða rétt er að reisa vistheimili á þeim stöðum t. d. sem getið er um í grg., þ. e. á Austurlandi og á Vestfjörðum.