28.02.1973
Neðri deild: 58. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2188 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

154. mál, ríkisreikningurinn 1970

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti Ríkisreikningurinn fyrir árið 1970 er hér til 1. umr. á hv. Alþ. í dag. Frv. til samþykktar á ríkisreikningi var lagt fram á síðasta þingi, en kom ekki til afgreiðslu þá og er því endurflutt nú. Reikningurinn var afhentur þm. í okt. 1971 fyrir 1. umr. á Alþ. um fjárlagafrv. árið 1972. Reikningurinn hafði þá verið afhentur yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings til meðferðar. Þeir luku starfi sínu 2. maí á s l. voru, og var reikningurinn þá lagður fram til meðferðar Alþ., eins og áður segir. Vegna þess dráttar á afgreiðslu reikningsins þykir hér rétt að vekja athygli á nokkrum atriðum við frágang ríkisreiknings almennt.

Með l. nr. 52 frá 1966 voru gerðar allmiklar breytingar á framsetningu ríkisreiknings og fjárl., er fólu m. a. í sér, að reikningnum var ætlað að gefa yfirlit yfir mun fleiri þætti ríkisfjármála en áður og sýna reikninga allra ríkisstofnana, fyrirtækja og sjóða ríkisins, annarra en banka og lánastofnana. Hin nýja framsetning hófst með gerð ríkisreiknings fyrir árið 1968, og frá því hefur reikningurinn verið lagður fram á Alþ. við 1. umr. fjárl. hins næsta árs án aths. yfirskoðunarmanna, er lokið hafa sínu starfi nokkru eftir áramót, og reikningurinn þá verið lagður fyrir Alþ. til afgreiðslu.

Nauðsynlegt er að gera ráðstafanir til að hraða meira allri meðferð ríkisreikningsins, og þarf ríkisbókhaldið að ljúka frágangi ríkisreikningsins til Alþ. og yfirskoðunarmanna eigi síðar en í apríl eða maí eftir lok reikningsárs, þannig að yfirskoðunarmenn ríkisreikningsins, sem kjörnir eru af Alþ., geti afgreitt sínar aths. og úrskurði að hausti og Alþ. tekið afstöðu til reikningsins, áður en fjárlög fyrir næsta ár koma til meðferðar þess, og reikningurinn geti þar með orðið meiri stuðningur við fjárlagaafgreiðsluna en hingað til. Reikningsuppgjörið hefur stefnt í þessa átt, og er vonazt til þess, að unnt verði að leggja A-hluta reiknings fyrir árið 1972 fram á Alþ. nú í vor og B-hluta reikningsins í haust í þingbyrjun. Seinagangur í ársuppgjöri mjög marga ríkisaðila, bæði þeirra, sem tilheyra A- og B-hluta, hafa valdið þeim drætti, sem orðið hefur á framlagningu reikningsins af hálfu ríkisbókhalds. Hins vegar hefur aðstaðan að þessu leyti batnað verulega, eftir að ríkisbókhaldið tók upp þá þjónustu við ríkisstofnanir, er þess hafa óskað, að annast bókhald og ársuppgjör þeirra, er áður sinntu því sjálfar, margar hverjar við erfiðar aðstæður. Þessi þjónusta ríkisbókhaldsins hefur farið mjög vaxandi síðustu tvö árin og mælzt vel fyrir hjá þeim stofnunum, sem hennar hafa notið. Um 70 stofnanir hafa á síðustu rúmum tveimur árum gengið inn í þessa þjónustu ríkisbókhaldsins. Þess er að vænta, að sama þróun verði í bókhaldsmálum þeirra ríkisstofnana, sem eigi eru það stórar í sniðum, að eigin bókhaldsúrvinnsla henti betur. Í þessu sambandi má einnig geta þess, að undirbúningur að úrvinnslu bókhaldsins í skýrsluvélum hefur farið fram á vegum ríkisbókhaldsins, og er ætlunin að hefja úrvinnslu alveg á næstunni eftir kerfi, sem hentar öllum ríkisstofnunum. Þessi atriði eiga öll að stuðla að skjótari frágangi ríkisreikningsins af hálfu ríkisbókhaldsins, þannig að reikningurinn verði að vori hverju lagður fram á Alþ., þótt hann komi ekki til meðferðar þingsins fyrr en haustið eftir:

Við 1. umr. fjárl. fyrir árið 1972, sem fram fór í okt. 1971, gerði fjmrh. grein fyrir helztu atriðum ríkisreikningsins fyrir árið 1970 og lagði jafnframt fram sérstaka grg. um sama efni til glöggvunar þm. á helztu atriðum um afkomu ríkissjóðs. Eigi er því nein ástæða til að fara nú mörgum orðum um þann ríkisreikning, sem hér liggur fyrir til samþykktar. Tekjur reyndust, eins og áður er fram tekið, 9 milljarðar og 800 millj. kr., gjöld 9 milljarðar 352 milli. kr. og rekstrarafgangur 448 millj. kr. Frv. til fjáraukalaga felur þetta og í sér.

Þá er rétt að víkja að aths. yfirskoðunarmanna. Aths. þeirra við ríkisreikninginn fyrir árið 1970 beindist að ýmsum þáttum í fjármálum ríkisstofnana og rn., sem þeir fengu fullnægjandi svör við eða gerðu till. um. Ákveðin atriði eru til athugunar í framtíðinni. Með till. þeirra í ríkisreikningi birtist einnig yfirlit um nefndafjölda og nefndarþóknun eftir rn. árið 1970, sem tekið var úr fjölrituðu hefti um það efni, teknu saman af fjárlaga- og hagsýslustofnuninni. Yfirskoðunarmenn höfðu um nokkurt skeið óskað eftir slíkum upplýsingum, og slíkt fjölritað yfirlit fylgdi ríkisreikningi fyrir árið 1971, þegar hann var lagður fram á Alþ. s. l. haust. Er gert ráð fyrir, að þeirri reglu verði fylgt framvegis.

Af þeim málum, sem yfirskoðunarmenn spurðust fyrir um í aths. um ríkisreikninginn fyrir árið 1970, fjallaði eitt um kostnað við breytingu á húsnæði sjónvarpsins að Laugaveg 176 fyrir matar- og kaffistofu stofnunarinnar. Því máli vísa yfirskoðunarmenn til ákvörðunar og aðgerða Alþingis. Skal því hér gerð nokkur grein fyrir því máli, en nánari atriði um aths. yfirskoðunarmanna og svör við þeim er að finna í ríkisreikningi fyrir árið 1970.

Eins og kunnugt er, var hluti húseignarinnar á Laugavegi 176 keyptur fyrir skrifstofuhúsnæði og vinnudeildir sjónvarpsins, matar- og kaffistofu og lítill fundarsalur, ásamt tilheyrandi gögnum, geymslum og snyrtiaðstöðu, og var talinn 330 fermetrar eða nálægt 1000 rúmmetrum að stærð allar hæðirnar. Kostnaðaráætlun arkitekts við lagfæringar á þessu húsnæði var 4 millj. 59 þús. kr. Var það án þóknunar verkfræðings og arkitekts, sem ekki var tekin með í þessa kostnaðaráætlun. Kostnaðurinn við breytinguna varð hins vegar tæpar 12 millj. kr. um mitt árið 1971 og er nú orðinn eitthvað yfir 12 millj., að því er bezt verður vitað. Orsakir þessa mikla kostnaðar umfram áætlun eru einkum taldar hækkun byggingarkostnaðar á því tímabili, sem endurbæturnar ná yfir, meiri endurnýjunarþörf húsnæðisins en áætlað var og hærri kostnaður vegna þess, að eigi hafði gefizt ráðrúm til nægjanlegrar undirbúningsvinnu, áður en til framkvæmda kom. Yfirskoðunarmenn ríkisreikningsins leggja til, að mat á því fari fram af óvilhöllum dómkvöddum mönnum, hvort vinna við þessar framkvæmdir hafi orðið óeðlilega dýr, og þar með verði tekin af öll tvímæli um réttmæti þeirra reikninga og framkvæmdakostnað allan, sem hér um ræðir. Sýnist eðlilegt, að Alþ. taki afstöðu til málsins á þessum grundvelli. Rétt er að vekja athygli á því, að eigi hafði verið leitað heimildar menntmrn. til þessarar sérstöku breytingar, enda taldi sjónvarpið þær endurbætur hluta af húsmálinu í heild.

Ég sé ekki ástæðu til við þessa umr., nema tilefni gefist til, að gera hér frekari grein fyrir ríkisreikningnum fyrir árið 1970. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn., og verð að leyfa mér að biðja n. að vinna að framgangi málsins með nokkrum hraða, af því að það er svo seint á ferðinni sem raun her vitni.