28.02.1973
Neðri deild: 58. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

146. mál, skólakerfi

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er fagnaðarefni, að frv. um skólakerfi og grunnskóla skulu nú hafa verið lögð fyrir Alþ. En nokkuð skyggir það á fögnuðinn, að frv. skuli öðru sinni koma svo seint, fram, að nú verður varla hægt að búast við endanlegri afgreiðslu þeirra, nema Alþ. taki vægt á málinu og athugi það ekki eins gaumgæfilega og er ástæða til. Bent hefur verið á með miklum rétti, að þessi frv. hafi verið óvenjulega vel og ítarlega undirbúin, en ég vil vekja athygli manna á því, að hversu vel sem embættismenn eða aðrir undirbúa frv. í hendur Alþ., getur slíkur undirbúningur aldrei komið í staðinn fyrir eðlilega meðferð á þinginu. Alþ. hlýtur að líta öðrum augum á upplýsingar, aðstæður, óskir, kröfur og hagsmuni í landinu heldur en embættismenn, að öðrum kosti væri ekki þörf á neinu þingi.

Ýmsar fleiri ástæður munu gera erfitt að ljúka afgreiðslu málanna á þessu þingi. Ég vil t. d. benda á, að grunnskólafrv. leggur slíkar skyldur á herðar landshlutasamtökum sveitarfélaga, að það er með öllu óhugsandi að afgreiða skólafrv., áður en sett hafa verið lög um þessi landshlutasamtök. Enn hefur frv. um landshlutasamtökin ekki komið fram, og þar er um að ræða algerlega nýtt mál, nýtt viðfangsefni, sem ég býst við, að Alþ. muni ætla sér að vinna af vandvirkni, svo að ég er ekki bjartsýnn á, að því verki ljúki í vor, úr því að frv. hefur ekki séð dagsins ljós enn þá.

Þessi tvö frv. fela í sér margvíslegar og mjög mikilvægar breytingar á skólakerfi og skólaskyldu í landinu. Allur þorri þessara breytinga eru framfarir, sem hefðu þurft að verða fyrir löngu, og er því jafnmikill áhugi minn og annarra, sem um málið hafa rætt, að hraða afgreiðslu þess, ef þess er nokkur kostur og vissulega mega ekki aftur líða tvö ár, svo að lítið gerist í málinu, eins og nú hefur orðið, síðan það var fyrst lagt fram á Alþ.

Ýmsir virðast telja, að mikilvægasta atriðið í frv. sé lenging skólaskyldunnar í 16 ára aldur. Ég lít svo á, að lenging skólaskyldunnar sé aðeins eitt atriði í því sem er kjarni frv., en það er stóraukið jafnrétti ungs fólks á Íslandi til skólamenntunar. Lenging skólaskyldunnar þýðir ekki, að við tökum heilan árgang og bætum honum inn í skólana. 80% eða svo af 16 ára börnum eru nú þegar í skólum, og við lengjum skólaskylduna aðeins til þess að tryggja þeim, sem ekki sækja skóla á þessum aldri, jafnrétti, en við vitum, að þau börn eru fyrst og fremst í dreifbýlinu. Ég skil það vel, þegar skólastjórar segja, að þeir vilji heldur hafa 16 ára börnin af fúsum vilja í skólanum heldur en til þess neydd af skólaskyldu. Menn geta leyft sér slíkt í þéttbýlinu, þar sem þessi börn koma á skólabekk hvort sem er. En það er erfiðara hvað snertir hin. Það er líka deilt um lengingu skólaársins, og við heyrum mikið talað um, að íslenzk börn eigi að fá langt sumarfrí til þess að vera úti í náttúrunni, til þess að vinna í heyskap og aðra heilbrigða atvinnu. Þetta var gott, meðan það gat gengið. En þetta er rómantík liðinna tíma. Þær þúsundir barna, sem streyma út úr skólunum hér á Íslandi, þegar þeim lýkur á vorin, fá ekki atvinnu við heyskap eða saltfisk í sólskini. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að nútímaþjóðfélag, iðnvætt og tæknivætt, getur ekki tekið við þessum stóru aldursflokkum og veitt þeim arðbæra og holla atvinnu í nokkrar vikur. Það hlýtur því að fara svo, að skólinn verði að lengjast upp í það, sem tíðkast hjá flestum nágrannaþjóðum okkar. Við þurfum samt sem áður að gera stórauknar ráðstafanir til þess, að börnin hafi holl verkefni á sumrin, búa til fyrir þau hina rómantísku vinnu í stuttan tíma, jafnvel þó að hún sé ekki til á arðbæran og eðlilegan hátt.

Menn benda á námsleiða í þessu sambandi. Það er að sjálfsögðu hægt að lækna námsleiða með því að leggja námið niður. En ef það væri gert, er ég hræddur um, að það muni koma annar leiði í staðinn.

Ég lít svo á, að lenging skólaskyldunnar sé aðeins hluti af þeirri breytingu til aukins jafnréttis fyrir skólabörn á öllum aldri, sem felst í frv. Fyrst og fremst hefur verið rætt um nauðsyn á auknu jafnrétti barna eftir búsetu, og samkv. þessu frv. mun ýmislegt gerast, sem stefnir í rétta átt á því sviði. En ég vil benda á, að skólakerfi, tiltölulega ófullkomið skólakerfi, eins og okkar skólakerfi er þrátt fyrir allt, er miðað við einhvers konar meðalbörn, en eftir því sem tímar hafa liðið og fleiri af þeim börnum, sem fæðast, komast á legg, þá hefur þeim fjölgað, sem eru að einhverju leyti afbrigðileg frá þessu meðaltali. Og það er jafnmikið misrétti að pína barn, sem getur verið miklum hæfileikum búið á einhverju takmörkuðu sviði, í gegnum skólavél, sem er ekki fyrir það sniðin, eins og að láta barn á útkjálka landsins sitja heima. Á þessu sviði, að taka tillit til mismunar einstaklinganna og reyna að veita þeim skólagöngu, sem að einhverju leyti er sniðin við séróskir, þarfir og aðstæður barnanna, er verið að stíga stórt og þýðingarmikið skref með því frv., sem við höfum til afgreiðslu.

Það verður stóraukið jafnrétti til framhaldsnáms tvímælalaust.

Það verður stóraukið jafnrétti héraða með dreifingu valdsins á fræðsluskrifstofunum. Það verður stóraukið jafnrétti í námsaðstöðu með því að koma upp bókasöfnum og öðru, sem þeim þarf að fylgja. Enda þótt bækur séu svo til á hverju heimili á Íslandi, eru þær ekki alls staðar, og það mun jafna aðstöðu barnanna að geta gengið að góðum bókasöfnum í skólunum.

Það verður stóraukið jafnrétti að auka akstur barna til og frá skólunum. Hefur mikið misrétti falizt í því að láta börnin vera e. t. v. tvær vikur heima og tvær vikur í skóla. Þau hafa orðið fyrir óþægindum og misst af ýmsu, auk þess sem þau hafa við þær aðstæður yfirleitt notið styttra náms en önnur skólabörn.

Og að lokum mun það verða mikið jafnréttisskref, þegar að því kemur, að hægt verður að láta börnin ljúka skólavinnunni í skólanum, þannig að þau geti komið heim að loknu dagsverki eins og annað fólk á heimilinu — að undanskilinni húsfreyjunni — og þurfi ekki að sitja fram eftir kvöldum við að vinna heimaverkefni, þegar aðrir hvílast. Við skulum þó gera okkur ljóst, að þetta er miklu stærra verkefni en nokkur virðist sjá fyrir í dag, og ég minni á það, sem einn hv. þm. benti á í umr. í gær, að þessu fylgir óhjákvæmilega, að börnin verða að fá aðstöðu til að borða a. m. k. eina máltíð í skólanum. Það ætti okkur Íslendingum ekki að þykja neitt fráleitt, því að við seljum þús. tonn af fiski í hádegisverð skólabarna í öðrum löndum.

Þetta, sem ég hef talið upp, er allt hið jákvæða. Þetta frv. stefnir í jafnréttisátt á sviði skólamálanna, í jafnréttisátt fyrir unga fólkið, sem á að njóta skólakerfisins.

Ég skal ekki eyða meiri tíma í að ræða um meginatriði frv. eða heildarstefnu þess, enda er ég henni í flestum aðalatriðum sammála, og um það hefur þegar verið allmikið rætt, heldur mun ég reyna að greiða fyrir því, að málið fái fljótan framgang með því að ræða um nokkur einstök atriði frv., sem ég tel, að verði að íhuga nánar bæði í n. og í d. þingsins.

Samkv. 11. gr. er gert ráð fyrir fræðsluráðum, sem eiga að starfa í héruðunum með fræðsluskrifstofum og fræðslustjórum. Gert er ráð fyrir, að í þessum ráðum verði 5 menn kjörnir af viðkomandi landshlutasamtökum. Þetta er gott og blessað og eðlilegt, en síðar í gr. er gert ráð fyrir því, að sérstök ákvæði skuli vera um fundasetu fulltrúa kennarasamtaka o. s. frv. Þarna er verið að skapa tvo flokka af fræðsluráðsmönnum, hina æðri og hina óæðri. Í hinum æðra flokki verða pólitísku fulltrúarnir frá landshlutasamtökunum. Í hinum óæðra flokki með takmarkaðan rétt verða sjálfir skólamennirnir, kennarar og skólastjórar. Ég legg eindregið til, að fræðsluráðin verði stækkuð upp í 7 menn og bætt verði við fulltrúum fyrir skólastjóra og kennara á hverju svæði. Við vitum, að sveitarstjórnirnar munu yfirleitt hafa tilhneigingu til að kjósa pólitíska menn í þessi störf. Sízt af öllu ætti að hallmæla pólitískum mönnum í þessari stofnun, en engu að síður tel ég, að það væri hollt, að fræðsluráðin væru blönduð fulltrúum sveitarfélaganna og fulltrúum frá kennara- og skólastjórahópum þeim, sem í hlut eiga. Þá vantar algerlega í 11. gr. ákvæði um skipun formanns í fræðsluráðin, og er auðvelt að bæta úr því.

Í 14. gr. er talað um fræðslustjóra og allt það, sem hann eigi að gera, m. ö. o. þau verkefni, sem vinna á í fræðsluskrifstofum héraðanna. Þau eru ærið mörg, talin upp í 8 liðum, en þó finnst mér, að það vanti þarna enn ný og mikilvæg atriði. Fræðsluskrifstofurnar í héruðunum þurfa að verða kennslufræðilegar miðstöðvar og einnig miðstöðvar fyrir hvers konar nýsi- og kennslutækni. Slíkar miðstöðvar eru til í öllum nágrannalöndum okkar, og það er byrjað að koma einni slíkri upp hér í Reykjavík. Ég tel, að það eigi að stefna að þessu, enda er það verkefni, sem hægt er að vinna smám saman, eftir því sem efni og aðstæður leyfa.

Í 17. gr. er talað um, að sveitarfélögum sé heimilt að ráða skólafulltrúa, ef þau vilja, og greiða kostnaðinn sjálf. Það er að vísu ekki mikil rausn að heimila þetta. En ég vil benda á, að þetta sakleysislega ákvæði skýlir því vandamáli, að nú þegar eru til fræðslustjórar og fræðsluskrifstofur í Kópavogi og Hafnarfirði, og það mundi vera skref aftur á bak, ef afnema ætti þær skrifstofur. Ég efast um, að sveitarfélögin mundu sætta sig við það. Mér finnst engin frágangssök, að sveitarfélög, sem hafa 10 þús. eða fleiri íbúa, geti haft fræðsluskrifstofur og fræðslustjóra, en ekki upp á sömu kjör og fræðsluskrifstofur kjördæmanna hvað kostnað snertir. Mér finnst, að ríkissjóður ætti að taka takmarkaðan þátt í kostnaði við þær skrifstofur, en þær eiga rétt á sér. Við skulum minnast þess, að t. d. Kópavogur eða Hafnarfjörður hafa fleiri íbúa en sum af kjördæmum landsins. Það geta líka skapazt vandamál vegna fjöldans, og ég tel, að það sé hægt án mikilla erfiðleika að leysa þetta vandamál.

Í 18. gr. kemur að skólanefndum, og þar er hið sama uppi á teningnum og með fræðsluráðin. Kennarar hafa mjög takmarkaðan rétt til aðildar. Þeir eru nefndir og þeir mega sitja fundi með málfrelsi og tillögurétti, en ekki fullum rétti. Ég held, að við ættum líka að stíga skrefið til fulls og láta kennara hafa fulltrúa í skólanefndum. Það mundi að minni hyggju vera í samræmi við þann anda skólalýðræðis, sem hefur einkennt hvert einasta frv. um skóla, sem gert hefur verið að lögum hér á Alþ um alllangt árabil. Það má segja það sama um skólanefndir og fræðsluráð, það mun gefast vel að blanda það lið og hafa annars vegar fulltrúa sveitarfélaga og hins vegar fulltrúum skólanna sjálfra úr hópi kennara, sem þar starfa.

Í 23 gr. stendur setning, sem Alþ. hlýtur að hnjóta um : „Röðun framkvæmda“ — þ. e. a. s. framkvæmd við skólabyggingar — „miðist við, hvar skólabyggingaþörf er brýnust að áliti rn: Ef þetta væri samþykkt, væri fjárveitingavaldi afsalað til einstaks rn., sem ég býst ekki við, að Alþ. geri. Það er óhjákvæmilegt, að ákvörðun um röðun framkvæmda verði endanlega í höndum Alþ., vonandi þó í formi skipulegra áætlana, sem vel hafa gefizt á öðrum sviðum.

Í 32. gr. er fjallað um skipun kennara og hefur einn ræðumaður þegar bent á þá keðju skriffinnsku, sem á að þurfa til þess, að einn kennari verði skipaður eða settur í starf einhvers staðar á landinu. Ef á þetta er litið, þegar skólastjóri talar við skólanefnd og skólanefnd talar við fræðslustjóra og fræðslustjóri talar við rn. og rn. auglýsir og kennaraefni sækir um til skólanefndar og skólanefnd veitir umsögn, skólastjóri veitir umsögn og fræðslustjóri veitir umsögn og rn. á loks endanlega að gefa út bréf upp á einn kennara, þá sjá menn, að skriffinnskan þarna, er orðin hlægileg.

Í sambandi við fræðslustjórana í héruðunum hefur verið nokkur deila um, hvort þeir eigi, að vera menn sveitarstjórnanna eða menn rn. Ég er þeirrar skoðunar eindregið, að fræðslustjórarnir eigi að vera menn rn., þeir eigi að hafa tengsl við menntmrn. og vera í raun og veru hluti þess, Ef svo er, er miklu auðveldara að láta ákvörðun um kennararáðningu í hendur fræðsluráðs og fræðslustjóra, og það tel ég, að við eigum tvímælalaust að gera — og stytta þessa bréfakeðju. Deila má að sjálfsögðu á sama hátt um skipun skólastjóra og aðstoðarskólastjóra, en á þessu stigi hef ég ekki kosið að gera við það athugasemd, og mætti sjá, hver reynslan yrði af því að flytja skipun kennaranna til, áður en tekin yrði ákvörðun um, hvort eitthvað svipað verður gert með skólastjóra og aðstoðarskólastjóra. Þó eru rök fyrir því, að rn. hafi með skipun þeirra yfirmanna skólastofnananna að gera, öllu sterkari.

34. gr. er mjög merkileg, því að þar er gert ráð fyrir, að menntmrn. skipi að fenginni umsögn skólanefndar skólaráðskonu við heimavistarskóla, þar sem 30 nemendur eða fleiri samtímis eru í heimavist, m. ö. o. skólaráðskonurnar eiga að verða fastir ríkisstarfsmenn. Ég hef hlustað á skemmtilegar umræður á fundi í mínu kjördæmi um þetta, þar sem embættismaður hældi sér annars vegar af því, að hér væri um miklar framfarir að ræða, en skólastjóri í heimavistarskóla benti á, að ef einn boldangskvenmaður í eldhúsinu væri búin að fá fasta skipun sem opinber embættismaður, gæti hún gert skólastjóranum lífið gersamlega óbærilegt. Þetta var að vísu sagt meira í gamni en alvöru, og ég tek það ekki alvarlega. En ég ætla að spyrja um annað. Við vitum það, að skv. íslenzkri málvenju — og í þeirri málvenju felst töluvert meira en bara málvenjan — þá getur kona verið maður. Kona er t. d. alþm. En mig langar til að spyrja þá, sem standa að þessu frv.: Getur maður verið kona? Getur karlmaður verið ráðskona? Ef svo er ekki, þá er hér annað mál, sem þeir, sem vilja berjast fyrir réttindum karlfólksins, væntanlega undir forustu hv. 4. landsk. þm., verða að taka til höndunum við og reyna að hindra, að þarna sé búin til ríkisstaða, sem er eingöngu ætluð kvenþjóðinni, en karlmenn fá ekki að koma nálægt. Held ég, að ég þekki eitt dæmi þess, að karlmaður hafi annazt matseld í stórum heimavistarskóla, og er ekkert því til fyrirstöðu. Í þessu sambandi vil ég einnig benda á, að matseld, bæði fyrir hópa starfsfólks og skóla, er mjög mikið vandamál nú á dögum frá ýmsum hliðum séð, og ég vil minna á, að það er nýlega búið að samþykkja lög um hótel- og veitingaskóla, þar sem matsveinar og brytar hljóta menntun sína. Og ég vil gjarnan benda á, að rétt væri að íhuga um leið og þetta starf verður gert að föstu starfi, hvort ekki sé rétt að gera einhverjar kröfur um menntun. Það er til ríkisskóli, sem menntar fólk á þessu sviði, bæði með allítarlegri menntun og líka með skyndimenntun á námskeiðum.

Í 49. gr. er talað um, að til þess að hafa 8. og 9. bekk þurfi meðalfjöldi nemenda að vera 15 eða meira. Ég vil aðeins nefna það, að ég hef heyrt allmikla gagnrýni á þetta frá dreifbýlinu. Það getur staðið þannig á, að skólinn sé fyrir hendi og starfsmenn séu fyrir hendi, það þurfi ekki að leggja í aukakostnað, þó að bekkjunum sé haldið uppi. Ég legg því til, að þetta atriði verði endurskoðað, ef ekki afnumið.

6. og 9. kafli fjalla um ýmiss konar sérkennslu fyrir afbrigðileg börn, sálfræðiþjónustu og félagsráðgjafaþjónustu í skólunum. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að ég tel, að í þessum köflum felist réttlætismál, sem er eitt af stærstu framfaraatriðum í þessu frv. Við skulum að vísu gera okkur ljóst, að það mun taka nokkur ár að fá sálfræðinga og félagsráðgjafa, og við skulum líka gera okkur ljóst, að því verður víðs fjarri, að þessi mál verði leyst, þótt að sálfræðingar og félagsráðgjafar verði í öllum kjördæmum. En þetta er skref í rétta átt, nauðsynlegt skref og réttlætismál fyrir öll þau börn, sem eiga hlut að máli.

8. kafli fjallar um skólarannsóknir, og tel ég, að stofnun þeirrar deildar menntmrn. hafi á sínum tíma verið hið merkasta spor í alla staði. Þetta er að vísu eina starfsdeildin í rn., sem fjallað er um í þessum lögum, en það kann að vera, að ekkert sé við það að athuga. Hins vegar vil ég benda á, að skólarannsóknir hafa enn sem komið er takmarkazt við námsefnið sjálft og endurskoðun á því, sem vissulega er kjarninn í öllu skólastarfi. En ég vil koma því að, hvort ekki sé rétt, af því að skólarannsóknir fá nú víða stórfé með fastri prósentu af kostnaði við skóla, — ég hygg, að það séu um 25 millj. kr. á ári, — hvort ekki sé rétt að fela skólarannsóknum að kanna fleira en námsefnið, hvort ekki sé rétt, að haldið sé uppi rannsóknarstarfsemi varðandi kennslutæki og annað slíkt, sem skiptir nú meira máli með hverju ári. Og þá vil ég benda á, hvort ekki sé rétt að láta fara fram á vegum skólarannsókna athuganir t. d. á húsgögnum skólanna. Við, sem hér erum inni, þurfum oft að sitja fundi og m. a. oft í skólunum. Þegar ég hef setið fundi í barna- og gagnfræðaskólum, hefur mér oft orðið hugsað til þess, hvort þau húsgögn, sem þar eru, væru ekki hrein pyntingartæki fyrir unglingana og börnin okkar, sem eru 1/3 stærri en við vorum á þeirra aldri, og hvort það sé í samræmi við lífskjör Íslendinga í dag, að það skuli t. d, vera jafnstórir stólar og jafnstór borð í bekkjum, þar sem getur verið helmings stærðarmunur á nemendum. Menn þurfa ekki annað en að ganga að barnaskóla til þess að sjá þetta, ef það þekkir ekki hver og einn af eigin reynslu. Mér finnst ekkert fráleitt, að með svo miklum fjármunum láti skólarannsóknir fram fara eða stuðli að athugunum á svona hlutum. Ég veit, að það kunna að vera aðrir aðilar, bæði í einkaframtaki og á vegum þess opinbera, sem hafa meira með slíka hluti að gera, en skólarannsóknir ættu að koma hinu mannlega sjónarmiði nemandans til skila til tæknifræðinganna, sem framleiða þessa hluti. Ég tel, að skólarannsóknir ættu líka að taka þátt í því að búa til forskriftir að skólahúsum. Það eru aðrar deildir, — eitt sinn var í menntmrn. byggingadeild, en hefur nú verið flutt til, — sem annast teikningar að skólum og staðla þær, en ég tel, að það þurfi einhverjir aðilar, sem eru ekki arkitektar eða byggingarmeistarar að menntun, heldur eru skólamenn, að sjá skólabyggingar fyrir sér frá sjónarmiði mannfólksins, sem á að vinna í þeim, nemendanna og kennaranna. Þessir aðilar verða líka að láta í sér heyra varðandi undirbúning undir skólabyggingar, teikningar að þeim. Ég held, að það ætti að víkka verksvið skólarannsókna og a. m. k. koma að möguleikum til þess, að slíkt sem þetta yrði meðal þeirra verkefna, sem skólarannsóknir taka að sér. Nú vil ég geta þess, að skólarannsóknadeildin er sjálf mjög lítil, hefur 3 eða 4 starfsmenn, en hún hefur þann hátt á að ráða menn til að vinna sérstök verkefni. Kennarar fara e. t. v. úr starfi í ½ ár eða eyða hálfu starfi í heilt ár í að vinna ákveðin verkefni fyrir skólarannsóknir. Þannig starfa á vegum þeirra 60–70 manns að jafnaði. Með þessu sama kerfi væri lítill vandi með nokkrum tilkostnaði að vinna að verkum, sem ná út fyrir þann ramma, sem skólarannsóknir hafa helgað sér til þessa.

Í 10. kafla er fjallað um bókasöfn, og hann er vissulega ein merkasta nýjungin í þessu frv. Bókaþjóðin mikla er nú loksins að átta sig á því, að það eigi að vera bókasöfn í skólum. E. t. v. hefur tjónið ekki orðið mjög mikið vegna þess, hve bókaeign er mikil á heimilum. En það er ekki einhlítt, og það er vissulega til þess kominn tími, að lögð sé áherzla á að koma upp góðum bókasöfnum í skólum. Svo langt sem þetta nær, er þetta góð, merk og mikil gr.

En svo kemur 3. mgr. Þar stendur: „Heimilt er með samþykki menntmrn. að koma upp deildum í skólabókasöfnum fyrir hljómplötur og hljómbönd til notkunar í skólanum og til útleigu innan skólahverfisins.“ Þeir, sem semja þetta frv., virðast sem sagt hafa orðið varir við, að það séu nú til hljómplötur og hljómbönd, en lengra nær ekki þeirra skilningur, ef dæma má eftir frv., í allri þeirri ótrúlega fjölbreyttu nútímatækni, sem notuð er við kennslu og í skólabókasöfnum nágrannlanda okkar, þar sem þessi mál eru komin á sæmilegan rekspöl. Og höfundar frv. hafa ekki látið sér segjast, þótt þeir hafi fengið mjög greinargott erindi um þetta frá Bókavarðafélagi Íslands. Það er prentaður hluti af því í bókinni, en því hefur ekki verið sinnt.

Nú á dögum verður skólabókasafn að hafa meira eða minna filmur, filmuræmur, tónhönd, plötur, litskuggamyndir, glærur og ýmist myndaefni, eftirprentanir, fjölritað efni og fleira slíkt, svo og tæki til þess, að börnin getið gengið að þessu efni og notað það. Við hugsum e. t. v. enn þannig, að þessi sýningartæki séu undraverkfæri, sem kennarar einir geti snert á, en það merklega í tækninni á þessu sviði nú á dögum er e. t. v. ekki furðutækin, sem fram hafa komið, heldur hitt, að litlu, venjulegu tækin eru orðin svo einföld og traust, að þau eru komin úr höndum kennaranna í hendur barnanna. Þar gera þau margfalt gagn.

Ég veit, að það mun reynast okkur ærið dýrt verkefni að koma upp skólabókasöfnum með bókum og blöðum einum saman. Það skiptir litlu máli, hvort við settum 25 eða 50 millj. kr. í það í dag. Það væri hægt að eyða því á skynsamlegan og góðan hátt. Menn kunna að segja: Er þá rétt fyrir okkur að setja markið miklu hærra með því að ætla okkur að gera þetta að almennum miðlasöfnum eins og tíðkast í skólum í löndunum í kringum okkur? Ég vil benda á, að við eigum ekki að setja upp skólabókasöfn, sem við vitum um leið, að eru orðin úrelt. Því meira fé sem við ætlum að setja í þetta verkefni, því meiri ástæða er til þess að gera bókasöfnin ekki þannig úr garði í byrjun, að þau verði orðin að forngripum eftir 3–5 ár. Þetta er ekki eins erfitt fjárhagslega og menn skyldu halda, vegna þess að það er nú þegar til í skólunum allmikið af hinum ýmsu tækjum, sem til þessara hluta þarf. Þau eru notuð í sumum skólum, en í öðrum ekki, en þau eru til. Og hér er aðallega um að ræða að sýna þá forsjálni að undirbúa skólabókasöfnin, sérstaklega hvað húsrými snertir, þannig, að hægt verði að láta þau þróast inn á þær brautir, sem þau eru komin á í öllum nágrannalöndum okkar.

Herra forseti. Það hefði mátt nefna fjöldamörg önnur atriði, sem ástæða er til að ræða um og athuga, en ég mun láta hér staðar numið að sinni. Ég hygg, að þessi fáu atriði, sem ég hef gert að efnislegu umræðuefni, ættu að nægja til að sýna mönnum fram á, að það er mikið að athuga og mikið að tala um enn í sambandi við þetta frv. Hitt er rétt, að þetta mál er þess eðlis, að það er hægt að halda áfram endurskoðun þess endalaust og finna á hverju ári nokkrar skynsamlegar breytingar. Við verðum einhvers staðar að draga línu.

Ég vænti þess, að Alþ. láti þetta mál ekki fara um hendur sínar án þess að hafa athugað það gaumgæfilega, en með góðum vinnubrögðum og snörum handtökum kann að vera, að hægt sé að gera það fyrir lok þingsins.