28.02.1973
Neðri deild: 58. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (1736)

146. mál, skólakerfi

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það hafa verið haldnar margar góðar ræður hér, og ég skal ekki verða mjög langorður, vegna þess að það vill þá oft verða um endurtekningar að ræða. Þetta er viðamikið frv. og er hægt að tala lengi um það, en ég ætla ekki að gera það. Enda er vafasamt, hve mikla þýðingu það hefur, að við förum hér upp og teljum upp ótal atriði, sem okkur finnst að.

Það er búið að hafa mikið fyrir samningu á þessu frv. Það var víst samið fyrir 2–3 árum, eða jafnvel byrjað á því fyrr, og svo var frv. endurskoðað. Mér hefur skilizt, að 5 manna n. eða eitthvað slíkt hafi verið að ferðast um landið, halda fundi og ræða þetta við fólkið. Ég hef heyrt, að þeir hafi ýmsar aðfinnslur fengið á þessum fundum og margir hafi haft ýmislegt við frv. að athuga. En er árangurinn nokkur af þessum fundum? Hefur nokkurt tillit verið tekið til, þeirra aths., sem menn hafa verið að gera? Ég hef frétt, að það hafi verið haldinn fundur hér í bænum. Ég vissi ekki, hversu margir töluðu, hvort það voru 5, sem töluðu. En þá stóð upp einn ræðumaður og sagði, að unglingarnir mundu verða allþreyttir á náminu, eftir að vera búnir að sitja í 9 ár í skóla, ef ræðurnar, sem yfir þeim væru haldnar, væru ámóta skemmtilegar og hefðu verið hjá þessum mönnum, sem sömdu frv. Það mundi vera kominn allmikill leiði í þá. Menn koma á ýmsan hátt orðum að hugsunum sínum, eins og gengur.

Ég hef t. d. mjög mikið út á það að setja að lengja námstíma árlega, sérstaklega að gera það að skilyrði. Ég álít, að það þurfi að setja sérstakar reglur fyrir dreyfbýlið og þéttbýlið í þessu efni. Ég skil það vel, að í kaupstöðunum geti foreldrar sætt sig við þetta, því að þeir eru í vandræðum með börnin, ef mæðurnar vinna úti, að geta ekki komið þeim í sveit, og það kostar sína peninga. Ég get trúað því, að þeim þyki gott að láta krakkana dunda þarna í 9 mánuði á hverju ári og kennarana líta eftir þeim. En það er bara allt annað viðhorf fyrir okkur í dreifbýlinu. Það er ekki hægt að telja mér trú um, að það sé nauðsynlegt fyrir unglingana að sitja í 9 mánuði í 9 ár til þess að læra þessi fræði, sem gerðar eru kröfur til, að þeir kunni, þegar þeir ljúka skyldunáminu. Menn læra ekki mest á því að vera langan tíma við nám. Menn læra mest á því að halda vel áfram, meðan þeir eru við það, og hafa góða kennslu. Á þeim skóla, sem við höfum haft, héraðsskóla í Austur-Húnavatnssýslu, veit ég ekki betur en yngri börnin hafi verið svona 3 mánuði í skóla á ári. Þau hafa verið heima til skiptis, viku- eða hálfsmánaðarlega, og átt þá að læra heima.

Þess er skilyrðislaust krafizt, að börnin séu í skóla, skilst mér, eða þá í viðurkenndum einkaakólum. En þau geta lært heima hjá sér. Í sveitinni t. d. geta foreldrar í mörgum tilfellum kennt börnunum heima. Það er miklu hagkvæmara nám fyrir ungu börnin en að vera í fjölmennum skólum. Svo á vitalega að gera kröfur til, að þau taki próf. Til hvers á að vera neyða fólk til þess að láta börn í 9 mánaða skóla, ef þess gerist ekki þörf? Það er auk þess orðið þannig með fálkshald í sveitinni, að ógerlegt er fyrir bændur að búa, ef unglingarnir fá ekki að vera heima vor og haust, þeir geta það ekki. Með vinnustyttingu og fleiri ráðstöfunum er búið að gera það þannig, að fólkið streymir frá þeim atvinnuvegum, þar sem það þarf að vinna 7 daga vikunnar, og vill vinna 4–5 daga. Bændur eiga ekki kost á að fá hjálp. Ef þeirra eigin börn hjálpa þeim ekki, geta þeir ekki búið. Ég held, að menntmn. ætti að athuga, að hið sama á ekki við í dreifbýlinu eða a. m. k. í sveitunum og jafnvel ekki í minni kauptúnunum eins og í stærri bæjunum.

Auk þess held ég, að það verði ekki til þess að örva námfýsi unglinganna að sitja 9 mánuði í skóla á ári. Það er þannig með manninn eins og dýrin, það er ekki ýkjamikill munur á sálarlífi þeirra, því hef ég oft tekið eftir. Það má vera, að við séum eitthvað greindari, en tilfinningalífið er ekki ólíkt. Það er þannig með mikla hestamenn, að þeir gera ekki gæðing úr hestinum með því að vera alltaf að kippa í tauminn og slá í hann, en þeir gera hestinn að g;æðingi með hví að láta hann sækja á. Ýmsir kennarar og skólastjórar hafa sagt mér, að það sé um þriðjungur af nemendunum, sem eigi mjög erfitt með að læra, þriðjungur sé sæmilegur, geti lært, og þriðjungur eigi létt með það. Þetta eru náttúrlega grófar tölur, en þetta hafa sagt mér menn, sem hafa fengizt við kennslu. En því á þá að vera að neyða þá, sem ekki hafa hæfileika í þessa átt, til þess að vera allt of lengi á skólabekkjunum? Við lifum ekki eingöngu á bóklegum fræðum, og sem betur fer eru einstaklingarnir hver öðrum ólíkir. Hugir einstaklinganna beinast í ýmsar áttir, og þá á að lofa unglingunum að fara að starfa að því, sem þeir eru hneigðastir fyrir. Það þurfa allir að fá undirbúningsfræðslu, en svo á að lofa þeim að fara að leita að því starfi, sem þeir hafa mesta ánægju af, eða til þeirra atvinnugreina, sem þeir hafa mesta ánægju af að starfa við. Ég er því algerlega á móti því að gera það að skyldu, að unglingarnir séu svona lengi í skóla, og í öðru lagi vil ég, að það sé gerður meiri greinarmunur á dreifbýlinu og þéttbýlinu hvað þetta snertir. Ég vil, að það sé viðurkennt, að unglingarnir megi læra heima, ef þeir koma og ganga undir próf, þá séu þeir frjálsir að því, það sé gleggra tekið fram um það.

Eitt er það með heimangönguskólana, að tekið er fram í frv., að það eigi að gera sem mest að því að flytja börnin á milli. Ég sé ekki, að það sé nokkur hagspeki í þessu. Barnið þarf að borða, hvort sem það er heima hjá foreldrum sínum eða í heimavistarskólum, og þeir eru tiltölulega mjög ódýrir. Það er ekki lítill kostnaður við að flytja á milli. Bílstjórarnir taka textakaup. Þetta kostar stórfé, og annað það, að veðráttan í ýmsum landshlutum er þannig, að það er alls ekki neitt á slíku að byggja. Það er ekki þægilegt að ferðast með unga krakka í stórhríðum og ófærð, þannig að ég held að það verði ekki neinn þjóðarhagur að því að flytja krakkana á milli daglega. Það fer meira en lítill tími í þessar milliferðir. Þar sem ég þekki til, er alltaf verið að flytja unglingana á milli. Ég held, að það sé alveg eins gott að lofa þeim að vera um helgarnar í skólanum, láta þau halda áfram að læra þann tíma, sem þau eru þar.

Ef námstíminn er ekki nema 6 mánuðir á vetri, má vera, að kennararnir þyrftu að kenna fleiri klukkutíma á dag. En það er þá hægt að bæta þeim það upp þannig, að þeir kenni færri mánuði. Þá geta þeir farið að vinna eitthvað annað.

Það má vel vera, að í bæjunum séu foreldrarnir fegnir, að börnin séu lengi í skóla. En við erum það alls ekki í sveitinni. Við viljum miklu heldur, að þau haldi sig betur að náminu, meðan þau eru við það, og tíminn sé skemmri.

Hv. 8. landsk. þm., Benedikt Gröndal hélt hér ágæta ræðu áðan, og mér líkaði margt mjög vel, sem hann sagði. En hann kom lítið inn á fjárhagshliðina, hefur sennilega ekkert gaman af að tala um peningamál. En fjárhagshliðin er ekkert aukaatriði. Það er verið að tala um, að þetta auki kostnaðinn um nærri 300 millj. á ári, en það er í lausu lofti. Um þetta er ógerlegt að segja, fyrr en reynslan sker úr því.

Satt að segja er ég í miklum vafa um, að þetta frv, sé til nokkurra bóta frá fyrri lögum. Það má deila um þessar landsprófsreglur, hvort þær eru réttar eða rangar, og það er ósköp þægilegt að breyta þeim án þess að fara að umbylta kerfinu að meira eða minna leyti. Það má deila um ýmislegt viðvíkjandi því. En ég held, að það sé ekkert óeðlilegt, að eftir fullnaðarpróf sé unglingunum gert að skyldu að læra tvo vetur, en ég efast um, að það sé til bóta, að þeir bæti einum vetri við og menntaskólastigið styttist aftur um eitt ár. Sannleikurinn er sá með þessa blessaða stúdenta, þeir eiga að vera 9 ár í skyldunámi, 9 mánuði á ári, og svo 3 ár í menntaskólanum og koma svo úr menntaskólanum og kunna alls ekkert til þess að hafa sig áfram í lífinu, hafa varla vald á móðurmáli sínu. Þá eiga þeir fyrst að fara að búa sig undir lífið, læra þær greinar, sem þeir ætla að gera að lífsstarfi sínu. Er þessi tími ekki orðinn allt of langur, og er ekki komin þreyta í þessa blessaða unglinga? Og einkennilegt er það, að svo að segja allir afkastamestu menn í þjóðfélaginu hafa verið stutt í skóla. Það má nefnilega deila um það hvort námsmenn tapa ekki meiru á þessari löngu skólagöngu en þeir vinna.

Þá koma blessuð ráðin, þessi endalausu ráð. Í kringum skólastjórana eiga nú að koma kennarafélög og aðstoðarskólastjóri, svo eiga að koma foreldrafélög, og ég held nemendafélög, og allir eiga þeir að skiptast á skoðunum við þessa vesalings skólastjóra. Það skrifaði einn skólastjóri ekki ólaglega grein um daginn í Morgunblaðið, heitir Oddur Sigurjónsson, gamall sveitungi minn, og var ekki beint orðfagur út í þetta. Hann kann betur við, hugsa ég, að fá að ráða einhverju um það, hvernig skólanum er stjórnað, sem hann er skólastjóri í. En það má öllu ofbjóða. Það er munur á, hvort þessir aumingja skólastjórar þurfa alltaf að vera að eiga viðtöl við einhver félög, fá einhverjar áminningar eða þeir eiga að ráða öllu. Það er sjálfsagt að hafa eftirlit með skólakerfinu. En það ætti þá ekkert síður að koma ofan frá en neðan frá. Svo eiga að koma aðstoðarskólastjórar og það eiga nú að vera sérreglur um þá, hvað kennsluskyldan á að vera mikil hjá þeim. Ég veit ekki um skólastjórann, hvort hann á að kenna, ef kennararnir eru fleiri en 10. Það er hægt að ganga of langt í þessu, að menn séu á einlægum fundum og ráðstefnum, en vinni lítið. Svo kemur grunnskólaráð, svo kemur sérstök skólarannsóknadeild í rn., og svo kemur sálfræðiþjónustan. Það er bara, að þessir sálfræðingar þurfi ekki helzt á sálfræðilækningu að halda. Ýmsir hafa sagt mér, að afskipti þeirra af fræðslumálunum væru lítið til bóta. Ég heyrði eftir Árna sáluga Pálssyni, að hann hefði sagt um einhvern sálfræðing, að það þyrfti heila deild á geðveikrahæli fyrir bara einn þeirra. Það er sjálfsagt að sýna börnunum nærgætni og nákvæmni, en það er búið að gera kennaraskólann að kennaraháskóla, þeir eiga fyrst að verða stúdentar, áður en þeir fá inntöku, og svo eiga þeir að vera 3–4 ár að læra, helst aðallega sálfræði. Ég hélt nú, að skólastjórarnir eða kennarar, sem útskrifast frá þessari virðulegu stofnun, ættu að vera búnir að læra eitthvað í sálfræði, þannig að ekki þyrfti að vera að kenna þeim sjálfum sálfræði eða segja þeim, hvernig þeir ættu að koma fram við börnin og unglingana. Ég held, að það mætti spara eitthvað af þessum ráðum og n. og ekki þurfi að búa til sérstaka skólarannsóknadeild í rn. Satt að segja er kostnaður við rn, orðinn alveg nógur. Ég held, að það nægði að hafa einn eftirlitsmann til þess að fylgjast með þessu, það þyrfti ekki heila deild. Það væri hægt að hafa þetta allt saman ódýrara og viðaminna. Þetta er ekki aðalatriði. En ég er í miklum vafa um, að frv. yrði nokkuð til bóta, og þetta að fara að lengja skyldunámsstigið og stytta svo aftur menntaskólanámið, er það ekki bara til að tefja um eitt ár fyrir þeim, sem vilja fara í eitthvað annað, og þurfa þeir ekki að taka mikið af þessu námi upp, t. d. í iðnskólunum. Þeir, sem fara í iðnaðinn? Og þeir, sem fara í sjávarútveginn, þurfa að læra vélstjórn eða læra að verða skipstjórar, og þá kemur sama námið, a. m. k. tungumálakennsla o. fl. að einhverju leyti.

Ég er í miklum vafa um, til hve mikilla bóta frv. er, og ákaflega vafasamt, hvað öll þessi blessuð ráð og nefndir gera mikið gagn. Það er sjálfsagt að hafa eftirlit með kennslunni, en það á fyrst og fremst að koma frá stjórnvöldunum. Það er hægt að hafa þetta ósköp einfalt. En ég vona, að n. athugi þetta. Þessu frv. liggur ekkert á, og væntanlega sofnar það á þessu þingi, þannig að það fer ekki gegnum báðar d., og þá er hægt að athuga það betur að vetri. En ég held, að það verði enginn vitur á því að sitja marga áratugi í skóla. Það hefur sjaldan orðið mikið úr mönnum, sem hafa hangið lengi í skóla. Það er betra að halda sig betur að náminu, meðan það er, og læra það, sem er nytsamt og þarft, snúa sér svo að því að starfa.