28.02.1973
Neðri deild: 58. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2211 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

146. mál, skólakerfi

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég sé nú, að það er nokkuð langt liðið á fundartíma, svo að ég verð sennilega stuttorðari um þetta frv. en ég ætlaði.

Í þessu frv. er, eins og hér hefur komið fram, margt nýmæla, sem horfa til mikilla bóta, og vil ég þá sérstaklega benda enn einu sinni, eins og hér hefur komið fram, á dreifingu valdsins, sem stefnt er að með frv. Á hitt er svo að líta, að margt í þessu frv. þarf skoðunar við og orkar tvímælis, enda er hér um að ræða viðamikla lagasetningu, sem er ætlað að eiga við ákaflega ólík skilyrði í skólamálum eftir því, hvar er í landinu. Til þess að gera hv. d. örstutta grein fyrir því, hversu ólíkar aðstæður eru í þessum efnum, vil ég aðeins gera hér grein fyrir nokkrum tölum í þessu sambandi út af skólamálum á Norðurlandi, sem ég hef aflað mér. Þar í fjórðungnum eru 53 barnaskólar, og þar af eru 47 fastir skólar, 17 heimavistarskólar og 6 farskólar. Í barnaskólum fjórðungsins eru 4259 nemendur. Aðeins 8 af barnaskólunum hafa yfir 100 nemendur og fasta bekkjarskipan. Allir aðrir skólar hafa 2–3 aldursflokka saman í bekk. Í þessum skólum starfa 173 fastir kennarar, og af þeim eru 22% réttindalausir. Stundakennarar eru 103. Í fjórðungnum starfa 18 unglingaskólar, og eru þeir allir í tengslum við barnastigið og undir sömu stjórn. Þar eru aðeins 4 miðskólar, en þeir eru á Hvammstanga, Skagaströnd, í Lundi og að Hrafnagili. Fjögurra vetra gagnfræðaskólar eru níu talsins, þar af eru fimm í kaupstöðum, einn á Blönduósi, einn á Dalvík og tveir héraðsskólar. Fjöldi nemenda í bekkjardeildum gagnfræðastigsins er í 1. bekk 722 nemendur, í 2. bekk 661 og í 3. bekk 600, þannig að í þeim bekk, sem verður 9. bekkur grunnskóla og menn hér hafa talið, að þyrfti að lengja skólaskyldu til að fá fleiri nemendur í, virðast vera svo til jafnmargir og í 2. bekk. Þar kann að vera um misjafna tölu í árgöngum að ræða, sem ég hef ekki tiltæka hér, sú skýring kann að vera á þessu.

En það, sem ég fyrst og fremst vildi gera að umræðuefni, áður en mál þetta færi í n., var einmitt lenging skólaskyldunnar. Í grg. frv. er þannig komizt að orði, að enn sem fyrr sé miðað við það meginatriði, að skólaskylda skuli vera 9 ár, eða á aldrinum 7–16 ára. Forsendur fyrir lengingu þessari fundust n. vera ótvíræðar. Við athugun kemur í ljós, að um 82% unglinga stunduðu nám í 3. bekk gagnfræðaskóla árið 1968–1969, sbr. fskj. 2, en þetta hundraðshlutfall hefur hækkað lítillega síðan. 3. bekkur gagnfræðastigs er sami bekkur og kemur til með að verða 9. og efsti bekkur grunnskóla. Svo segir hér, með leyfi forseta: „Við athugun kemur í ljós, að hlutfallslegur meiri hluti þeirra er búsettur í dreifbýli“, þ. e. a. s. 18%, sem ekki koma til náms í 9. bekk eða 3. bekk, eins og nú er, „ýmist sveitum eða smærri sjávarþorpum, þar sem þessi bekkur er ekki fyrir hendi. Af því m. a. dregur n. þá ályktun, að hér þurfi að gera þjóðfélagslegt átak til úrbóta.“

Nú er það út af fyrir sig gott og blessað, að það liggi ljóst fyrir, að meiri hl. af þessum 18% unglinga sé úr strjálbýli. En hitt hefði verið æskilegra, að það hefði komið glöggt fram, hvort einhver verulegur hluti af þessu fólki, bæði í þéttbýli og strjálbýli, væri þannig af guði gerður, ef svo mætti segja, að það hefði ekki erindi í þennan bekk. Það hefði og gjarnan mátt fylgja þessu meiri grg. um það, af hvaða ástæðum þessi 18% sækja ekki þennan bekk. Þá hefði að mínu viti verið meiri grundvöllur fyrir því, að hv. Alþ. gæti tekið raunsæja ákvörðun um það, hvernig ætti að snúast í þessu máli, því að það getur verið, sé einungis um að ræða, að hér sé vandamál, sem fyrst og fremst varðar strjálbýlið, að hægt sé að taka á þessu með öðrum hætti en þeim að lengja skólaskylduna einfaldlega um eitt ár. Í því sambandi vil ég líka minna á það, að í þessu frv. eru settar nokkrar skorður við því, hversu litlar skólaeiningarnar megi vera, og það er mjög mikið vandamál víða í strjálbýlinu, þ. e. a. s. skorður eru settar að því leyti til, að ríkið tekur ekki nema tiltekinn þátt í þeim skólaeiningum, sem verða minni en um getur í frv., og er talan 15 í bekkjardeild nefnd þar sem lágmark. Þetta veit ég, að yrði mjög mikið vandamál víða í strjálbýlinu og mundi, eins og frá frv. er gengið, leggja verulegar fjárhagsbyrðar á herðar þeirra litlu sveitarfélaga, sem að þessum skólaeiningum standa, ef ekki er sett undir þann leka, áður en frv. verður afgreitt. Þess vegna finnst mér, að það sé dálítið vafasamt, að þetta frv. sé eins mikill akkur fyrir strjálar byggðir og margir vilja vera láta. Ég vil undirstrika það, og taka skýrt fram, að mér finnst hugsjón þeirra ákaflega góðra gjalda verð og tek undir hana heils hugar. Við eigum auðvitað að reyna að gera þetta frv. þannig úr garði, að sem allra mestur jöfnuður verði til náms í landinu, bæði eftir efnum og ástæðum fólks og eftir búsetu. Hitt er svo annað mál, að við þurfum að gaumgæfa það, hvort við erum í raun og veru að vinna að þessu marki, sem við erum að setja. Þegar það er fyrst og fremst talið, að forsenda fyrir þessu ákvæði um lengingu skólaskyldunnar og lengingu árlegs skólaárs sé jafnréttisatriði fyrir strjálbýlið, finnst mér, að við eigum að staldra við og spyrja: Hvernig gætum við náð þessu marki á annan hátt, ef við vildum ná því að jafna aðstöðu þeirra, sem í strjálbýlinu búa?

Ég vil enda mál mitt með því að spyrja hæstv. menntmrh. eftir því, hvort farið hafi fram gaumgæfileg athugun á því, af hvaða ástæðum 18% af unglingum koma ekki í 3. bekk, hvort þar sé um að ræða athugun, sem sýni, að svo og svo margir komi ekki í 3. bekk vegna þess, að þeir eigi ekki erindi í 3. bekk af gáfnaástæðum, þ. e. a. s. þá skorti námsgetu til þess, eða þar komi til efnahagur eða búseta. Ég hefði gjarnan viljað, að gaumgæfileg athugun á þessu atriði væri fyrir hendi, vegna þess að þetta er í frv. alger forsenda fyrir því, að okkur er ætlað að samþykkja lengda skólaskyldu á Íslandi.