26.10.1972
Sameinað þing: 9. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

20. mál, vistheimili fyrir vangefna

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Till. sú um vistheimili fyrir vangefna, sem hér liggur nú fyrir til umr., var einnig flutt á síðasta þingi, en varð þá eigi útrædd. Tillgr. hljóðar svo: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því í samráði við Styrktarfélag vangefinna, að komið verði upp vistheimilum fyrir vangefna í þeim landshlutum, þar sem slík heimili eru ekki til nú.“

Ég vil í flestu styðjast við framsögu mína um mál þetta frá því í fyrra, enda er um óbreyttar aðstæður að ræða að langmestu leyti, en stytta þó mál mitt eins og kostur er.

Í grg. með till, okkar er rakið að nokkru leyti, hvernig staða þessara mála er í dag og ástæðurnar fyrir tillöguflutningnum. Við gerum okkur fullljóst, að hér eru og verða á margir erfiðleikar, og að sumum vikjum við í grg. Eins mætti spyrja að því, hvers vegna vangefnir eru teknir sérstaklega fyrir og stofnana óskað fyrir þá úti í landsfjórðungunum, en ekki fyrir einhverja aðra, sem hart verða úti í samfélaginu, ef ekki er beitt öllum tiltækum ráðum? Satt er það að vísu, að víða er þörf á úrbótum, en tvennt veldur tillöguflutningnum öðru fremur. Annars vegar mundu fleiri njóta nauðsynlegrar umönnunar, því að á því leikur enginn vafi, að foreldrar senda börn sín hiklaust frekar á slík heimili heima í fjórðungnum en t.d. hingað suður. Hin ástæðan er sú fullvissa okkar, að hin nauðsynlegu tengsl milli vistfólks og aðstandenda þeirra verði betur tryggð með vistheimilum í fjórðungunum og leyfum okkur að vitna til reynslu Norðlendinga af sínu ágæta heimíli, Sólborg á Akureyri, en þar er að miklu leyti um þeirra eigið framtak að ræða. Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum, hversu skilningur manna á þessum málum hefur aukizt á síðustu árum, og margt hefur í raun og veru verið gert til þess að gera þessu fólki lífið bærilegra.

Í framsögu á síðasta þingi rakti ég nákvæmlega flest það, sem unnið hefur verið á undanförnum áratugum til hjálpar hinum vangefnu, og ég læt nægja að vísa til þess, sem þá var sagt. Ég minni hins vegar á það, að vistmannafjöldi heimilanna í dag mun vera nálægt 320 og vantar þar af leiðandi töluvert mikið á það, að allt það fólk, sem talið er þurfa á slíkri aðstoð að halda, geti átt kost á hælisvist. Varðandi hin einstöku heimili, þá vil ég taka það fram sem mína skoðun, án þess að um hið minnsta vantraust sé að ræða eða á nokkurn hallað, að ríkið þarf hér að hafa sterka yfirumsjón, og móta í samráði við Styrktarfélag vangefinna starfsemi allra vistheimilanna, svo að tryggt sé, að þau búi við sem jafnasta aðstöðu og geti veitt vistfólkinu sem fullkomnasta aðstoð. Þó að hér geti framtak einstakra aðila komið að liði, þá þurfa menntamála- og heilbrigðisyfirvöld að vera hér hinn ráðandi aðili, enda stefnir öll þróun í þá átt.

Við flm. teljum ótvírætt, að frekari dreifing og uppbygging vistheimila verði hér til að koma. Það er sérstaklega vistheimilið Sólborg á Akureyri, sem opnað hefur augu manna fyrir þörfinni í öðrum landshlutum, þar sem engin slík heimili eru, og ennfremur fyrir réttmæti þess að reisa þessi heimili einnig þar. Sólborgarheimilið hefur, að því er ég bezt veit, haft ágætum starfskröftum á að skipa, og það hefur stöðugt verið fullskipað vistfólki úr fjórðungnum og reynt eftir megni að leysa einnig annarra vandkvæði.

Helztu mótbárurnar, sem fram koma gegn þeirri hugmynd, sem hér er hreyft, lúta einmitt að þessu tvennu, annars vegar að nægilega gott starfslið fengist ekki og hins vegar væri tæplega um að ræða þann fjölda vistfólks í þessum fjórðungum, að mögulegt væri að reka heimili þessi af fullri reisn. Allir þekkja þær öflugu mótbárur, sem heyrast í sífellu hverju sinni, sem einhverja stofnun á að færa út á landsbyggðina. Við flm. till. viljum hiklaust andmæla öllum mótbárum gegn þessu. Við teljum, að það eigi að vera skylda ríkisins að dreifa stofnunum út um landsbyggðina. Það er eins sjálfsagt og dreifing verðmætasköpunarinnar, sem okkar þjóðfélag byggist á.

Ég vitnaði bæði í fyrra og eins nú til Sólborgar á Akureyri, og því sárara þótti mér að heyra það nú í sumar, að starfsfólk Sólborgar hefði talið frekari dreifingu vistheimila óraunhæfa. Það var talið nær að efla enn frekar stofnunina á Akureyri, og ekki skal ég úr því draga. Þetta er aðeins sönnun þess, að það vill oft verða svo, að um leið og einhverra vandi er leystur, þá gleymist hinum sömu vandi annarra. Einnig hér syðra hef ég rekizt á sams konar vantrú hjá einstaka forsvarsmanni þessara mála. Því hefur jafnvel verið haldið fram, að ekkert starfsfólk mundi fást til slíkrar stofnunar úti á landsbyggðinni, á sama tíma og ekki er hægt að veita líkt því öllum námsaðstöðu við þroskaþjálfaskólann, sem um það sækja. Mér þykir hins vegar meira um vert, hve ágætar undirtektir þetta mál hefur fengið hjá þeim, sem kunna glögg skil á vandanum, m.a. hv. þm. Oddi Ólafssyni, sem studdi þetta mál drengilega í ræðu á síðasta þingi.

Ég ætla mér ekki að fara að víkja að vandamálum hinna vangefnu yfirleitt, en vil aðeins benda á það, að samkv. því, sem sálfræðingar og aðrir fróðir menn í þessum efnum telja, þá mun um 1% af fólki teljast vangefið að einhverju leyti. Af þeim fjölda, þ.e. rúmlega 2 þús. miðað við okkar íbúatölu, þá er talið, að um helmingur eða um 1 þús. þurfi aldrei á verulegri séraðstoð að halda, heldur aðeins á sérstakri hjálp, t.d. við allt nám. Hinn helmingurinn er svo talinn þurfa á ýmiss konar félagslegri aðstoð að halda, og þar af þurfi helmingur þess fólks að dveljast á einhvers konar hælum, eða um 500. Þetta eru að vísu að miklu leyti ágizkunartölur, en þetta eru háar tölur, einkanlega þegar þær eru skoðaðar í ljósi þess, hver vistmannafjöldi allra slíkra stofnana er í dag, sem mun vera, eins og ég sagði áðan, nálægt 320. Mismunurinn er svo augljós, að þessar tölur ættu ekki að vera til hindrunar á því, að till. okkar yrði rækilega athuguð og þörfin á þessum heimilum fullkönnuð.

Ég ætla heldur ekki að ræða ýtarlega um það, hver nauðsyn er talin á eðlilegum tengslum aðstanda við vistfólk, einkanlega fyrstu mánuðina. Það hygg ég að teljist nokkuð auðskilið mál.

Það er spurning, sem margir þeir, er um þessi mál hafa fjallað, hafa reynt að svara, hvort hin vangefnu börn eigi að vera heima eða ekki, þ.e. þau, sem aðeins teljast vanvitar. Við þessu virðast engin algild svör, en það er ljóst, að mikill fjöldi þeirra þarf af ýmsum ástæðum á séraðstoð að halda. Ég held, að það hljóti að verða framtíðarskipulag þessara mála, að út frá slíkum vistheimilum þróist alls konar hjálp og leiðbeiningar og sérfræðileg aðstoð við skóla og einstök heimili. Með því eykst gildi þeirra og þýðing enn frekar. Ég þekki vel til þeirrar tilfinningar, sem skólamaður um tveggja áratuga skeið, að hafa staðið vanmegna í viðleitninni til að hjálpa því fólki, sem erfiðast hefur átt. Og sú ósk er ekki ný í mínum huga, að þetta fólk ætti kost betri umönnunar, aukinnar þjálfunar hugar og handar, í stuttu máli sagt, þeirrar hælisvistar, sem hér er fram á farið, að veitt verði í landsfjórðungunum, eða þá sérstakrar aðstoðar annarrar, ef þörf krefði. Ég veit það, að það muni ekki standa á samtökum fólks heima fyrir að vinna ötullega að þessum málum, ef á þau kæmist hreyfing af hálfu ríkísvaldsins. Á þann stuðning og það frumkvæði er treyst, og í þá veru hnígur þessi tillögugerð. Auðvitað hlýtur það að verða kannað rækilega, hverjir möguleikar eru á rekstri slíkra heimila og hver þörfin er í heild sinni. Við flm. erum þess hins vegar fullvissir, að einmitt rækileg könnun þessara mála leiði bezt í ljós réttmæti þessa tillöguflutnings, og því skal þá treysta, að till. fái jákvæða afgreiðslu hér á Alþ. og farsæl framkvæmd fylgi á eftir.

Herra forseti. Ég vil svo að lokum leggja til, að máli þessu verði vísað til allshn.