01.03.1973
Sameinað þing: 52. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2217 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera ekki mjög langorður. Ég vil aðeins segja, að það er alveg augljós skýring á þessum hækkunum, sem hefur orðið á landbúnaðarvörum. Það er dýrtíðin og verðbólguskrúfan. Bændur búa við sama verðgrundvöll og lagður var 1970, með samkomulagi 1. sept. það haust. Sá grundvöllur átti að gilda í tvö ár og endurskoðast 1. sept. s. l. En þegar brbl. voru gefin út á s. l. sumri, létu bændur það gott heita ásamt launastéttunum. Brbl. giltu til síðustu áramóta, en bændur hafa beðið með þögn og þolinmæði til 1. þ. m. Verðlagið hefur verið reiknað út og verðbólguskriðan, sem orðið hefur vegna stjórnleysis í landinu, veldur þessum miklu hækkunum, það er augljóst mál. Það er vísitöluskrúfan og stjórnleysið í landinu, sem þessu veldur. Ég er alveg viss um, að hv. 7. þm. Reykv. áttar sig á því. Það lítur ekki vel út í dag með efnahags- og atvinnumál. Fróður maður hefur reiknað út, að fjárlög fyrir næsta ár muni verða a. m. k. 30–32 milljarðar, 30–32 þús. millj. kr., ef svo stefnir áfram eins og nú. En það eru margir, sem spyrja að því, hvort hægt verði að innheimta þá upphæð á árinu 1974. Þetta verður, ef óbreytt stjórnarástand verður í landinu.

Það er enginn vafi á því, að búvörurnar eiga eftir að hækka aftur. Menn hafa gert sér grein fyrir því, hver vísitalan verður 1. júní n. k. Þá kemur nýtt verð á búvörurnar. Menn hafa einnig íhugað, hver vísitalan verður 1. sept. n. k. Þá kemur einnig nýtt verð á búvörur. Og menn hafa nokkurn veginn reiknað með því, hver vísitalan verður 1. des. n. k. Þá kemur einnig nýtt verð á búvörur. Þetta skeður vegna þess, að verið er að leitast við að láta bændur hafa svipuð kjör og aðrar stéttir í landinu. Búvöruverðshækkunin kemur aldrei nema samhliða eða á eftir. Það er óstjórn og hömluleysi í verðlagsmálum og dýrtíðarmálum, sem veldur þessu verði á búvörum. Og það er ekki gott til þess að hugsa, ef við eigum að búa áfram við þetta ástand í landinu. En sem betur fer hafa einstöku hæstv. ráðh. gert sér grein fyrir því, hvert stefnir, og það gefur vonir um, að breyting verði á stjórn í landinu.