01.03.1973
Sameinað þing: 52. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2217 í B-deild Alþingistíðinda. (1744)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Þetta er ekki rétt, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að þegar ég var ráðh., hafi bændur alltaf þurft að bíða í 3 mánuði eftir verðhækkunum. En þeir urðu aldrei að bíða í 6 mánuði eins og nú, því að það eru 6 mánuðir frá 1. sept. til 1. marz. En 1. sept. átti að endurskoða verðgrundvöllinn, og þá áttu þeir að fá hækkanir, sem þeir eru nú fyrst að fá. Hæstv. ráðh. hlýtur að átta sig á þessu, en það hefur ekki skeð áður.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði viljað landbúnaðinum vel. Ég held, að hann hafi meint þetta, þegar hann sagði það. Ég hef aldrei gert aths. við það, ekki heldur hitt, þegar hann sagði, að stefna okkar væri nokkuð ólík, vegna þess að við værum sinn í hvorum flokki, hann væri félagshyggjumaður, en ég einstaklingshyggjumaður. Í orðunum lá, að hann hugsaði aldrei um sjálfan sig, heldur alltaf um aðra, en ég hugsaði fyrst og fremst um sjálfan mig og væri miklu eigingjarnari en hann. Þannig lá í orðunum. En það verður erfitt að koma með mælikvarða, sem sannar þetta, svo að ég ætla ekki að reyna það. Ég ætla ekki að þessu leyti að bera af mér sakir.