01.03.1973
Neðri deild: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2226 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

146. mál, skólakerfi

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. Hæstv. ráðh. svaraði fsp. frá mér um það, hvort farið hefði fram könnun á því, af hvaða ástæðum umrædd 18% unglinga kæmu ekki í þann bekk, sem verða mun 9. bekkur grunnskóla, ef það frv., sem hér er til umr., verður að lögum. Hann sagði í svari sínu, að ég hefði átt að vita, að þessi könnun hefði ekki farið fram, sem ég spurði um, þ. e. a. s. hvort vitað væri, hverjar ástæðurnar væru, t. d. hvort um námshæfniskort væri að ræða, hvort aðstöðu skorti í strjálbýlinu, t. d. skólakostur væri ekki nægur, eða efni fólks væru ekki næg o. s. frv. Ég varð svolítið undrandi, þegar hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði átt að vita, að slík könnun hefði ekki farið fram. Mér finnst einmitt efni standa til þess, að hún hefði átt að fara fram, miðað við þann mikla undirbúning, sem þetta frv. hefur hlotið, og eitt veigamesta atriðið í því er einmitt að finna lausn á vanda þessara 18% unglinga. Þá hefði hv. Alþ. og hæstv. ráðh, raunar einnig þurft að vita gjörla um það, hvernig högum þessa ákveðna hóps væri háttað, til þess að geta gert raunsæjar till. um úrbætur. Af þessum sökum hélt ég e. t. v., að þessi könnun hefði verið gerð, þó að hún kæmi ekki fram í grg. frv.

Ég segi fyrir mig, eins og hæstv. ráðh. raunar benti á í ræðu sinni, að það eru margar ástæður fyrir þessu og lenging skólaskyldunnar ein getur ekki komið hér að fullu gagni, t. d. þar sem vantar alla aðstöðu til að fullnægja þessari skyldu. Það kann að vera, að einmitt aðgerðir í þeim efnum gætu einar sér valdið því, að verulegur hluti af þessu unga fólki nyti skólanáms. Þyrfti þá ekki þessi umdeilda lenging skólaskyldunnar að koma til. Það var þetta, sem ég átti við: Erum við með þessu ákvæði að framkvæma það markmið, sem við öll stefnum að? Gætum við ekki gert það á einhvern annan heppilegri hátt? Það var þetta, sem ég átti við með því, að heppilegra hefði verið, að fyrir lægi vitneskja um, af hvaða ástæðum þetta unga fólk kemur ekki til náms.

Ég vildi aðeins undirstrika, hvað ég átti við með orðum mínum. Ég var ekki að fara með neinn skæting í garð hæstv. ráðh., síður en svo. En mér virtist á svari hans, að hann hefði tekið orð mín sem slík, þar sem hann sagði, að ég hefði átt að vita betur og ég hefði átt að vita, að þessi könnun hefði ekki farið fram. Það er misskilningur, og ég vænti þess, að hann leiðréttist hér með.

Ég ætla ekki á þessu stigi að fara að lengja þessar umr., sem eru orðnar alllangar, og læt þetta nægja að sinni.