01.03.1973
Neðri deild: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2229 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

146. mál, skólakerfi

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég hef fyrr í þessum umr. sett fram skoðanir mínar á ýmsu því, sem fram kemur í frv. til l. um grunnskóla, og mun ekki endurtaka það. Það, sem veldur því, að ég tek aftur til máls við þessa umr., eru ummæli hæstv. ráðh. og nokkur önnur ummæli, sem fallið hafa hér einkum varðandi vinnubrögð í þessu máli.

Þó vildi ég fyrst segja, að ég varð fyrir vonbrigðum með afstöðu hæstv. ráðh. til þeirra skoðana eða ummæla, sem ég hafði viðhaft um frv. Ég taldi mig hafa gert grein fyrir efnislegum hugmyndum mínum um eitt og annað í grunnskólafrv. og átti ekki von á því, að það hefði gefið tilefni til þess beinlínis að snúa út úr. Ég hafði t. d. ekki gert því skóna, að þetta frv. leiddi til byltingar hér hjá okkur Íslendingum. Það er einhver misskilningur. Hins vegar er rétt, að ég lagði á það áherzlu, að ekki mætti skilja þetta frv. svo, að það væri bylting á því skólakerfi, sem við höfum nú. Ég taldi eðlilegra, að við þm. og aðrir litum á frv. sem eðlilegt framhald á gildandi fræðslulöggjöf. Ég heyri, að hæstv. ráðh. og þeir nm., sem ég hafði í huga og vitnaði til, hafa sama skilning á þessu og ég og þykir mér að sjálfsögðu vænt um það. Ég held, að það sé grundvallaratriði, að við lítum á þetta frv, sem eðlilegt framhald á því skólakerfi og þeirri fræðslulöggjöf, sem við höfum nú, og því sé samþykkt þessa frv. í einu eða öðru formi miklu líklegri til árangurs, bæði meðal kennara og nemenda og í þjóðfélaginu í heild.

Ég gagnrýndi nokkuð vinnubrögðin í þessu máli og taldi í því sambandi, að það hefði verið að einhverju leyti tekið fram fyrir hendur þn., en ekki var ég að segja um leið, að ekki mætti kynna málið fyrir þeim aðilum, sem þyrftu að framkvæma þá löggjöf, sem verið væri að undirbúa. Þessu var svarað með þeim hætti að segja, að þm. hefðu vel getað mætt á þeim fundum, sem boðaðir hafa verið af grunnskólanefnd. Ég veit ekki, hver skilningur hæstv. ráðh. er á störfum okkar þm., en auðvitað get ég ekki tekið það sem afgerandi og endanlegt svar, að við hefðum allra náðarsamlegast getað mætt á fundum, sem aðrir aðilar hafa boðað til. hað er nú einu sinni svo, að menn eru misjafnlega uppteknir, og það má nefna það, að einmitt í dag er verið að halda ráðstefnu um grunnskólafrv. á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga, og það er erfitt að vera á tveim stöðum í einu. Enda þótt ég hafi a. m. k. gert tilraun til að líta þar við, get ég ekki sótt þann fund eins og hugur minn hefði ella staðið til. Með þessu er ég að segja, að það hlýtur vitaskuld að vera verkefni okkar þm., sem fáum þetta mál til meðferðar, að skoða það alveg frá upphafi og rækilega, en taka ekki einungis mark á fundum, sem haldnir eru af öðrum aðilum.

Grunnskólanefnd mun hafa haldið um 17 fundi, eftir því sem mér skilst, og enda þótt ég sé síður en svo að gagnrýna þau vinnubrögð, þá hafa þeir fundir að sjálfsögðu farið fram í aðalatriðum á þann veg, að n. situr og kynnir frv. og síðan koma fram fsp., aths. eða gagnrýni, og þá standa nm. aftur upp og setja fram sín svör við þessum aths., benda á skilning sinn á frv. og í allmörgum tilfellum beinlínis vísa aths. á bug, enda kemur í ljós, að þegar þetta frv. er nú lagt fram eftir öll þessi fundarhöld, þá eru sárafá atriði, sem hafa verið tekin til endurskoðunar. Ég hefði haldið, að hlutlaus aðili eins og þm. eða þingnefndir hefðu jafnvel verið dómbærari á það, hvort þessar aths. skyldu teknar til greina eða ekki. N., sem undirbjó frv., er ekki hlutlaus aðili, og enda þótt hún starfi að sjálfsögðu að þessu með góðum hug og einlægum vilja, hefði þm. að mínu áliti betur getað lagt dóm á þessar aths., og ég er þeirrar skoðunar, að þá hefði ýmislegt komið inn í frv. við þessa frumathugun.

Nú er mér kunnugt um, að á þeim fundum, sem haldnir hafa verið, t. d. þeim, sem ég hef sótt, — þ. e. a. s. ráðstefnu kennara, barnakennara og gagnfræðaskólakennara, og annarra aðila, sem haldin var hér fyrir hálfum mánuði, þar voru settar fram fjölmargar aths. Á þessari ráðstefnu, sem er haldin þessa dagana á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga, komu og fram margvíslegar aths., og að sjálfsögðu verður þn. að taka allt þetta til athugunar og skoða það ofan í kjölinn.

Ég leit ekki svo á, að Alþ. ætti að vera afgreiðslustofnun, ég var ekki að fullyrða um það. Ég var hins vegar að benda á, að ef gert er ráð fyrir, að þetta frv. verði afgreitt á þessu þingi á þeim tiltölulega stutta tíma, sem nú er eftir af þinginu, þá hljóta þeir aðilar, sem þess krefjast, að líta svo á, að við eigum nær eingöngu að afgreiða málið nokkuð hugsunarlaust frá þinginu. Ef þn. vinnur starf sitt eins og lög gera ráð fyrir, kallar inn umsagnir og hefur viðræður við umsagnaraðila, skiptist á skoðunum um ýmis atriði í frv. og gerjar með sér þau mörgu sjónarmið, sem fram hafa komið nú þegar í þessum umr., þá er ljóst, að það tekur lengri tíma en svo, að hægt sé að afgreiða málið frá þingi á þessum vetri. Ef það verður ekki gert, ef frv. verður ekki afgreitt frá þessu þingi, sem nú stendur yfir, segi ég að sjálfsögðu ekki, að við séum afgreiðslustofnun. En ég vil af þessu tilefni, af því að hæstv. ráðh. vísaði þessum ummælum mínum á bug, minna á það, að fyrrv. stjórnarandstaða marglét í ljós óánægju sína með þau vinnubrögð, sem viðhöfð voru af fyrrv. stjórnvöldum, að leggja inn á þingið fullbúin frv. og gera kröfu til þess, að þau yrðu samþ. með mjög stuttum fyrirvara, á mjög stuttum tíma. Ég skal játa, að mér fannst mikið til í þessari gagnrýni, og hún átti ekki sérstaklega við um síðustu ríkisstj. Þessi gagnrýni hefur átt rétt á sér um langan tíma. Hún átti rétt á sér, þegar síðasta ríkisstj. sat, og hún virðist eiga enn rétt á sér, þegar núv. hæstv. ríkisstj. situr og starfar. Ég held sem sagt, að það sé áríðandi og mikilvægt fyrir þingið sem slíkt, að það fái tíma til að skoða málin, ég tala ekki um svo viðamikið mál sem hér eru á ferðinni.

Hæstv. ráðh. vísaði líka á bug þeim ummælum mínum, að hætta væri á því, að það fólk, sem gengi námsveginn og héldi í framhaldsskólanám og langskólanám, einangraðist frá atvinnulífi og frá öðrum stéttum í þjóðfélaginu. Og ég var af öðrum þm., hv. 4. landsk. þm., ásakaður um að vera fullrómantískur, þegar ég viðhafði þessi ummæli mín eða var að varpa þessu fram. Ég tek það frekar sem meðmæli en hitt, ef ég er af hv. 4. landsk. talinn rómantískur. En ég get ekki neitað því, að það er skoðun mín, að ef við lengjum skólaskylduna, lengjum skólaárið, þannig að börn og unglingar eru tiltölulega stuttan tíma í beinum tengslum við atvinnulífið t. d., þá er óneitanlega hætta á því, að þau hafi ekki nægilegan skilning á atvinnuháttum og þjóðlífinu almennt, þau einangrist í sínu námi, hversu gott sem það er. Og jafnframt námsleiða, skólaþreytu, sem hætta er á, þá er óneitanlega ástæða til að halda, að unglingarnir, þegar þeir eldast, verði yfirstétt, viss stétt akademíkara, embættismanna og sérfræðinga. Um þetta má deila að sjálfsögðu. Þetta er mín skoðun. Ég er ekki að segja, að það verði svona, en vissulega hefur þróunin orðið í þessa átt víða, þar sem við þekkjum, og ég held, að við Íslendingar eigum að koma í veg fyrir þetta og búa svo um hnútana og ganga svo frá okkar fræðslulöggjöf, að hún stuðli ekki beinlínis að þessari þróun.

Þetta eru kannske meira og minna aukaatriði, sem snerta ekki sjálfa efnisþætti frv. En ég vildi koma þessu aftur á framfæri til þess að leiðrétta misskilning, sem kom fram á mínum fyrri ummælum, og svara um leið þeim athugasemdum, sem kom fram um þau. Hins vegar finnst mér nokkuð á skorta, að hæstv. ráðh. hafi fjallað nægilega um þau atriði, sem bent var hér á, að miður gætu farið í þessu frv., m. a. ýmislegt, sem kom fram í minni fyrri ræðu, en ég læt þetta nægja, hvað það snertir.

Ég held þó, að það hafi komið fram í þessum umr., að það eru vissar efasemdir hjá stórum hópi þm. um sérstaklega tvö atriði, sem vissulega skipta miklu máli, jafnvel mestu máli, þ. e. a. s. lengingu skólaskyldunnar og lengingu skólaársins. Það kom líka fram í bréfi eða umsögn frá konum í Borgarfirði, að þær hefðu vissar efasemdir um það að lengja bæði skólaárið og skólaskylduna, eftir því sem mér skildist, og skoðanir kvenna í Borgarfirði eru að sjálfsögðu ekkert verri en hverra annarra. Jafnvel er gott að hlusta eftir slíkum skoðunum, því sem kemur frá fólkinu sjálfu, og við þm. eigum vissulega að temja okkur að taka mið af því, sem fólkið sjálft hugsar um þessi mál.

Nú er það svo, að margt í þessu frv., svo sem ég hef reyndar tekið fram áður, eru mjög athyglisverð nýmæli, sem ég tel æskilegt, að nái fram að ganga. Hins vegar ef svo fer hér á þingi, að þessi lenging á skólaskyldunni, sem gert er ráð fyrir, og lengingin á skólaárinu nær ekki fram að ganga, þá er spurningin, hvort það sé áhugi á því hjá grunnskólanefnd og hæstv. ráðh., að frv. verði samþ. þrátt fyrir það. Hver er afstaða hæstv. ráðh. til þess, ef það lægi fyrir annaðhvort í þn. eða hér hjá þingheimi, að það hefði ekki stuðning meiri hl. þingsins að lengja skólaskylduna? Mér finnst vera nauðsynlegt að fá einhver svör við þessu, ekki endilega núna, en að það liggi fyrir, hver afstaða yfirvalda er hvað þetta snertir. Skoðun mín er sú, að við gætum vissulega haldið áfram og samþ. þetta frv., hvort sem það verður á þessum vetri eða næsta, þrátt fyrir það, að ekki sé jafnframt samþ. lenging skólaskyldunnar og, skólaársins. Nú má vel vera, að þetta sé misskilningur hjá mér, það sé forsenda allra breytinganna, að þetta sé jafnframt framkvæmt. Þó hygg ég svo ekki vera. En það hlýtur að vera heppilegt og æskilegt fyrir þá n., sem fær málið til meðferðar, að hafa eitthvert veganesti, hafa eitthvert hugboð um það, hvaða skoðun hæstv. ráðh. hefur á þessu ákveðna atriði.