01.03.1973
Neðri deild: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2243 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Þegar frv. um heilsugæzlu var til umr. á hv. Alþ. á fyrra ári, það var síðla þings 1972, gerði ég allítarlega grein fyrir frv., eins og það lá fyrir. Ég tel ekki ástæðu til að fara að ræða heilbrigðismálin almennt aftur, en vildi aðeins gera aths. við frv., aðallega þar, sem snertir Suðurlandskjördæmi.

Ég lýsti því yfir, þegar þetta mál var til umr. hér áður, að við þm. Sunnl. mundum vilja nota sumarið til að kynna okkur hugi fólksins í kjördæminu, hvað væri við fyrra frv. að athuga og hvaða till. það hefði fram að færa til bóta. Ég sé, að það hefur í tveimur tilfellum verið farið eftir óskum Sunnlendinga, þ. e. með því að ákveða, að það skuli vera sérstakur héraðslæknir á Kirkjubæjarklaustri, en það var ekki í fyrra frv., og að það verði tveir læknar í Laugarási, heilsugæzlustöð II, enda er þegar búið að byggja þar tvo læknisbústaði, svo að það liggur nokkuð beint við, að svo verði. Læknishéraðið er líka fjölmennt, líklega nærri 3 þús. manns. En það er eftir ósk íbúa ofanverðrar Árnessýslu, að þarna verði 2 læknar. Að öðru leyti hefur ekkert verið farið eftir óskum Sunnlendinga í þessu efni.

Eitt atriði finnst mér alveg sérstaklega eftirtektarvert, og það er, að gert er ráð fyrir, að héraðslæknir Suður- og Vesturlandshéraðs sitji í Hafnarfirði, það verði aðeins einn héraðslæknir fyrir þetta víðáttumikla svæði frá Skeiðarársandi og vestur í Kollafjörð á Barðaströnd. Maður skyldi ætla, að þarna lægi sparnaðarhugsun að baki, en ég held tæplega, að svo geti verið. En ef það ætti að lögfesta frv. með þessu ákvæði, þá hygg ég, að heppilegra væri, að héraðslæknirinn sæti í Reykjavík. Það væri a. m. k. miklu hægara fyrir Sunnlendinga og íbúa Vesturlands að hitta lækninn í Reykjavík en að gera sér sérstaka ferð til Hafnarfjarðar. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. heilbrmrh. sé mjög til viðtals um að breyta þessu í fyrra form, og mér finnst eðlilegt, að héraðslæknar séu jafnmargir og kjördæmin, það verði byggð upp heilsugæzlustöð í kringum héraðslækninn. Það er þá þáttur í því að dreifa stofnunum út á land, en ekki eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég veit, að Sunnlendingar leggja mikið upp úr því, að héraðslæknirinn verði í kjördæminu, og við teljum, að hann verði bezt settur á Selfossi, eins og lagt var til í hinu fyrra frv.

Vestur-Skaftfellingar eru ekki ánægðir með frv. eins og það er, enda þótt gert sé ráð fyrir lækni á Kirkjubæjarklaustri. Það kom sendinefnd á fund okkar þm. og þeir óska eindregið eftir því, að heilsugæzlustöð II verði í Vík með tveim læknum og þriðji læknirinn á Kirkjubæjarklaustri. Þeir hafa rökstutt þessa till. sína skriflega, og mun hæstv. heilbrrh. og sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, fá till. þeirra.

Sama máli gegnir um Rangæinga, þeir eru ekki ánægðir með frv. eins og það er. Þeir voru ekki heldur ánægðir með það eins og það var. Við kynntum okkur það, að íbúar læknishéraðsins á Stórólfshvoli vildu ekki missa sinn héraðslækni. Á sýslufundi sýslunefndar Rangárvallasýslu á s. l. sumri var gerð einróma samþykkt um, að það yrðu tveir læknar hið minnsta í Rangárvallasýslu og þeir sætu þar sem þeir nú eru. Ég hef einnig afrit af þessari fundargerð og mun gera ráðstafanir til þess, að heilbrrh. og n. fái það til athugunar. Allir oddvitar í Hellulæknishéraði hafa sent frá sér samþykkt um, að þeir vilji ekki undir neinum kringumstæðum missa lækninn.

Einnig hef ég fengið mótmæli frá hreppsnefnd Hveragerðishrepps, sem er algerlega mótfallin því, að læknirinn verði tekinn af þeim og sitji á Selfossi. Það má segja, að það sé svo mikið margmenni á Selfossi og í sveitunum næst Selfossi, að sjálfsagt sé, að þar verði heilsugæzlustöð af fullkomnustu gerð, enda þótt læknar séu annars staðar í neðanverðri Arnessýslu, eins og í Hveragerði. Þar eru um 900 íbúar. Svo er Þorlákshöfn og Ölfushreppur allur, þannig að það er hátt á annað þús. íbúa í þessu læknishéraði. Það sýnist því vera alveg fráleitt að taka lækninn af þeim og gera þeim skylt að fara að Selfossi til að vitja læknis.

Ég hef ekki enn fengið skrifleg mótmæli frá Stokkseyri og Eyrarbakka, en báðir oddvitarnir á Stokkseyri og Eyrarbakka hafa hringt til mín og sagt, að þeir mundu senda mótmæli gegn því, að læknirinn yrði tekinn af þeim. Það má segja, að það séu ekki nema 12 km frá Stokkseyri og Eyrarbakka til Selfoss, en eigi að síður verður dýrara fyrir íbúa Stokkseyrar og Eyrarbakka að sækja alltaf lækni að Selfossi en hafa hann á næstu grösum, eins og verið hefur, og íbúar Stokkseyrar og Eyrarbakka telja, að það sé stigið spor aftur á bak með því að taka læknirinn af þeim.

Ég efast ekki um, að tilgangur þessa frv. sé að bæta þjónustuna við fólkið, það sé höfuðtilgangurinn. Það er enginn vafi á því, að bæði hæstv. ráðh. og alþm. vilja hafa vilja fólksins í aðalafriðum að leiðarljósi í þessu efni, a. m. k. svo lengi sem vilji almennings gengur ekki í þá átt að torvelda, að læknisþjónustan geti orðið góð. Það gæti vitanlega komið fyrir, að það væru gerðar slíkar kröfur, sem ekki væri sanngjarnt að uppfylla, og gæti leitt til þess, að þjónustan yrði í ranninni verri. En því er ekki til að dreifa í sambandi við þær aths., sem ég hef lýst frá mörgum í Suðurlandskjördæmi.

Það er sagt í grg. frv., að það hafi verið farið eftir vilja og óskum þm. og ráðamanna í héruðunum í sambandi við þær breytingar, sem gerðar hafa verið. En það er ekki nema að nokkru leyti, sem þær óskir hafa verið teknar til greina, Því hefur verið haldið fram, að það væri hægara að fá lækna, ef þeir gætu unnið tveir saman, en í einmenningshéruð. Það má vel vera, að þessu sé þannig varið, þar sem langt er á milli lækna og erfiðar samgöngur. En þessu er ekki til að dreifa á Suðurlandi. Ég held, að það efist enginn um, að læknir muni sækja um Hveragerði, ef það losnaði, enda stóð ekkert á því, þegar þar var skipt um lækni fyrir einu ári. Ég held, að það efist enginn um, að það sæki læknir um Helluhérað og Stórólfshvolshérað, þótt þar yrðu einmenningshéruð áfram, t. d. með heilsugæzlustöð I, vegna þess að samgöngur eru yfirleitt góðar á Suðurlandi og tiltölulega stutt á milli læknanna., þannig að þeir geta vel unnið saman, eins og þeir hafa gert, læknirinn á Stórólfshvoli og læknirinn á Hellu. Þeir hafa unnið mjög vel saman, og hefur ekki borið á því, að þeir hafi óskað eftir breytingum.

Það má vel vera, að það verði erfitt að fá lækni að Kirkjubæjarklaustri. Það hefur reynzt svo vegna þess, hversu langt er til Klausturs, og það er yfir Mýrdalssand að fara. En einmitt vegna þess, að það er yfir Mýrdalssand að fara, er enn nauðsynlegra að hafa lækni á Kirkjubæjarklaustri. Þegar hringvegurinn kemur, verða sveitirnar austan Mýrdalssands ekki eins einangraðar og þær hafa verið til þessa, og þá er mjög líklegt, að ekki verði fyrirstaða á því að fá lækni til þess að setjast að á Kirkjubæjarklaustri. Ég vil einnig vekja athygli á því, að um leið og brú kemur yfir sandana munu Öræfingar og fleiri íbúar Austur-Skaftafellssýslu sækja lækni að Klaustri frekar en til Hornafjarðar, vegna þess að vegalengdin til Klausturs er miklu styttri en austur í Hornafjörð. Það er þess vegna ekki einhlítt að fullyrða, að nauðsynlegt sé að hafa 3 menn saman, til þess að læknar fáist til að fara út í héruðin. Það eru fleiri ástæður, sem þar koma til.

Þetta frv. er yfirgripsmikið og ekki þarf að efa, að meiningin er góð með flutningi þess. Það er verið að leitast við að koma málum þannig fyrir, að hægt sé að bæta þjónustuna, að frekar sé hægt að fá lækna til að dvelja á hinum einangruðu og afskekktu stöðum með þessu fyrirkomulagi, sem frv. boðar, en við þá staðhætti, sem nú er búið við. Vonandi leysist vandinn að verulegu leyti með því að lögfesta frv. í þessu formi að mestu. En hætt er við, að ýmis ljón verði á veginum, þrátt fyrir að þetta frv. yrði í aðalatriðum að lögum. Það er vissulega mikið vandamál, hvernig leysa skuli læknamálin í strjálbýlinu, þar sem skilyrðin til samgangna eru erfiðust.

Ég heyrði á hæstv. heilbrrh. áðan, áður en hann fór að tala fyrir frv., að hann væri út af fyrir sig til viðræðu um ýmsar breytingar á frv. Ég tel þess vegna síður ástæðu til að fara allítarlega út í ýmsar gr. frv. nú við 1. umr. Ég mun hins vegar og við þm. Sunnl. senda bæði rn. og n., sem frv. fær, bréf, þar sem við túlkum okkar skoðun, ásamt fskj. og þeim mótmælum, sem ég áðan minntist á, frá hinum ýmsu héruðum. Þess vegna tel ég, herra forseti, ekki ástæðu til að svo stöddu að fara fleiri orðum um málið. En það eru vissulega fleiri atriði í frv., sem þurfa athugunar við. Ég get vel tekið undir það, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að það er að ýmsu leyti nauðsynlegt að lögfesta mörg ákvæði, sem í frv. eru, og að sjálfsögðu þau, sem sýnast vera óumdeilanlega til bóta og stuðla að því að bæta heilbrigðisþjónustuna, ekki sízt þar sem hún hefur verið erfiðust.