05.03.1973
Efri deild: 65. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2257 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

183. mál, lögreglustjóri í Hafnarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti.

Ég gat því miður ekki verið við hér síðasta miðvikudag, þegar mál þetta var tekið til 1. umr. Ég hafði beðið skrifstofuna hér að gera ráðstöfun til þess, að það yrði tekið út af dagskrá, en vegna misskilnings var það ekki gert og fór þá fram byrjun umr. Kemur ekki að sök, þó að ég héldi ekki þá framsöguræðu mína í málinu, því að með frv. fylgja árlegar athugasemdir, þar sem gerð er grein fyrir ástæðunum fyrir því, að það er flutt. Þar hef ég í sjálfu sér litlu við að bæta. Auk þess var málið rætt á síðasta fundi af kunnugum mönnum. Ég veit þess vegna, að hv. dm. hafa gert sér grein fyrir málinu, þó að þessi afturfótafæðing sé á, að ég flytji nú fyrst þá stuttu framsöguræðu, sem ég hafði ætlað að flytja á þingi.

Þær ástæður liggja til þess, að þetta frv. um lögreglustjóra í Hafnarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu er nú lagt fyrir Alþ., að síðustu ár hafa verið mjög vaxandi vandkvæði á því fyrir íbúa Austur-Skaftafellssýslu og þá alveg sérstaklega fyrir hið ört vaxandi athafnasvæði á Höfn í Hornafirði, að sýslumaður Skaftafellssýslu geti veitt þessum hluta umdæmis síns viðhlítandi þjónustu. Það er þó ekki af því, að hann hafi skort til þess vilja, heldur vegna þeirrar aðstöðu, sem þarna er fyrir hendi. Á undanförnum árum hafa verið gerðar um þetta fjölmargar fundarsamþykktir í Hafnarhreppi og raunar sýslunni allri.

Það er að sjálfsögðu ljóst, að frá almennu sjónarmiði ríkisheildarinnar er engan veginn æskilegt að fjölga umdæmum með skiptingu, þeim sem fjölmenn eru, og í fljótu bragði skoðað enn síður þeim fámennustu. Ef það yrði víða gert, mundi kostnaðurinn við embættakerfið aukast mjög verulega, og það mun engum þykja fýsilegt. Um hitt held ég, að vart geti verið ágreiningur, að í þessu tilfelli, sem hér er um að tefla, er um algera sérstöðu að ræða. Þó á verði komið hinu langþráða vegasambandi, sem vonazt er til, að nú sé ekki langt undan, verður aksturstími frá Vík til Hafnar allavega, að mér er tjáð, um 5 klst., en eins og kunnugt er verður sýslumaður nú að sinna störfum þar eystra með því að aka til Reykjavíkur og fljúga þaðan. Eftir sem áður verða áhorf um það, hvor leiðin sé fljótfarnari.

Síðustu árin hefur verið hugað að ýmsum leiðum til að bæta þjónustu frá Vík austur til Hafnar, svo sem með fjölgun ferða frá sýslumannsembættinu og með starfsemi sérstaks umboðsmanns til afgreiðslu. En það verður að viðurkenna, að þarfir Hafnarkauptúns vegna ört vaxandi umsvifa hafa vaxið hraðar en hinni auknu þjónustu nemur.

Hafnarhreppur er nú, eins og kunnugt er, fjölmennasti hreppur á austurhluta landsins, og þar var íbúatalan 1. des. s. l. orðin 1013 íbúar. Bendir allt til þess, sem mönnum er kunnugt, að þessi þróun muni halda áfram og athafnastarfsemi á þessum stað fara hraðvaxandi.

Eins og ég sagði áður, hafa ýmsar úrbótaleiðir verið athugaðar vegna þessa úrlausnarefnis, og hefur þá sérstaklega verið rætt um að skipta sýslunni í tvö umdæmi, þannig að sérstakur sýslumaður yrði fyrir austursýsluna með aðsetri þar. Einnig hefur verið mjög að því hugað, að löglærður fulltrúi sýslumanns hefði fast aðsetur á Höfn. En á þessu eru ýmsir annmarkar hað er t. d. augljóst, að ef sýslunni væri skipt með þessum hætti, sem ég drap á, yrði umdæmið, sem lyti undir sýslumanninn í Vík, helzt til lítið. Hér kemur það til eins og víða annars staðar, að menn verða að játa, að sú sýsluskipting og umdæmaskipting, sem við búum við nú, er orðin úrelt að mörgu leyti, og væri þörf á að gera þar á breytingar. Það er enginn vandi að draga línur á kortið, þannig að þetta kæmi allt miklu haganlegar út, en nú er. En sannleikurinn er sá, að menn eru æði fastskorðaðir í þessu gamla kerfi, og það mun reynast svo, að það verði ekki auðvelt að fá nýja skiptingu. En eitt af þeim verkefnum, sem réttarfarsnefnd eða dómstólanefnd, sem ég hef skipað, eru falin, er einmitt að athuga um, hvort það geti komið til greina ný umdæmaskipting og þessu breytt frá því, sem nú er. Auðvitað blasir það við, að frá almennu sjónarmiði væri ekki óeðlilegt að hugsa sér, að Austur-Skaftafellssýsla ásamt syðstu hreppum Suður-Múlasýslu væri sérstakt umdæmi með aðsetri sýslumanns á Höfn.

Viðvíkjandi því að hafa sérstakan fulltrúa sýslumannsins staðsettan þarna, hefur verið talið að athuguðu máli, að það væri ekki þægilegt að koma því skipulagi við, án þess að ég fari nánar út í það. Þess vegna hefur verið horfið að því ráði, sem hér liggur nú fyrir til ákvörðunar í þessu frv., þ. e. að setja sérstakan lögreglustjóra fyrir Hafnarkauptún og takmarka lögsögu lögreglustjórans við Hafnarhrepp, en fela honum þar hin víðtækustu verkefni, eins og rakið er í 2. gr. frv. Þótt af þeirri ástæðu, að þarna er um að ræða hrepp, en ekki kaupstað, sé talað um lögreglustjóra og hann beri það heiti, þá er í reyndinni svo, að þessum lögreglustjóra er ætlað að fara með þau verkefni, sem bæjarfógetar annars staðar hafa á hendi, og þess vegna er þessi fyrirhugaði lögreglustjóri að öllu leyti sambærilegur t. d. við lögreglustjórann í Bolungarvík, en þar er nú eftir hið eina af nokkrum lögreglustjóraembættum, sem á sínum tíma voru stofnuð, en hafa öll önnur síðar breytzt fyrir tímanna þróun í það að verða bæjarfógetaembætti.

Það má vel vera, að það þyki rétt við athugun í n. að takmarka eitthvað þessi verkefni. Ég hygg þó, að þetta sé eðlilegasti hátturinn og komi að beztum notum að gera ráð fyrir því, að þessi embættismaður komi þarna í reyndinni í stað bæjarfógeta. Þá er enn fremur rétt að taka það fram, að það ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu, að lögreglustjórinn á Höfn gæti í umboði sýslumanns í sýslunni annazt margháttuð fyrirgreiðslustörf fyrir íbúa austursýslunnar. Þar er um framkvæmdaratriði að ræða, sem ákveðið yrði ýmist með reglugerðarákvæðum eða samkomulagi embættismannanna.

Ég biðst svo, herra forseti, afsökunar á því, að ég skyldi ekki fyrr koma því við að mæla fyrir frv., en leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og til hv. allshn.