05.03.1973
Neðri deild: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2266 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

152. mál, ferðamál

Ingólfur Jónason:

Herra forseti. Ég get sagt eins og hv. síðasti ræðumaður, að ég ætla aðeins að tala hér nokkur orð. En það teygðist furðulega úr þessu hjá hv. 1. þm. Austf., og talaði hann aðallega um umhverfismálin og þá hættu, sem af því gæti stafað, ef þúsundir, tugþúsundir eða hundruð þús. manna ferðuðust um landið án skipulags og án eftirlits. Þá geta vitanlega hlotizt af því ýmsar skemmdir og einmitt á þeim stöðum, sem á og ætti að vernda. Þess vegna er hægt að taka undir margt af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um þetta mál. En jafnvel þótt lög séu sett um þessi atriði, er ósköp hætt við, að það geti verið erfitt að fylgja þeim eftir. Og rétt er það, að við Íslendingar eigum að hafa hóf á því kappi, sem við höfum á því að fjölga ferðamönnum. Ég held, að það sé bezt að hafa það að leiðarljósi, að sígandi lukka sé bezt í þessu efni.

Það hefur verið ör þróun í þessum málum síðasta áratuginn, mjög ör, upp í 15% aukning árlega, og má heita, að það hafi verið undravert, að það skyldi takast að taka á móti öllu því fólki, eins og við virtumst vera vanbúin til þess, þegar ferðamannaaukningin byrjaði fyrir alvöru. Árið 1959 voru ferðamennirnir rúmlega 12 þús. og skildu eftir gjaldeyri í landinu, 247 kr. hver í beinum gjaldeyri, þ. e. a. s. peninga og tékka. Auk þess var gjaldeyrir, sem þeir skildu eftir, þegar þeir ferðuðust með íslenzkum flugvélum. Gjaldeyristekjurnar voru þetta ár aðeins 16 millj. 426 þús. kr. miðað við fast gengi eins og það var árið 1959. Þetta var ekki stór peningur, og því var ekki hægt að tala um, að ferðmálin væru atvinnuvegur hjá þjóðinni, þegar þau gáfu ekki meira en þetta. En síðan hefur þetta breytzt þannig, að nú er farið að tala um, að ferðamálin séu atvinnuvegur, enda er um allmiklar gjaldeyristekjur að ræða nú af erlendum ferðamönnum. Árið 1971 skildi hver ferðamaður eftir í gjaldeyri 7678 kr., þ. e. í beinni eyðslu, peningum og tékkum, auk fargjalda til og frá landinu. Og þetta ár voru gjaldeyristekjurnar 9.3% af heildarútflutningsverðmætinu. Þegar svo er komið, er hægt að fara að tala um, að ferðamálin séu umtalsverð atvinnugrein, sem munar mjög um. Ég tel, að það sé eðlilegt að vinna að ferðamálum framvegis þannig, að aukningin geti orðið 12–15% á ári. En til þess að það megi verða, þarf vitanlega margt að gera. Það þarf fleiri hótel, bæði hér í Reykjavík og út á land. Það þarf að mennta þjónustuliðið, hótelfólk, til þess að taka á móti þessu fólki, taka vel á móti því. Ég geri ráð fyrir því, að þótt vel verði að þessum málum unnið, verði tæplega eðlilegt að setja markið hærra í árlegri aukningu en verið hefur, miðað við, að unnt sé að taka á móti fólkinu eins og vera ber.

Það sýnir sig, hvað hótelaukningin hefur orðið mikil á einum áratug, að hér í Reykjavík árið 1959, sem ég byrjaði að tala um, eru hótelherbergin aðeins 255, en 1971 eru þau orðin 750. Og úti á landsbyggðinni eru þau árið 1971 1373, en ekki skrá yfir það, hve mörg þau voru 1959. Það eru heimavistarskólarnir, sem hafa bjargað málunum úti á landsbyggðinni yfir sumartímann undanfarið. Eftir 1960 var farið að taka þá í notkun. Ferðaskrifstofa ríkisins hefur unnið mjög þarft og gott verk með því að annast rekstur á hinum svokölluðu Edduhótelum yfir sumarið. Það hefur farið vel úr hendi, hefur verið myndarskapur á öllu. Edduhótelin hafa yfirleitt gott orð á sér. Það er vitanlega mjög skynsamleg ráðstöfun að nota heimavistarskólana þannig að sumrinu og nýta þá fjárfestingu, sem er búið að leggja í, og hlýtur að verða gert áfram. En nú er að því unnið, eftir því sem frekast er unnt, að fengja ferðamannatímann. Og ef tækist að lengja ferðamannatímann, er náttúrlega ekki um það að ræða að nota heimavistarskóla að vetrinum til, ekki snemma að vori og ekki heldur seint að hausti. Þá eru skólarnir byrjaðir, og við það skapast vandamál. Ef það tækist að verulegu marki að lengja ferðamannatímann, þarf nýtt hótelrými. Ég heyrði, að hæstv. samgrh. sagði hér í ræðu fyrir nokkrum dögum, þegar hann talaði fyrir þessu máli, að prófessor Alkjær, sem vinnur að ferðamálum á Íslandi, hefði það eina takmark að lengja ferðamannatímann. Við skulum segja, að þetta sé aðaltakmarkið, en það er fleira, sem er á bak við þá ferðamálaáætlun, sem prófessorinn vinnur að. Það er allsherjar skipulag á ferðamálum í landinu og till. um, á hvern hátt að því megi vinna sem bezt. En vegna óstöðugrar veðráttu hér er erfiðara að stefna fólki hingað til vetraríþrótta heldur en t. d. í Sviss, Alpafjöllunum og annars staðar, þar sem staðviðri er. Ef það væri alveg öruggt, að við hefðum alltaf skíðafæri og skautafæri hér norður frá, þá væri víst enginn vandi að fá fólk hingað í þúsundum eða tugþúsundum til þess að iðka vetraríþróttir. En vegna umhleypinga að vetrinum til er erfitt að reiða sig á það, að við höfum þá aðstöðu að geta iðkað vetraríþróttir.

Ferðamálasjóður er vitanlega vanmegnugur, og það má segja, að hann hafi alltaf fengið of lítið fjármagn. Eigi að síður hefur hann gert talsvert gagn, og það má jafnvel segja, að hann hafi gert mikið gagn. Upphæðin, sem hann hefur lánað, er ekki stór, ekki miðað við krónuna, eins og hún er að verðgildi 1973, 83.7 millj. kr., en þetta var talsverð upphæð miðað við gildi kr. 1965–1970. Fyrir þessa upphæð hefur verið gert mikið, sérstaklega úti á landi, með því að byggja hótel og endurbæta veitingaaðstöðu, sem fyrir hendi var. En nú er lagt til í þessu frv. að efla ferðamálasjóð. Gert er ráð fyrir því að auka framlag ríkissjóðs, þannig að það verði minnst 10 millj. kr. Það hefur verið 5 millj. kr. undanfarin ár, og 10 millj. kr. 1974, jafnvel þótt það væri 1973, eru e. t. v. minni upphæð en var áður, þegar það voru aðeins 5 millj. kr., miðað við óðaverðbólguna og gildi kr. Ef fjárhagur ríkissjóðs er góður, er vitanlega heimilt að hafa framlagið meira. En svo er í frv. till. um tekjuöflun, þ. e. að hækka hið svokallaða rúllugjald upp í 100 kr. og að ferðamálasjóður fái helming af því. Þetta er áreiðanlega veruleg upphæð yfir árið. Ég ætla hvorki að mæla með þessu í dag né á móti, en mér finnst ekkert óeðlilegt, þótt till. komi fram um slíka fjáröflun, því að vissulega þarf að efla ferðamálasjóð. En það eru þegar komin fram mótmæli gegn þessari till., allhörð mótmæli, og eiga eftir að koma fleiri, þegar málið kemur aftur til umr. úr n. Og þá er eðlilegt, að menn velti því fyrir sér, hvort aðrar till. til fjáröflunar séu fyrir hendi, sem heppilegri séu.

Ég tel, að það sé eðlilegt að efla ferðamálasjóð með einhverjum ráðum meira en gert hefur verið til þessa. Þegar allir eru orðnir sammála um, að ferðamálin séu umtalsverð atvinnugrein, sem gefur miklar gjaldeyristekjur, þá er vitanlega miklu hægara að ræða um fjáröflun eða eitthvað, sem gæti verið aflgjafi og staðið undir og eflt þessa atvinnugrein, heldur en fyrir 10–12 árum, þegar enginn viðurkenndi ferðamálin sem atvinnugrein og menn komu ekki auga á, að þarna væri um að ræða neinar umtalsverðar tekjur. Nú er þetta staðreynd, og þá hlýtur að vera hægara en áður að fá ferðamálin viðurkennd.

Nú er það svo, að þó að ferðamálasjóður hafi verið að ýmsu leyti lítils megnugur, hefur samt á þessu tímabili tekizt að auka húsrými, hótelin, og styðja að ferðamálum á margan hátt. Það hefði vitanlega ekki verið gert, nema fjármagn til þess hefði fengizt einhvers staðar frá. Hótelin, sem hafa verið byggð á liðnum áratug í Reykjavík, eru Hótel Saga, Hótel Esja, Hótel Loftleiðir, Hótel Holt og Neshótel. Þessi hótel kosta, miðað við gildi krónunnar í dag, milljarða kr., en kostuðu, á meðan krónan var og hét, eigi að síður mörg hundruð millj. kr. Þetta fjármagn er komið úr bankakerfinu, að mörgu leyti fyrir aðstoð stjórnvalda, þótt það kæmi ekki úr ferðamálasjóðnum. Til þess að ferðamálin gætu þróazt hér, þurfti einnig að bæta úr húsnæði úti á landsbyggðinni. Það dugði ekki að hafa aðeins hótelrými hér í Reykjavík. Það má segja, að enn sé þörf á auknu hótelrými úti á landsbyggðinni.

Það, sem gefur einnig ferðamálunum gildi hér, er sú staðreynd, að vegna þess að hingað koma erlendir ferðamenn í vaxandi mæli, getum við haldið uppi öruggum og góðum samgöngum við önnur lönd. Flugfélagi Íslands hefur verið kleift að kaupa tvær þotur til millilandaflugs, vegna þess að útlendir ferðamenn hafa streymt til landsins og notað vélar Flugfélagsins bæði til Íslands og aftur tll baka. Þegar Flugfélagið á sínum tíma ákvað að ráðast í þessa miklu fjárfestingu, sem eðlilegt var að gera, þá gerðu stjórnendur félagsins sér grein fyrir, að ferðamannastraumurinn til Íslands, varð að standa undir kostnaði við vélakaupin. Það er ljóst, að það var ofviða fyrir Íslendinga að borga einir þessi dýru tæki. Reynslan hefur orðið sú, að það eru ferðamennirnir útlendu, sem hafa borgað mestan hluta af kaupverði vélanna og staðið undir rekstri þeirra. Einnig er það stór þáttur í tekjum Flugfélags Íslands nú orðið að flytja erlenda ferðamenn á milli staða innanlands. Ef við flugum norður til Akureyrar, vestur á Ísafjörð eða út í Vestmannaeyjar, t. d. s. l. sumar, þá var oft helmingurinn af farþegunum útlendingar. Það er vissulega ánægjulegt, því að það er vitað, að þeir borguðu fargjaldið með erlendum gjaldmiðli.

Ég er sammála hv. 1. þm. Austfj., að við megum ekki einblína svo mikið á að auka ferðamannastraum erlendis frá, að við gleymum því, hvers virði það er fyrir Íslendinga sjálfa að ferðast um landið og kynnast því. Mér finnst það næstum því raunalegt, þegar Íslendingar kappkosta að fara til útlanda í júlí og ágústmánuði, þegar bezt og blíðast er hér, en láta það vera að kynnast eigin landi. Ég held, að það sé góður siður, sem er að færast í vöxt, ef menn vilja endilega fara til útlanda í frí og til suðlægra landa, að fara þá frekar að vetrinum til heldur en sumrinu, en nota þá frídaga, sem fólk hefur á sumrinu, til að ferðast innanlands.

Það er ekki að efast um, að tilgangurinn með þessu frv. er góður, og það mælir vissulega með frv., að ágætir menn og kunnugir ferðamálum hafa samið það. Hitt er svo engan veginn víst, þótt þetta frv. verði að lögum, að það nái þeim tilgangi, sem því er ætlað að gera. Það er sagt í frv., að það eigi að bæta skipulag ferðamálanna frá því, sem er, og það eigi að taka allt fastari tökum en verið hefur. Það er langt frá því, að mér detti í hug, að lög um ferðamál og ferðamálaráð frá 1964 séu þannig, að það sé ekki ýmislegt þar, sem megi breyta til batnaðar. Ég er alveg sannfærður um, að miðað við þá reynslu, sem við höfum fengið, síðan lög um ferðamál voru sett, hlýtur að mega finna þar margt, sem má breyta til batnaðar. En því má ekki gleyma, að síðan þau lög voru sett, hefur ferðamannaaukningin verið miklu meiri en nokkrum manni datt í hug, að gæti orðið. Um leið og menn gera till. um breytingu á þeim lögum, getum við viðurkennt, að lögin hafa reynzt mjög veh alveg ágætlega. En spurningin er, hvort við getum með breytingu gert lögin betri en þau hafa verið, þannig að ferðamálin geti þróazt betur en undanfarið og gefið þjóðinni meiri tekjur en áður hefur verið. Ég tel, að það sé meiri vandi að breyta löggjöfinni frá 1964 vegna þess, hversu vel hún hefur reynzt. Ferðamálaráð hefur starfað vel. Það hefur starfað kauplaust og af mikilli óeigingirni, og kannske hefur það starfað betur vegna þess, að það starfar kauplaust. Ef menn gefa sig til starfs án þess að fá greiðslu fyrir það, þá er það af áhuga og hugsjón. Ef gengið er til starfsins af innri hvöt og áhuga miklu frekar en að taka laun fyrir það, þá er ekki ótrúlegt, að það sé einmitt með því móti unnt að fá meiri árangur en ef menn setjast til starfsins sérstaklega til þess að fá borgun fyrir.

En það á ekki að setja ferðamálaráð alveg af. Það á að hafa 7 manna ferðamálaráð samkv. frv. í staðinn fyrir 9 manna ferðamálaráð. Það er ekki minnzt á það, hvort það starfi kauplaust, en það á að hafa annan aðila yfir sér, Ferðamálastofnun Íslands, með 5 manna stjórn og ferðamálastjóra. Ekki dettur mér í hug, að stjórn Ferðamálastofnunar Íslands, úr því að nafnið er svona háfleygt, eigi að starfa kauplaust, og ekki heldur ferðamálastjóri. Það eru nú kannske smámunir að vera að tala um þetta, en því verður ekki neitað, að það er talsvert um það í lagasetningu okkar nú og þeim frv., sem lögð eru fram, að það eigi að skipa nefndir og að skipa ráð og að fjölga þeim, sem koma við stjórnunina, og þá er hætt við, að það geti hvort tveggja skeð, að það verði ofstjórn og kostnaður langt umfram það, sem þyrfti að vera. Ferðaskrifstofu ríkisins á að leggja niður, en Ferðaskrifstofa ríkisins hefur stundum verið umdeild. Eigi að síður getur enginn neitað því, að Ferðaskrifstofan hefur átt mikinn þátt í, ekki sízt nú síðustu árin, að vinna að eflingu ferðamálanna. Ferðaskrifstofa ríkisins hefur aflað mikilla tekna með ýmsu móti, bæði með því að taka á móti ferðamönnum, með því að hafa minjagripasölu og nú síðast með því að hafa ákveðinn hundraðshluta af komu ferðamanna á Keflavíkurflugvöll samkv. samningi. Ferðaskrifstofa ríkisins hefur varið þessu fjármunum mjög vel. Hún hefur varið þessu fjármagni aðallega til landkynningar erlendis. Þess vegna er það, að ríkissjóður hefur ekki þurft að láta mikið fjármagn af hendi til landkynningar. Það er Ferðaskrifstofa ríkisins og flugfélögin bæði, bæði Loftleiðir og Flugfélag Íslands, sem hafa varið mjög háum fjárhæðum á okkar mælikvarða til landkynningar. Það er enginn vafi á því, að landkynningarstarfsemi þessara þriggja aðila og ýmissa ferðaskrifstofa á sinn stóra þátt í því að ferðamannastraumurinn hefur beinzt til Íslands síðustu árin.

En nú mun einhver segja: Ferðamálastofnun Íslands getur gert þetta eins vel og Ferðaskrifstofa ríkisins, og Ferðamálastofnun Íslands getur tekið í arf þær tekjur, sem Ferðaskrifstofan hefur, þ. e. samninginn við Íslenzkan markað á Keflavíkurflugvelli, sem gefur nokkrar millj. kr. á ári, — ég man ekki, hve margar, en umtalsverða upphæð, — og það má verja fé þessu áfram til landkynningar. Þetta gæti ég trúað, að hæstv. samgrh. vildi segja og þess vegna þyrfti engu að kvíða um þetta. Hæstv. ráðh. er líklegur til að segja: Af þessu þarf ekki að leiða neinn umtalsverðan aukinn kostnað. Það tekur ekki að tala um, þótt það séu kannske nokkur hundruð þús. eða þótt það væru nokkrar millj., vegna þess að þegar þetta er Ferðamálastofnun Íslands, þá getur hún ekki kafnað undan nafni. Ýmsir munu halda, að hún leggi sig fram og leysi málin eins vel og jafnvel betur en þeir, sem áður voru í þessu starfi.

Undanfarið hefur það verið svo, að það hefur verið kölluð saman ferðamálaráðstefna einu sinni á ári, og þar hafa þeir, sem unnið hafa að ferðamálum, komið saman. Þessar ráðstefnur hafa verið mjög þýðingarmiklar í mörgum atriðum. Þar hafa menn borið saman bækurnar, þar hafa verið lagðar fram till. til úrbóta í ferðamálum, og menn hafa látið ljós sitt skína um það, hvað mætti betur fara. En þetta hefur aðeins heitið ferðamálaráðstefna og komið saman einu sinni á ári. En í frv. er talað um ferðamálaþing, og það er náttúrlega miklu virðulegra nafn. Og það er ekki ætlazt til þess, að þetta ferðamálaþing kafni undir nafni. En það er aðeins eitt, sem skyggir á nafngiftina, og það er, að ekki er enn vitað, hverjir eiga að mæta á þinginu, og ekki heldur, hve margir þeir eiga að verða. En það hlýtur að vera til bóta, og það er enginn vafi á því, að ýmsir af þeim, sem áður, sendu menn á ferðamálaráðstefnu, munu senda aðila á ferðamálaþing. Það er ekki ástæða til þess að vera finna að þessu, vegna þess að það út af fyrir sig er meinlaust. En nafnið eitt dugir ekki, og stofnunin getur unnið kannske eins vel og kannske betur, þótt lítið færi fyrir nafninu. Eitt er víst, að með ferðamálin er eins og margt annað í okkar landi, að við skyldum varast að hafa yfirbygginguna of mikla og of kostnaðarsama, heldur reyna að láta að málunum kveða, án þess að það sé allt of mikil yfirbygging og of mikill kostnaður.

Það er ekki nema gott til þess að vita, að það verður unnið að þessum málum áfram með aðstoð Sameinuðu þjóðanna. Það er enginn vafi á því, að við getum haft eitthvað gott af því, enda þótt við getum ekki tekið ómeltar allar þær till., sem þannig koma erlendis frá, þótt frá sérfræðingum sé. Það er enginn vafi á því, að það verður notadrýgst það, sem okkar menn leggja fram, sem unnið hafa að þessum málum undanfarið og eru orðnir málunum kunnugastir. Það verður notadrýgst, sem þeir hafa til málanna að leggja. En eigi að síður getur verið stuðningur að þessu og kom ekki til mála að hafna því, þegar það fyrst var fram boðið árið 1965. Ferðamálaráð gerði till. þá um, að aðstoðin yrði þegin, og þótti sjálfsagt að verða við því. Síðan hefur verið að þessu unnið, eins og hæstv. samgrh. lýsti hér við umr. fyrir nokkrum dögum.

Við skulum vona, að ferðamálin þróist á hagstæðan hátt og það verði hæfileg fjölgun árlega á ferðamönnum. En því hefur verið spáð, að 1980 komi hingað til lands 150 þús. ferðamenn. Það mun verða með 12–13% árlegri aukningu. Og tekjur af 150 þús. ferðamönnum ættu að geta orðið næstum því þrefaldar við það, sem þær hafa verið nú síðustu tvö árin. Þjóðarbúið hefur þarna nýja atvinnugrein og nýjan tekjustofn, og það má segja, að það snerti alla landsmenn. Það er ekki lítið af landbúnaðarvörum, sem 60–70 þús. ferðamenn nota hér á landi, þótt ferðamannatímabilið sé svona stutt. Það er mikið af kjöti, mjólk og smjöri, sem ferðamennirnir nota. Það er gott til þess að vita, að það er borgað hæsta verð fyrir þá vöru, sem þeir nota. Þarna er verið að vinna og efla góðan markað fyrir þá vöru, sem við annars þyrftum að flytja á erlendan markað fyrir tiltölulega lágt verð.

Það má segja, að ýmislegt af því, sem ég hef sagt í sambandi við frv. sjálft, sé miklu frekar smávegis nöldur heldur en miklar aðfinnslur eða mótmæli. Ég hef aðeins bent á, að ýmis atriði í þessu frv. séu kannske hæpin og vafasamt, að þau séu til bóta frá því, sem verið hefur. Það gæti leitt til aukins kostnaðar frá því, sem verið hefur. En hins vegar sé ég ekki, að frv. marki nokkur spor. Hins vegar veit ég, að það er erfitt að gera þær till. í þessum málum, sem væru alveg öruggar til bóta eða leiddu alveg að sjálfsögðu til þess, að við gætum haft meiri tekjur af ferðamönnum en við höfum. Ég tel, að þó að við breyttum lögum um ferðamál ekki neitt, gætum við haldið áfram að auka ferðamannafjölda til landsins alveg í sama mæli og undanfarin ár. Við getum haldið áfram að hafa vaxandi tekjur af ferðamönnum alveg eins og undanfarin ár. En eigi að síður má vel vera, að það sé eitthvað í þessu frv., sem gæti verið til bóta. Hv. 1. þm. Austf. talaði um umhverfisverndina, sem ekki er í núv. lögum um ferðamál, og það út af fyrir sig er víst ekki neitt deiluatriði, að setja það í lög, enda þótt það sé ekki einhlítt. En þess ber að geta, að ákvæði eru í öðrum lögum um umhverfisvernd, sem hægt er að grípa til og nota.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að segja fleiri orð um þetta mál. Ég vildi aðeins vekja athygli á því, að ferðamálin eru í dag mikill þáttur og þýðingarmikill í þjóðarbúskapnum. Ég tel, að það sé eðlilegt, að menn velti því fyrir sér, á hvaða stigi við stöndum í þessum málum, hvort það sé nauðsynlegt að breyta gildandi lögum eða hvort við eigum að fresta breytingunni, hvort það væri eðlilegt, að þetta frv. dagaði uppi á þessu þingi og fengi enn betri undirbúning. Ég er ekki að gera till. um það, en það er nú svo, að þegar verið er að breyta lögum og setja lög, sem eiga að standa og þjóðin ætlar að njóta góðs af, þá er það vitanlega miklu þýðingarmeira, að Alþ. gefi sér tíma til rækilegrar athugunar á breytingum og lagasetningunni, heldur en hvort lögin eru sett árinu fyrr eða seinna.