05.03.1973
Neðri deild: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2274 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

152. mál, ferðamál

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér hefur verið lagt fram frv. til l. um skipulag ferðamála. Hæstv. samgrh. hefur fylgt því úr hlaði með mjög langri og ítarlegri ræðu. Ég minnist þess, að það var, að ég held, hvergi vikið að ferðamálum í stjórnarsáttmálanum frá 14. júlí 1971. Ég held, að þar sé ekki minnzt einu orði á ferðamál. En nú er þetta frv. þó komið fram.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um frv., þar sem það kemur væntanlega til þeirrar n., sem ég á sæti í. Mig langar þó til þess að renna augunum yfir það á þessu stigi málsins rétt í svip.

Löggjöf um ferðamál er ung hér á landi. Fyrstu lögin voru sett árið 1964, ef frá eru skilin ákvæði um Ferðaskrifstofu ríkisins, sem munu fyrst hafa verið lögfest 1936.

Í I. kafla þessa frv, er rætt um tilgang og yfirstjórn, og segir þar, að tilgangur frv. sé að stuðla að þróun ferðamála og skipulagningu ferðaþjónustu fyrir íslenzkt og erlent ferðafólk sem mikilvægs þáttar í íslenzku atvinnulífi, bæði með hliðsjón af þjóðhagslegri hagkvæmni og umhverfisvernd. Það er rétt, að ef við ætlum okkur að taka á móti fjölda erlendra ferðamanna árlega og gera þetta að mikilvægri atvinnugrein, mega þessi mál ekki vera án skipulags.

Í II. og III. kafla frv. er rætt um Ferðamálastofnun Íslands, ferðamálafélög, ferðamálaþing og ferðamálaráð. Í þessum tveim köflum er gert ráð fyrir skipulagsbreytingu á yfirstjórn þessara mála frá því, sem nú er. Það þarf að skoða og velta því fyrir sér, hvort þessi breytta skipan horfir til bóta. Á það var bent áðan af hv. 1. þm. Sunnl., að löggjöfin um ferðamál, hin fyrsta og eina hér á landi, hefði reynzt vel og markað, að því er virtist, nægilega rúman ramma fyrir þróun þessara mála. Þess vegna þarf allvel að því að hyggja, hvort breytt skipulag horfi til bóta. Þess er þó að geta, eins og gert hefur verið, að frv. þetta er samið af reyndum mönnum á sviði ferðamála. En ég tel, að þessu atriði þurfi að velta fyrir sér. Það var að mínum dómi rétt aths. hjá hv. 4. landsk. þm. hér áðan, að það er e. t. v. dálítið hæpið að leggja hæstv. ráðh. svo mikið vald í hendur eins og 4. gr. gerir ráð fyrir, og ástæða til að skoða nánar, hvort þeim málum megi ekki jafnvel eða betur skipa með öðrum hætti.

Í 6. gr. er rætt um verkefni væntanlegrar Ferðamálastofnunar Íslands, og ef við lítum aðeins á þessa gr., þá þekur hún heila bls., og þar er vitanlega um geysimikið og fjölþætt verkefni að ræða. Ef rækja ætti þau störf fullkomlega eftir orðanna hljóðan, krefst framkvæmd þeirra mikils fjármagns. Mig minnir þó, að hæstv. ráðh. hafi látið orð falla eitthvað á þá leið, að þetta frv. feli ekki í sér aukin útgjöld, a. m. k. ekki á þessu stigi málsins. En þessi gr. er fjölþætt, og kostar mikið að framkvæma hana til fulls.

IV. kafli frv. fjallar um almennar ferðaskrifstofur. Ég held, að þar sé ekki um neinar meiri háttar breytingar að ræða. Þó má geta þess, að það er einmitt á þessu sviði, sem löggjöfinni frá 1964 hefur nokkuð verið hreytt á síðustu árum. En frá löggjöfinni, eins og hún er nú í gildi, held ég, að séu ekki ýkjamikil frávik.

Í V. kafla er svo rætt um Ferðamálasjóð. Þar kemur að fjáröfluninni, að því meginatriði í framkvæmd þessara mála. Það má segja, að Ferðamálasjóður, þó að hann hafi gegnt mikilvægu og athyglisverðu hlutverki, hafi hingað til haft yfir næsta litlu fjármagni að ráða. Ég minnist þess, að það hefur ekki tekizt á undanförnum þingum við samningu og umr. um fjárlagafrv. að fá hið árlega framlag úr ríkissjóði hækkað úr 5 millj. í 10 millj., en í 23. gr. er þó hið árlega framlag komið upp í 10 millj. Þá er rætt í kaflanum um Ferðamálasjóð um nýja tekjuöflun af svonefndu rúllugjaldi. Ég hygg, að ekki verði allir sammála um það atriði og þar megi velta hlutunum betur fyrir sér, hvort rétt er að fara inn á þessa braut eða hyggja að einhverri annarri leið til fjáröflunar.

Hv. 1. þm. Austf. ræddi um frv. áðan, og ég get verið mjög sammála mörgu af því, sem hann sagði. Hann er, eins og menn vita, mikill ferðamaður sjálfur og telur augljósa sálubót að ferðalögum og bendir á, að menn eigi að lifa í sátt við land sitt. Einnig er hann framarlega í náttúruverndarsamtökum. Ég get mjög vel fallizt á margt af því, sem hann sagði og hafði að segja um þessi mál, ekki sízt þar sem hann benti á, að búa þyrfti landið þannig, að hægt væri að ferðast um það, ekki væri nóg að byggja hótel. Það er hverju orði sannara. Hyggja þarf að umhverfisvernd. En erfitt mun þó reynast að taka á móti gestum og ferðamönnum án þess að bjóða þeim á einhvern stað, þar sem þeir hafa þak yfir höfuðið og geta dvalizt um nætursakir.

Hv. 1. þm. Sunnl. ræddi um frv. í alllöngu máli. Hann ræddi um málið af reynslu, því að hann hefur verið mikill áhugamaður um þau efni. Lög um ferðamál frá 1964 voru sett í hans ráðherratíð, og það er vitað mál, að hann hefur stutt að þessum málum eftir mætti. Hann benti á, að lenging ferðamannatímans væri atriði, sem vinna þyrfti að, og einnig það, sem merkilegt er, að það eru fleiri en áhugamenn á Íslandi, sem telja, að landið eigi framtíð sem ferðamannaland. Það hefur einnig reynzt auðfengin aðstoð frá Sameinuðu þjóðunum til að rannsaka þessi mál nánar. Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri að þessu sinni, en aðeins benda á að lokum, að ferðamálin hafa á undanförnum árum verið borin uppi af áhugamönnum með vaxandi stuðningi ríkisvaldsins. Þau hafa þróazt mjög ört og gegna m. a. nú stórvaxandi hlutverki í gjaldeyrisöflun og þjóðarbúskap. Nýja löggjöf um þessi efni þarf að gera svo úr garði, að þessi þróun megi halda áfram og stefna í heillavænlega átt fyrir landið og þjóðina. Ef það verður haft í huga, þá er ég sammála hv. 1. þm. Sunnl., að það skiptir ekki öllu máli, hvort sú löggjöf verður sett árinu fyrr eða seinna.